02.03.1932
Neðri deild: 18. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1009 í C-deild Alþingistíðinda. (4027)

52. mál, fræðslumálastjórn

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Ég ætla aðeins að svara hv. flm. nokkrum orðum að þessu sinni. Það er að vísu rétt hjá honum, að samkv. 1. frá 1930 eiga sveitar- og bæjarfélög að greiða prófdómendum laun, sem ríkissjóður greiddi áður, en það er svo frá því ákvæði gengið í l., að kostnaður sá á ekki að vera tilfinnanlegur. Og ég tel, að nægilegt aðhald sé fyrir hendi um það, að sá prófdómur sé sæmilega ýtarlegur.

Ég hika ekki við að fullyrða það, að starf eftirlitsmannanna er mjög þýðingarmikið fyrir barnafræðsluna og mikill skaði væri að fella það niður. Það getur verið, að einhverjir kunni að líta öðruvísi á þetta mál, en það er nú kunnugt, að almenningur er stundum helzt til fljótur að fordæma nýtt fyrirkomulag, sérstaklega þegar það hefir kostnað í för með sér, og er því ekki öruggt að treysta því, að hann sé réttur dómari í þessu efni. Það er ekki hægt að ætlast til, að almenningur í sveitum geti að svo stöddu dæmt um þetta nýja fyrirkomulag, og þó einhverjir tali um bruðl í þessu sambandi, þá er ómögulegt að telja það ákveðnar röksemdir. Hv. flm. talaði um sína reynslu í þessum efnum í því skólahéraði, þar sem hann er formaður skólanefndar. Eftirlitsmaðurinn, sem fór um Borgarfjörð og fleiri nálæg héruð síðastl. ár, er mjög efnilegur kennari, sem lagði mikla alúð við sitt starf, og eftir þeim ýtarlegu skýrslum, sem hann hefir gefið, er full ástæða til þess að gera sér góðar vonir um árangur af starfi hans. Það er ekki búizt við, að eftirlitið geti orðið alfullkomið fyrirkomulag, enda er á það litið af fræðslumálastj. sem spor í áttina til bóta, sem einskonar millibilsástand, sem síðar verði vísir til annars betra fyrirkomulags, þegar tiltækilegt verður. Ég bið hv. flm. að misskilja mig ekki, þannig að ég sé að segja, að stefnt skuli að því að auka kostnaðinn í framtíðinni, heldur á ég við, að stefnt verði til þróunar á þessu sviði.

Að síðustu vil ég taka það fram, að ég styð till. hv. 1. þm. Skagf. um það, að frv. verði að lokinni umr. vísað til menntmn.