02.03.1932
Neðri deild: 18. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1015 í C-deild Alþingistíðinda. (4030)

52. mál, fræðslumálastjórn

Flm. (Pétur Ottesen):

Hæstv. fjmrh. var að tala um æfagamlan kennara í mínu skólahéraði. En ég get sagt honum alveg ákveðið, að það eru engin þau ellimörk komin fram á honum enn, að hann geti ekki innt starf sitt vel af hendi, og að hann stendur þeim, sem yngri eru, fyllilega á sporði og tekur mikið fram mörgum nýgræðingnum úr kennaraskólanum, því það er mál manna, að um marga þeirra megi segja, að þar sé greinilega keyptur kötturinn í sekknum, þar sem þeir eru sumir hverjir. En ef hæstv. ráðh. ætlar að setja 80 ára aldurshámark á kennara, þá má kennarinn í mínu héraði sitja lengi ennþá. (Fjmrh.: Hversu lengi ætli hann megi sitja?). Hann má sjálfsagt bæta við sig einum 12–15 árum enn.