02.03.1932
Neðri deild: 18. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1007 í C-deild Alþingistíðinda. (4024)

52. mál, fræðslumálastjórn

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Það má taka undir margt af því, sem hv. flm. sagði um þörfina á að spara útgjöld ríkissjóðs. En þó þykir mér nokkuð hart að gengið að leggja nú til að fella niður nýupptekin störf, sem hafa 1/4 lægri útgjöld í för með sér en það fyrirkomulag, sem áður var í þessu efni. Áður greiddi ríkissjóður til prófdómara vegna barnafræðslunnar um 20 þús. kr. á ári, en með l. frá 1930 var sú upphæð færð niður í 15 þús. kr. svo að allir sjá að með þessu voru sparaðar 5 þús kr. á ári.

Annars get ég sagt af eigin reynslu, að sú breyt., sem upp var tekin í þessu skyni með l. frá 1930, er til mikilla bóta og gerir fræðslumálastj. hægra um vik að fylgjast sem bezt með þessum málum, og langtum betur en eldra fyrirkomulagið gerði. En við, sem staðið höfum að þessari breyt., höfum aðeins hugsað okkur hana sem millibilsástand, er ljúki með því, að skipaðir verði sérstakir menn til að vinna þessi störf. Þó hefir ekki þótt rétt að hallast að því strax, heldur bíða um stund og láta reynsluna skera úr, og er sennilegt, að sú reynsla fáist á næstu 2–3 árum.

Ég er fús að ræða við hv. flm. og þá hv. n., sem málið fær til athugunar, hvort ekki mundi fært, a. m. k. um stundarsakir, að spara eitthvað af þeirri upphæð, sem ætluð er í fjárl. til eftirlits með barnaskólum í kaupstöðum, því að vitanlega er ekki jafnmikil þörf á slíku eftirliti í stórum barnaskólum, þar sem skólastjóri er og margir kennarar, eins og hjá farkennurum í hinum mörgu strjálbyggðu sveitum víðvegar um land. Gæti vel farið svo, að lækka megi þennan lið um 3–5 þús. kr. á ári og sparast þá á þessu breytta fyrirkomulagi allt að helmingi, að kostnaður, sem áður nam um 20 þús. kr. á ári, kemst niður í 10 eða 12 þús. kr. En lengra held ég, að ekki sé ráðlegt að fara.