07.05.1932
Neðri deild: 69. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 275 í D-deild Alþingistíðinda. (3984)

177. mál, hæstaréttardómaraembættið

Jónas Þorbergsson:

Það er illa farið, að þetta mál skuli vera rætt hér án þess að fram komi þær upplýsingar í því, sem hæstv. dómsmrh. kann að hafa með höndum, en hann mun vera bundinn við umr. í Ed. Mér þætti vel við eigandi, ef hæstv. forseti frestaði umr. um þetta mái þar til þessar upplýsingar gætu komið fram. Það skiptir miklu máli að vita, af hverju þessi hæstaréttardómari var leystur frá embætti. Ég hafði haldið, að þetta hefði verið gert vegna veikinda, enda var þessi dómari svo veikur um það leyti, að honum var vart hugað líf, en flm. segir í grg. till., að dómarinn hafi verið leystur frá embætti gegn sínum vilja. Þessi staðhæfing styðst ekki við nein gögn, sem enn séu fram komin. Sömuleiðis er ókunnugt um heilsufar þessa manns. Hv. flm. fullyrðir, að hann sé við góða heilsu. Mér vitanlega liggur ekki frammi neitt læknisvottorð, sem réttlæti slíka staðhæfingu hv. flm. um það, að þessi dómari hafi óskerta starfskrafta.

Mér finnst fljótfærnisbragur á till. og álit, að það væri kurteislegra að lofa hæstv. dómsmrh. að leggja fram sín rök í þessu máli. Ég skýt því til forseta, hvort hann sjái sér ekki fært að fresta umr. a. m. k. þar til síðar í dag.