02.03.1932
Neðri deild: 18. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1012 í C-deild Alþingistíðinda. (4029)

52. mál, fræðslumálastjórn

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Mér var það sönn ánægja, að hv. flm. vitnaði í ummæli úr fjárlagaræðu minni um daginn, en mér þykir það ekki eins skemmtilegt, að hann skuli, að því er virðist, misskilja þau á þann hátt, að ég hafi með þeim lofað að greiða atkv. með hverskonar niðurskurði á útgjöldum ríkissjóðs. Vitanlega gat það ekki verið meiningin, því að þá hefði verið óþarft fyrir mig að leggja fram nokkur fjárlög. Af þessu ætti hv. þm. að geta séð, að hann leggur mjög svo rangan skilning í þessi ummæli mín, er hann vitnar til. Á tvær hliðar verður að sjálfsögðu fyrst og fremst að líta, þegar um sparnaðartill. er að ræða. Önnur er sú, hve langt er gengið í till, en hin hve nauðsynleg sú starfsemi er, sem lagt er til, að dregið sé úr með sparnaðinum. Ég lít svo á, að það séu fjögur atriði í almennum þörfum heimilanna í landinu, sem allra sízt megi spara á, og það eru fatnaður, fæði, húsnæði og barnafræðsla. Meðal menningar- þjóða er barnafræðslan talin ein allra þýðingarmesta nauðsyn þjóðfélagsins, og ég veit hvergi til þess, að í þeim löndum, sem hafa þurft að gera ýtarlegar sparnaðarrástafanir vegna kreppunnar, hafi verið ráðizt á barnafræðsluna. hér í þinginu heyrast aftur á móti sífellt raddir um það, að á barnafræðslunni megi þó alltaf spara. En hver, sem hugsar um það mál í alvöru, hlýtur að viðurkenna, að það væri í mesta máta tilfinnanlegt fyrirkomulag, ef barnafræðslan ætti að ganga upp og niður eftir fiskverðinu eða einhverju þess háttar, þannig að í harðærum væri dregið mjög fræðslunni, en í góðærunum yrði hún aftur á móti aukin.

Þá verð ég að leiðrétta ekki alveg hlutlausa frásögn hv flm. um kennsluáhöldin, sem keypt voru fyrir ýms fræðsluhéruð síðastl. ár. Það er nú liðið á annað ár síðan skólanefndirnar voru aðvaraðar í þessu efni. Þá var öllum kennurum skrifað og þeir beðnir að senda skýrslu um þau kennsluahöld, sem til væru í hverjum skóla. Þegar þær skýrslur komu til fræðslumalastjóra, var skólanefndunum skrifað um það, hver áhöld vantaði í hverjum skóla, þau er lögboðin eru og þyrftu að vera til. Skólanefndunum var jafnframt bent á það, að fræðslumálastjórnin hefði ákveðið að útvega þessi áhöld fyrir þær skólanefndir, er þess óskuðu, og það var jafnframt tekið fram, að þögn skólanefndanna við þessu tilboði yrði tekin sem ósk um það, að fræslumálastjóri sæi um útvegun áhaldanna. Hv. flm. gerði mikið úr þeim upphæðum, er skólarnir hefðu þurft að greiða fyrir þessi áhöld, en þetta er ekki heldur allskostar rétt. Öll þau kennsluáhöld, sem tilskilið er, að einn skóli skuli eiga, nema nú ekki nema sem svarar 300 kr. að verði, svo að það hlýtur að hafa verið mjög bágborið ástand í þessu efni þar, sem skoli hefir þurft að borga svo hundruðum króna skiptir fyrir þessi áhöld, svo að varla sé með sanngirni hægt að telja það mikla fjarstæðu, þó úr því væri bætt. Og eftir, því, sem mig minnir, var þessi kostnaður mestur hatt á öðru hundraði hjá einum skóla. Ég vil taka það fram, að þegar pantanirnar voru gerðar, þá var ekki fyrirsjáanlegt það ástand í fjármálum, sem orðið var þegar vörurnar komu í haust, enda var þeim skólahéruðum veitt undanþága, sem í tíma færðust undan að kaupa öll þau áhöld, sem vantaði. Hin héruðin, sem ekkert létu til sín heyra, voru aftur álitin vilja fá þessi áhöld. Það óhapp bættist svo við, sem líka var ófyrirsjáanlegt, að sterlingspundið og okkar peningar fellu í verði, en þýzka markið steig, en frá Þýzkalandi voru vörur þessar pantaðar. Þetta var ástæðan til þess, að það bættist við verð fyrri sendinganna. Ég varð að segja þetta til þess að leiðrétta missögn hv. flm. Hlutaðeigendur voru allir aðvaraðir, enda hafa viðskiptin hvergi orðið hörð milli skólanefndanna og fræðslumálastjóra í þessum efnum. (PO: Sum héruð hafa þó endursent áhöldin). Það hafa aðeins nokkur héruð gert, sem engu svöruðu fyrirfram, en vildu svo sparka öllu frá sér þegar vörurnar voru komnar. Annars er það óþarft af hv. flm. að lýsa þessum áhaldakaupum með stórum orðum. Það er langt frá því, að hér sé um að ræða heila dýragarða, náttúrugripa- og þjóðminjasöfn. Áhöldin voru útveguð eftir reglugerð, sem lengi hafði gilt, en ekki hafði verið fullnægt, en sem verður að segja, að byggð er alveg á lágmarkskröfum. Mér þykir fyrir að heyra hv. flm. tala um þetta í áminningartón, eins og hann sjái enga hlið á þessu máli nema fjárhagshliðina.

Það kann að vera, að eftirlitsmaðurinn, sem fór um Borgarfjörð og Suðurnes, hafi ekki getað sent öllum skýrslur sínar í tæka tíð. En ég vil segja það, með allri virðingu fyrir hinum æfagamla kennara í Innri-Akraneshreppi, að hann hefði átt að geta haft mikið gott af heimsókn eftirlitsmannsins, en þó meira gagn, ef kennarinn hefði verið yngri. (JAJ: Það á máske eða fara að setja aldurshámark á kennara). Það gæti vel komið til mála að setja t. d. 80 ára aldurshámark á kennara. Það er mjög ástæðulaust að amast við eftirlitsmanninum, þó hann sé ungur, og það er þá ekki mikið gagn að sérfræðinni, ef þaulreyndur eftirlitsmaður getur ekki skapað sér réttara álit á fræðslunni með því að heimsækja skólana heldur en prófdómandi, sem aldrei hefir fengizt við kennslu, þó hann hlusti á próf í 2 daga. Það er alveg hægt að fullyrði, að maður með kennaramenntun, sem auk þess er sérlega dugandi í sínu starfi, getur fengið réttara álit á einum barnaskóla, þó hann kynni sér hann ekki lengur en eina 2 daga, heldur en ólærður og óæfður maður gæti, þó hann væri fleiri vikur í skólanum.

Af þeim ástæðum, er ég hefi nú tilgreint, vil ég fastlega leggja til, að umrædd lagaákvæði fái að standa óbreytt.