01.03.1932
Neðri deild: 17. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 998 í C-deild Alþingistíðinda. (4010)

51. mál, Menningarsjóður

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Ég er að vísu samþykkur hv. flm, um það, að ástæða geti verið til þess að afla ríkissjóði nokkurs tekjuauka, og sennilega koma fram fleiri frv. á þinginu um þetta í því skyni. En ég ímynda mér, að hv. flm. sé það e. t. v. ekki kunnugt, að þessi sjóður hefir fjárhagslega staðið undir allmiklum óhjakvæmilegum útgjöldum vegna andlegs lífs í landinu, síðan hann var stofnaður. Þriðjungur þessa sjóðs gengur til þess að kaupa listaverk fyrir landið af ísl. listamönnum, og það sjá allir, að aðalmöguleikar þessara listamanna til þess að lifa eru bundnir við þennan sjóð. Ef litið er aftur til þeirra tíma, þegar veittar voru 3 þús. kr. til listaverkakaupa, þá sjá allir, að sú upphæð mundi hrökkva næsta skammt til þeirra mörgu efnilegu listamanna, sem nú eru starfandi hér á landi. jafnvel þótt sumir þeirra selji nokkuð á venjulegum markaði og a. m. k. einn selji málverk sín erlendis. Ef menn athuga þær upphæðir, sem veittar eru í fjárl. til kirkju- og skólamála og bera þær saman við hlut listamannanna, þá verður hann ekki stór. Og ég býst við því, þar sem flm. þessa frv. er nú málaflutningsm., en þeir eru taldir að vera einna bezt settir efnalega af öllum stéttum hér í bænum, þá geti hann ímyndað sér, að þröngt muni vera í búi margra listamanna, ef borið er saman við það, sem meira og minna lítilfjörlegir málafærslumenn fá upp úr starfi sínu.

Annar þriðjungur þessa sjóðs fer til vísindalegra rannsókna á náttúru landsins. Það er alveg sama um það að segja og hitt, að þessir menn, náttúrufræðingarnir, hafa alltaf verið sveltir hér á landi, allt frá því að Sveinn Pálsson hóf sína starfsemi að rannsaka landið. Og heita mátti, að Jónas Hallgrímsson væri drepinn úr hungri. Hin sama barátta hefir alltaf verið fyrir þeim mönnum, sem gæddir hafa verið þeim „idealisma“, sem þurfti til að leggja stund á slík fræði.

Einn þriðjungur sjóðsins er fyrir ísl. rithöfunda. Má segja alveg hið sama um þann hlutann og hina fyrri, og ekki verða rithöfundarnir síður fyrir barðinu á dýrtíðinni en aðrir. En ég vil skjóta því til hv. 2. þm. Skagf., að nýlega hefir verið dreift hér út rannsókn, sem sýnir, að kostnaður við útbýting erlendra vara hér í Rvík kostar þjóðina árlega um 13,5 millj. kr. Og þegar litið er á það, hvílíkar óhemju fjárhæðir eyðast á þennan hatt gersamlega að óþörfu, þá álít ég, að hyggilegast væri nú kreppunni að leita féfanga þar, sem meira er af að taka og minna að missa fyrir þjóðina, þótt eitthvað fækkaði milliliðum landsins.

Ennfremur er þess að geta, að nokkuð af þessu fé Menningarsjóðs safnast saman þegar um verulegar tekjur er að ræða, til bygginga fyrir landið, af því, sem fer til náttúrufræðideildarinnar. Og ég veit, að tekjur þessa sjóðs hafa verið með meira móti árið 1930. Annars skal ég ekki ræða það atriði frekar.

Ég, álít, að þetta mál eigi að fara til n. og athugast þar með rökum, en hinsvegar taldi ég rétt nú við 1. umr. málsins að benda á, að þeir andlegu starfsmenn, sem hér yrðu að gjalda, mega sízt við því, að byrjaður sé niðurskurður á þeim.