02.03.1932
Neðri deild: 18. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1008 í C-deild Alþingistíðinda. (4025)

52. mál, fræðslumálastjórn

Steingrímur Steinþórsson:

Ég ætla ekki að þessu sinni að ræða mál þetta. En út af till. hv. flm. um að vísa frv. til fjhn., þá er ég því mótfallinn og finnst eðlilegra og í alla staði betur viðeigandi, að því sé vísað til hv. menntmn. Ef hér væri um bráðabirgðaráðstafanir að ræða, bornar fram í sparnaðarskyni vegna þess, hvað þröngt er í búi ríkissjóðs, þá gæti ég fyrir mitt leyti fallizt á að fjhn. fengi málið til athugunar. En þar sem mér skildist af ræðu hv. flm., að hann ætlaðist til, að þessar 15 þús. kr. skuli sparaðar til langframa, m. ö. o. fella þessi ákvæði úr l. fyrir fullt og allt, þá er hér verið að breyta grundvelli l. frá 1930, og finnst mér því, að ekki megi ganga fram hjá þeirri fastanefnd hv. þd., er slík mál heyrn undir. Þess vegna geri ég að till. minni, að frv. verði vísað til hv. menntmn.