02.03.1932
Neðri deild: 18. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1010 í C-deild Alþingistíðinda. (4028)

52. mál, fræðslumálastjórn

4028Flm. (Pétur Ottesen):

Við höfum hvor sína skoðunina á því, hæstv. ráðh. og ég, hvort meiri trygging sé fyrir því, að þessir farfuglar, sem skjótast inn í skólana 1–2 daga í senn, hafi betra eftirlit með barnafræðslunni en hinir stjórnskipuðu prófdómendur, sem skipaðir voru í viðkomandi héruðum, en frá mínu sjónarmiði hafa þeir síðartöldu ólíkt betri aðstöðu til þess að dæma um kennsluna heldur en þessir kennsluprófastar, sem þjóta í einni lotu um stór svæði og reka aðeins höfuðið inn í skólana, eins og þegar kría sezt á stein. Það er alþekkt fyrirbrigði, að svokallaðir sérfræðingar í ýmsum efnum beiti fyrir sig þeim röksemdum, að sauðsvartur almúginn sé ekki dómbær um þær greinar, er þeir telja sig sérfræðinga i, eins og hæstv-. ráðh. vildi láta á sér skilja. Maður er alvanur að heyra þessar röksemdir, en ég mótmæli þeim í þessu sambandi og tel þær réttnefnda sleggjudóma. Auk þess ber á það að líta, að það er einmitt almenningur, sem á að njóta ávaxtanna af þessu nýja fyrirkomulagi og mun einnig áreiðanlega fá að bera kostnaðinn, svo ekki getur talizt nema eðlilegt, að hann segi skýrt og skorinort álit sitt á þessum hlutum. Það er sagt, að menn séu oft hvatráðir til andmæla, ef taka á kostnaðinn úr vösum þeirra sjálfra, en síður þegar á að láta ríkissjóðinn borga, eins og hér er um að ræða. En það virðist benda á það, að menn álíta, að því fé, sem varið er til „kennsluprófastanna“, væri betur varið á annan hátt.

Hæstv. ráðh. bar mikið lof á þann mann, er haft hefir eftirlit í mínu skólahéraði, og ég skal ekki véfengja það, að hann geti að mörgu leyti verið góður og gegn, en ég get bent á það, að í þessu héraði, þar sem hæstv. ráðh. hefir skipað mig sem skólanefndarformann og þar sem þessi ágæti eftirlitsmaður hefir flogið um, máttu kennarinn og sóknarpresturinn bíð í fyrravor árangurslaust eftir einhverjum mikilsvarðandi skýrslum, sem „prófasturinn“ lofaði að senda þeim áður en barnaprófið var haldið, en sem aldrei komu. Hann hefir náttúrlega sent fræðslumálatjóra sínar skýrslur, en það brást alveg, að kennarinn eða sóknarprestur fengi þær. Annað atriði vil ég benda á, sem bendir til þess, að hv. fræðslumálastjórn sé ekki fullkomlega ljósir þeir fjárhagsörðugleikar, sem sveitarfélög og skólanefndir eiga nú við að stríða, þegar hún tekur upp á því að senda á skólahéruðum, sem ekki höfðu á undanförnum árum séð sér fært að kaupa öll þau kennsluáhöld, sem lög heimtuðu, þessi áhöld, sem vantaði, og sem að sumu leyti komu að mjög vafasömu gagni og jafnframt kröfu um að innleysa andvirðið þá þegar. Og ekki var nóg með það, að greidd væri sú upphæð, sem fólst í hinni upphaflegu kröfu, heldur kom seinna krafa um viðbót við hina færri kröfu, sem sögð var stafa af einhverri gengisbreytingu úti í heimi. Þessar ráðstafanir benda greinilega á skort nærgætni og kunnugleika fræðslumálastjóra á fjárhagsvandræðum almennings. Ég ætla, að þær mótbárur hér á þingi gegn framkominni viðleitni þessa frv. og fleiri slíkra tilrauna til þess að draga úr útgjöldum ríkissjóðsins, stafi af því, að hæstv. stjórn geri sér ekki nægilega grein fyrir því, hve ástandið er ískyggilegt með afurðasölu hjá okkur og aðra afkomumöguleika.

Ég er nú víst dauður við þessa umr. eftir þessa ræðu, en ég skal að lokum minna hæstv. fjmrh. á orð, sem hann viðhafði í fjárlagaræðu sinni um daginn og ég skrifaði þá hér á eitt þingskjalið, þar sem hann áminnir alla dm. að leita allra úrkosta til þess að draga hvarvetna sem mest úr útgjöldum ríkissjóðs og kveðst meira munu á þessu þingi hlusta á þá menn, sem til sparnaðar vilji stofna, heldur en hina.