12.05.1932
Neðri deild: 73. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1019 í C-deild Alþingistíðinda. (4043)

70. mál, ábúðarlög

Frsm. (Steingrímur Steinþórsson):

Það er vitað, að fyrir þá, sem jörðina yrkja, er ábúðarréttur sá, er þeir eiga við að búa, eitt mikilsverðasta skilyrðið fyrir því, að þeir geti innt starf sitt af höndum svo vel sé. Frá fornu fari hefir verið tvennskonar ábúðarréttur hér á landi. Annarsvegar hafa verið sjálfseignarbændur, hinsvegar leiguliðar. Þessi tvennskonar ábúðarréttur hefir strax skapazt með byggingu landsins. Tiltölulega fáir menn slógu eign sinni á landið, og afhentu það síðan öðrum, ýmist seldu það, gáfu eða létu í leigu. Fyrstu aldirnar munu þó leiguliðar hafa verið hlutfallslega fáir móts við sjálfseignarbændurna.

Er aldir liðu og aðstaða þjóðarinnar versnaði, fór leiguliðum að fjölga, einkum eftir að kirkjuvald tók að færast í aukana, og þó enn meir við eflingu konungsvaldsins, og um leið jókst neyð alþýðu og kjör leiguliða versnuðu.

Núg. ábúðarlög eru frá 1884. Þótt óhætt sé að telja þau réttarbætur frá því sem áður var, er þó ekki hægt að dyljast þess, að þau hafa einkum verið samin með hag landsdrottins fyrir augum, en minna verið litið á hagsmuni leiguliða. Það er auðsætt, að landeigendur, en ekki leiguliðar hafa fjallað um þá löggjöf. Í þessum lögum eru ákvæði, sem engum virðist þó hafa þótt ábótavant, þar sem með öllu er gengið framhjá hagsmunum og öryggi leiguliða. Þannig er ákveðið, að jörð skuli byggð til eins árs í senn, þótt að vísu megi byggja jörðina til lengri tíma. þarf ekki að fara mörgum orðum um það, hvílíkt öryggisleysi þetta ákvæði skapaði leiguliðum, sem máttu búast við að vera hraktir af ábúðarjörð sinni á hverju vori. Þessi eins árs bygging hefir mjög tíðkazt og vitanlega það öllum varanlegum umbótum á leigujörðum, sem svo hafa verið byggðar. Í öðru lagi var landsdrottinn ekki skyldur til að láta hús fylgja jörð að neinu verulegu leyti, og við það bættist, að réttur leiguliða til að losna við þau hús, er hann lét byggja á leigujörðinni, með sæmilegu verði, var mjög svo takmarkaður. Sama var að segja um jarðabætur og annað, er hann kunni að gera til umbóta. Allt þetta olli því, að aðstaða leiguliða til að gera umbætur á ábúðarjörðum sínum hefir verið mjög erfið til þessa. Afleiðingin hefir orðið sú, að leigujarðir hafa níðzt niður. Menn hafa því fengið rótgróna ótrú á ábúð á leigujörðum, og því hefir það þótt vænst til bjargraða og koma sem flestum jörðum í sjálfsábúð, eins og þjóðjarðasalan ber ljósastan vott um. En hins hafa menn ekki gætt, að ábúðarréttur manna á jörðum einstaklinga hefir ekki batnað, og ekkert hefir verið gert af hálfu löggjafarvaldsins til þess að hindra það, að sami maður hefði eignarumrað á mörgum jörðum samtímis, þótt vitanlegt sé, að kjör leiguliða á heim séu ávallt miklu lakari en á leigujörðum hins opinbera. Jarðir á landinu eru nú taldar alls 6245. Af þeim eru 3316 í sjálfsábúð, en 2929 í leiguábúð, eða 47%. Þegar þess er gætt, að tvíbýli og fleirbýli er tíðara á leigujörðum en sjálfseignarjörðum, má gera ráð fyrir, að meira en helmingur af bændum landsins séu leiguliðar.

Það veltur ekki á litlu, hvernig fer um ábúðarrétt helmings bænda landsins, og þess er ekki að vænta, að veruleg og almenn þrif verði í landbúnaðinum fyrr en réttur leiguliða er betur tryggður en nú.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, stefnir að því að bæta kjör leiguliða. Það er samið af mþn. í landbúnaðarmálum, sem tók til starfa 1927. Frv. hefir legið fyrir undanförnum þingum, en ekki náð afgreiðslu þingsins enn.

Aðalbreyt., sem í frv. felast, eru þær, að lífstíðarábúð er aðalreglan, þótt með undantekningum sé, að landsdrottnar eru skyldaðir til að láta nauðsynleg hús fylgja leigujörðum, að landsdrottinn skuli kaupa eftir mati úttektarmanna þær umbætur leiguliða, sem koma jörðinni að gagni, að bannað er að taka landsnytjar og hlunnindi af leigujörðum og rýja þær þannig að helztu gæðum.

Ég vil þessu næst minnast nokkuð á brtt. landbn. N. er þó ekki alveg á einu máli um þær, enda hafa tveir nm., þeir hv. þm. Borgf. (PO) og hv. 2. þm. Skagf. (MG) skrifað undir nál. með fyrirvara. Ég hygg þó, að þessi fyrirvari sé þess eðlis, að þeir óski fremur víðtækari breyt. á frv. en að þeir séu ósamþykkir brtt. okkar í aðalatriðum. Munu þeir og líta svo á, að frekari breyt. þurfi að gera á frv. en hægt sé að gera nú á þessu þingi. Landbn. hefir haft svo mörgum málum að sinna, að henni hefir unnizt minni tími en þurft hefði til þess að athuga þetta merka frv. sem skyldi. Brtt. okkar á þskj. 680 eru margar smávægilegar, en aðrar aftur stærri og breyta efni frv. Skal ég þá fara nokkrum orðum um þær.

Við höfum samið upp fjórar fyrstu greinar frv. og breytt efnisniðurröðun þeirra. Þar eru nokkur nýmæli tekin upp og sumu breytt. Við leggjum til, að frv. byrji með nýrri grein, sem skilgreinir, hvað „jörð“ er, en áður hefir það hugtak ekki verið skýrt í lögum. Greinin er á þessa leið: „Jörð nefnist í lögum þessum hvert það sveitabýli, sem metið er sérstaklega til verðs samkv. fasteignabók“. Ég býst við, að þessi skýring kunni að orka tvímælis, en okkur finnst eðlilegt, að skýring sé gefin á því, hvað „jörð“ sé, og álitum, að ekki fáist eðlilegri skýring á því en sú, hvernig fasteignamatið gengur frá þessu á hverjum tíma. Í 2. gr., þar sem talað er um, að jarðir megi sameina, er nauðsynlegt að skilgreina, hvað hugtakið jörð sé. Við leggjum til, að jarðir megi því aðeins sameina, að hver þeirra fyrir sig sé ekki lífvænlegt býli, og úttektarmenn telji sameiningu nauðsynlega og Búnaðarfél. Íslands samþykki hana. Sem betur fer er svo mikill efniviður í flestum jörðum hér á landi, að óþarfi er að auka á landrými þeirra. Því er þörf á að leggja sterkar hömlur á sameiningu jarða, og þykir þá Búnaðarfél. Íslands réttur aðili til að hafa endanleg áhrif um það. Sumir telja e. t. v., að hér sé verið að stofna til aukinnar skriffinnsku, en við ætlum, að þetta muni koma sjaldan fyrir, svo að þessi ákvæði muni ekki saka að því leyti.

Þá er tekið fram, að sami maður megi ekki hafa samtímis ábúð á tveim eða fleiri jörðum, nema úttektarmenn og Búnaðarfél. samþykki. Þetta er gert til að hindra, að einstakir menn geti náð undir sig mörgum jörðum meðan aðra vantar jarðnæði. Þá álítum við, að þetta eigi þó ekki að vera útilokað með öllu og viljum því leggja það á dóm úttektarmanna og Búnaðarfél. Sett hafa verið ákvæði í frv. um að þessi ákvæði nái ekki til ábúða þeirra jarða, sem öðlazt hafa gildi í síðasta lagi í fardögum 1931. Þá er einnig í 2. gr. heimild til að skipta jörð. Við vonum, að í framtíðinni verði fjölda jarða skipt, en hitt verði undantekningar, að jarðir séu sameinaðar. Við leggjum til, að Búnaðarfél. veiti samþykki sitt til að skipta jörð, og eigum við með því, að ráðunautar þess gefi leiðbeiningar um skiptinguna, en hinsvegar á þetta ákvæði ekki að skoðast sem neitt haft á leyfi til að skipta jörð.

Í 3. gr. leggjum við til, að kveðið sé nánar á um það, hvenær maður, sem á jörð sé skyldur til að byggja hana. Í 1. gr. frv. er svo ákveðið, að sá, sem á jörð, er hann hefir ekki ábúð á sjálfur, skuli selja hana öðrum á leigu. Við bætum við „sæmilegum umsækjanda gegn hóflegu eftirgjaldi að dómi úttektarmanna“, þar sem ekki verður fallizt á að skylda landsdrottin til þess að leigja hvaða manni sem er jörð til lífstíðar, fyrir lítið sem ekkert eftirgjald, eins og skilja má, að geti orðið samkv. 1. gr. frv.

Í 2. gr. frv.,er sveitarstjórn gefin heimild til að skipta jörð, sem hún tekur við til ráðstöfunar, ef hún telur hana byggilegri á þann hátt. Þá er og sveitarstjórn gefið vald til þess að byggja upp á slíkum jörðum án samþykkis landsdrottins. en landsdrottinn skyldaður til að kaupa byggingarnar. Hér þykir okkur allt of langt gengið á rétt landsdrotttins og leggjum því til, að þetta verði fellt burt. Hinsvegar leggjum við til, að ef landsdrottinn getur eigi leigt jörð sína, skuli hann bjóða sveitarstjórn hana til ráðstöfunar gegn ákveðnu eftirgjaldi. Getur oft komið fyrir, að sveitarstjórn geti fremur byggt jörð en landsdrottinn, sem e. t. v. er langt í burtu, og auk þess má gera ráð fyrir, að sveitarstjórnum sé áhugamál að hafa allar jarðir sveitarinnar í ábúð, og geri því allt, sem hægt er, til að byggja þær.

Þá leggjum við til, að ef eigandi hefir engin not jarðar sinnar, sé hann eigi skyldur til að greiða af henni opinber gjöld. Hv. 2. þm. Reykv. (EA), einn af kunnustu lögfræðingum landsins, sem sæti á hér í hv. d., telur þó hæpið, að þetta ákvæði fái staðizt frá lögfræðilegu sjónarmiði, og þori ég því ekkert að fullyrða um það. En þetta er samskonar ákvæði og er í ábúðarlögunum frá 1884. Getur þó vel orkað tvímælis, hvort gengið sé inn á rétta braut með því að láta eigendur slíkra jarða sleppa við að greiða af heim skatta og önnur opinber gjöld. Hinsvegar vildum við ekki sleppa honum við að inna af höndum önnur lögskil, svo sem smölun heimalands og annað.

Í 4. brtt. er svo ákveðið, að taki sveitarstjórn jörð til ráðstöfunar, geti hún byggt hana öðrum, enda samþykki landsdrottinn þá byggingu. Þetta ákvæði um samþykki landsdrottins er sett inn með sérstöku tilliti til þess, að um lífstíðarbyggingu sé að ræða, og þess vegna sé varhugavert að veita sveitarstjórn heimild til þess að byggja jörð til svo langs tíma, nema landsdrottinn samþykki ábúðarsamninginn.

Við II. kaflann, um ábúðartímann, höfum við ekki gert brtt. Sá kafli hefir það merkilega nýmæli að geyma, að allar leigujarðir skuli vera í lífstíðarábúð, nema eigandi þurfi á jörð að halda handa sjálfum sér eða nánustu skyldmennum. Ef hið opinbera þarf á jörð að halda, má einnig taka hana úr ábúð, og sama gildir um sveitar- og bæjarfélög, sem jarðir eiga.

Við III. kaflann, um hús á jörð og skyldur landsdrottins, höfum við gert allmiklar breyt. 11. gr. höfum við orðað um án þess að gera þó verulegar efnisbreyt. í frv. er ákveðið, að hverri jörð skuli fylgja nauðsynleg hús, sem lands- drottinn á, í góðu og gildu standi. Þetta orðalag höfum við ekki kunnað við og því breytt því. Í frv. er einnig svo ákveðið, að úttektarmenn skuli meta hús, en jafnframt skuli leita álits læknis og hreppstjóra, svo að trygging sé fyrir því, að húsin séu í góðu meðallagi eftir því sem gerist í þeirri sveit. Við viljum sleppa hreppstjórunum, en leggjum hinsvegar til, að leita megi álits héraðslæknis um bæjarhús. Samkv. þessari grein er landsdrottinn skyldur til að láta fylgja leigujörð sinni nauðsynleg bæjarhús í góðu lagi, að dómi úttektarmanna.

Við 12. gr. höfum við gert allverulegar breyt. í frv. er svo ákveðið, að landsdrottinn beri alla fyrningu, en álag skuli aldrei metið. Hinsvegar skuli leiguliði halda húsum svo við, að þau fyrnist ekki um skör fram fyrir handvömm. Þessi breyt. frá núg. ábúðarlögum er í samræmi við þær reglur, sem giltu til forna, er viðhalds- og fyrningarskyldan hvíldi á landsdrottni. En síðar velti konungsvaldið þessari skyldu af sér yfir á landsetann, af því að það vildi ekki bera þann kostnað, er af viðhaldi og fyrningu leiddi. En sú regla, sem skapaðist af brotum hins erlenda valds, hefir náð svo mikilli hefð, að n. sá sér ekki fært að taka fyrningarskylduna alveg af leiguliða. Hinsvegar sá hún sér þó ekki fært að taka upp álag aftur. Álag byggist sem kunnugt er á mati eftir á um það, hvað jarðarhús hafi gengið úr sér í ábúðartíð leiguliða. Leiguliði veit því aldrei, hve stór þess hvað kann að verða, og þegar tíð eru ábúendaskipti, kemur kvöð þessi mjög misjafnlega niður. Sá, er nýtur húsanna nýrra, verður hennar litið var, en síðan skellur hún með öllum sínum þunga á þann, sem e. t. v. hefir aldrei notið húsanna nýrra eða nýlegra. Fyrningar- og viðhaldsskyldu er annars venjulega slengt saman. Fyrning svarar að réttu lagi til hinnar eðlilegu hrörnunar líkamans, en viðhald til hinnar daglegu næringarþarfa. Þótt oft sé erfitt að draga réttar merkjalínur milli fyrningar og viðhalds, og lítið sem ekkert hafi verið gert af slíku hér á landi, er samt sú aðferð notuð víðsvegar um lönd og hefir gefizt vel, og þar sem búsreikningar eru haldnir, er það orðin venja að skrifa þannig af verði húsanna árlega eftir því, sem búizt er við, að húsin muni endast. Yfirleitt má segja, að erlendis sé það sú almenna regla, að fyrningargjaldið sé ákveðið þannig fyrir fram, og n. leit svo á, að þessi aðferð væri að öllu leyti heppilegri en sú aðferð, sem hér hefir verið notuð um álag. Hinsvegar er n. það vel ljóst, að hámark fyrningargjaldsins, eins og það er ákveðið samkv. brtt. n., getur þurft breyt. við. Reynslu um þetta höfum við litla hér á landi, svo að hér er að mestu leyti um ágizkun að ræða, og er n. því fús til breyt. á þessu atriði. Það má og búast við því, að þessu þurfi að breyta síðar eftir því, sem reynslan leiðir í ljós í þessu efni, einkum eftir því, sem nýir byggingarhættir ryðja sér til rúms. — Samkv. brtt. n. er svo ákveðið, að leiguliðabótin skuli að hálfu greidd landsdrottni um leið og landsskuld ár hveri, en að hálfu megi hún standa vaxtalaust hjá leiguliða, og afhendist þá landsdrottni, þegar leiguliðaskipti verða, eða til endurbyggingar kemur. Er þetta að nokkru leyti í samræmi við það, að leiguliði þarf ekki, eins og nú er, að greiða út álagið, fyrr en hann fer burt af jörð.

Mér þykir rétt að geta um það í þessu sambandi, að til orð kom í n. að hafa á þessu aðra skipun, þannig, að leiguliðabótin yrði lögð í sérstakan sjóð, sem stofnaður yrði fyrir hverja jörð og síðan varið til endurbygginga á jörðinni. Kom hv. samþm. minn með þessa uppástungu, en n. gafst ekki tími til þess að átta sig á, hvernig þessu yrði bezt fyrir komið, en mun athuga þetta frekar fyrir 3. umr.

Þá er það 7. brtt. n., um það, að á eftir 12. gr. komi ný gr., þess efnis, að leiguliði sé skyldur til að halda húsum svo við, að þau ekki fyrnist um skör fram. þetta ákvæði er nú í 12. gr. frv., en tekið þaðan og sett inn sem ný grein. Samkv. þessum tveim síðustu till. n., sem ég nú hefi rakið, er þannig gerður greinarmunur á fyrningu og viðhaldssskyldu húsanna, eins og virðist rétt að gera, þótt það í framkvæmd muni valda ýmsum erfiðleikum, að þessum liðum aðskildum að öllu leyti.

9. brtt. n. er við upphaf 13. gr., þar sem segir, að úttektarmenn sett skyldir fimmta hvert ár, eða hvenær sem landsdrottinn krefst þess, að skoða öll hús á leigujörðum og gefa landsdrottni skýrslu um skoðunina. N. virtist óþarft að skylda úttektarmenn til þessa, því að ef ekki er ágreiningur milli landsdrottins og leiguliða, er engin þörf á slíkri skoðun á hverjum 5 ára fresti, og leggur n. því til, að þessu sú breytt svo, að úttektarmenn séu skyldir til að framkvæma skoðunina, hvenær sem landsdrottinn eða leiguliði krefst þess. Virðist þetta og eiga að vera næg trygging landsdrottni fyrir því, að leiguliði níði jörðina ekki óþarflega mikið niður, auk þess sem hér er einnig jafnframt tekið tillit til leiguliðans um þetta, því að báðum aðiljum er ætlaður sami réttur í þessum efnum samkv. brtt. n. N. sá enga ástæðu til þess, eins og ég áður sagði, að fara að lögfesta slíka allsherjar skoðunargerð á 5 ára fresti, en þótti hinsvegar sjálfsagt að gefa þessum báðum aðiljum kost á að fá fram skoðun á jörð, þegar þeir æsktu. Það getur að vísu farið svo í sumum tilfellum, ef brtt. n. verður samþ., að slík skoðun á jörð fari fram árlega, en í öðrum tilfellum, þar sem fullt samkomulag er milli landsdrottins og leiguliða, er e. t. v. aldrei þörf slíkrar skoðunar meðan sami maður situr jörðina og virðist þá ástæðulaust með öllu að lögbjóða skoðun á ákveðnum tímum.

9. brtt. n. fer fram á það, að 14. gr frv. verði felld niður, en þessi gr. kveður svo á, að ef úttektarmenn brjóti skyldur sínar og það sannist, að landsdrottinn hafi beðið tjón af þeim sökum, skuli þeir skyldir að greiða honum skaða allan, hvort sem er eftir mati eða dómi. N. álítur óeðlilegt að gera úttektarmenn skaðabótaskylda á þennan hátt, auk þess sem erfitt mundi reynast að framfylgja þessu ákvæði og leiða til óánægju og jafnvel málaferla, enda sá n. enga ástæðu til þess, að þessir starfsmenn væru fremur undir þessum ákvæðum en ýmsir aðrir embættis- og sýslunarmenn, sem hliðstæðum störfum gegna. Ef úttektarmenn vanrækja skyldur sínar, heyrir slíkt auk þess undir hin almennu kvæði hegningarl. Af þessum ástæðum leggur n. til, að þessi gr. frv. verði felld niður.

10. brtt. n. er umorðun á 15. gr. frv., og felur hún ekki í sér neina verulega efnisbreyt. á gr., að öðru leyti en því, að n. hefir fellt niður hin fornu ákvæði unt það, að hús skuli rjúfa fyrir Jónsmessu hina næstu. N. sá enga ástæðu til að halda þessu forna ákvæði og leggur til, að þetta verði orðað svo, að leiguliða sé skylt að sjá um, að hús séu rofin, ef viðtakandi krefst, og þá svo, að viðtakanda sé sem minnst mein að. Ef um ónýt hús er að ræða, sá n. enga ástæðu til að skylda fráfaranda til að rjúfa þau, nema krafa kæmi um það frá viðtakanda. — Önnur ákvæði þessarar gr. miða að því að tryggja leiguliða það meira en verið hefir, að hann geti losnað við hús, sem hann kann að eiga á leigujörð sinni, við sæmilegu verði, með því að skylda landsdrottin til að kaupa húsin, ef úttektarmenn votta, að jörðin þarfnist þeirra. Er hér um mjög mikla réttarbót að ræða fyrir leiguliða frá því, sem verið hefir.

11. brtt. n. er við 17. gr. frv., sem kveður svo á, að landsdrottinn skuli jafnan tryggja hús á leigujörð sinni fyrir eldsvoða. N. sá ekki ástæðu til þess að skylda menn fremur til þess að tryggja gegn eldsvoða á leigujörðum en öðrum jörðum, og ef skyldutrygging kemst á, sem væntanlega verður ekki langt að biða, heyrir þetta að sjálfsögðu undir hana, en á alls ekki heima í ábúðarlogum. Aftur á móti telur n. rétt og sjálfsagt, að eigandi beri kostnaðinn af því, ef hús eru vátryggis á leigujörð, en jafnframt telur hún, að rétt sé að skylda leiguliða til þess að sjá um iðgjaldagreiðslu o. fl., er snertir vátryggingu af húsum landsdrottins, ef landsdrottinn óskar eftir. þetta getur verið til hæginda fyrir landsdrottin, þar sem leigujarðir hans eru í mikilli fjarlægð.

Þá kem ég að IV. kafla frv., sem fjallar um leiguliðaskipti á jörð og skyldur leiguliða. — Hefir n. komið með allmargar brtt. við þennan kafla, en fæstar þeirra eru þó stórvægilegar. Er það þá fyrst, að n. leggur til (með 12. brtt. sinni), að ný gr. bætist inn í upphafi kaflans, svo hljóðandi:

„Skylt er leiguliða að eiga lögheimili á ábúðarjörð sinni, nema sveitarstj. samþ. annað, sbr. þó 3. gr.

Þetta var að nokkru leyti tekið fram í 1. gr. frv. áður, en fellur þar í burtu samkv. till. n., og hefi ég áður gert grein fyrir þessu. Er þetta nauðsynlegt tryggingarákvæði fyrir því, að ekki fari svo, eins og verið hefir til þessa, að margar jarðir séu setnar af mönnum, sem lögheimili eiga utan þeirrar sveitar, sem jarðirnar eru í. Getur þetta valdið því, að sveitarfélögin missi svo mikils í, hvað gjaldstofna snertir, að stór bagi geti af hlotizt, og þykir því rétt að gefa sveitarstj. íhlutunarvald um það, hvort leiguliðum skuli heimilt að hafa lögheimili annarsstaðar en á ábúðarjörð sinni, svo að þær geti komið í veg fyrir, að um þverbak keyri í þessum efnum.

13. brtt. n. er við 20. gr., og er í raun og veru aðeins smávægileg orðabreyt. þessi gr. kveður svo á, að ef fráfarandi eigi fyrning heys, eldsneytis eða byggingarefnis, skuli hann þjóða viðtakanda eða landsdrottni kaup á því skv. mati úttektarmanna. Leggur n. til, að á eftir orðinu „byggingarefnis“ verði skotið inn setningunni: „er hann hefir aflað á þeirri jörð“. N. sá ekki ástæðu til þess, að undir ákvæði þessarar gr. fellu hlutir eins og kol, sement, trjáviður o. fl., sem ekki er aflað á jörðinni sjálfri, en fráfarandi hefir flutt að, enda er þetta ákvæði aðeins miðað við það, að landsnytjar séu ekki fluttar burt af jörðum.

14. brtt. er við 21. gr., og er hún í 2 liðum. Fjallar fyrri liðurinn um það, að fyrir orðið „áburð“ komi „búfjáráburð“ í upphafi gr., en þar er fráfarandi skyldaður til að hafa flutt allan áburð á tún áður en hann fer frá jörð. Taldi n. réttara að nota orðið búfjáráburð í þessu sambandi, svo að ekki orki tvímælis, að ákvæðið tekur ekki til tilbúins áburðar. Síðari liður þessarar brtt. fjallar um það, að ákvæði síðari málsgr. þessar gr. nái einnig til selalatra. Þar kveður svo á, að ef eggver fylgi jörð, skuli viðtakandi eiga öll afnot þess það vor, er hann flytur að jörð. Taldi n. réttmætt, að þetta næði einnig til friðlýstra selalátra, enda tilgangurinn með þessum ákvæðum að koma í veg fyrir, að fráfarandi misnoti eða jafnvel eyðileggi hlunnindi á jörðum, hver sem eru, það vor, er hann flytur burt.

15. brtt. n. er við 22. gr. Höfum við samið þessa gr. um, en ekki er hér þó um verulega efnisbreyt. að ræða. Gr. fjallar um það, að hvort innstæðukúgildi fylgi leigujörðum, skuli fara eftir samkomulagi landsdrottins og leigutaka, en taki leiguliði við slíkum kú gildum skuli hann greiða í leigu eftir þau 6% í verði þeirra. Samkv. frv. á að miða verð kúgildana við verðlagsskrá, en hún er nú orðin lítils virði í viðskiptum manna á meðal, og telur n. því eðlilegra, að rétta sé ákveðið eftir skattmati.

16. brtt. n. er umorðun á fyrri málsgr. 23. gr., sem hefir að geyma skýrgreiningu á því, í hverju leiguliðanot eru fólgin. Er hér um enga efnisbreyt. að ræða frá því, sem er í frv., að öðru leyti en því, að n. hefir tekið það upp í upptalninguna á því, sem heyrir undir leiguliðanot, að leiguliði skuli hafa til notkunar allt land jarðarinnar eða jarðarparts, ef um það er að ræða. — Ákvæði þessarar gr. eru mjög mikilsverð breyt. frá því, sem verið hefir í þessum efnum, því að til þessa hefir landsdrottinn getað tekið undan jörð öll þau hlunnindi, sem honum sýndist, en samkv. gr. er þetta bannað að öllu leyti.

17. brtt. n. er við 24. gr. — Samkv. 1. málsl. þessarar gr. er leiguliða bannað að byggja öðrum af leigujörð sinni. Eru þetta ákvæði úr gömlum l., en n. sá ekki ástæðu til að hindra það, að leiguliði mætti byggja hluta af ábúðarjörð sinni, ef slíkt væri gert með samkomulagi við landsdrottin, og leggur n. því til, að aftan við 1. málsl. gr. komi: nema landsdrottinn leyfi.

18. brtt. n. er aðeins orðabreyt., og er ekki þörf á að skýra hana, og sama er að segja um 19. og 20. brtt. Um 21. brtt. n. er það að segja, að n. leggur til, að 2. málsl. 31. gr. falli niður, og er ástæðan sú, að þetta er tekið fram í 3. gr. frv., eins og sú gr. verður samkv. till. n.

Þá kem ég að V. kafla frv., sem fjallar um skemmdir á jörðum af völdum náttúrunnar og breyting á jarðargjöldum af þeim ástæðum. — Kveður 33. gr. frv. á um það, að landsdrottinn og leiguliði skuli gera hús aftur í sameiningu, ef þau eyðileggjast af snjóflóði, skriðum eða öðrum slíkum náttúruviðburðum, en n. þykja ákvæði gr. um framlag leiguliða til slíkra endurbygginga vera of óljós, og hætt við, að deilur geti af því sprottið, ef hlutur leiguliða í þessu er ekki skýrar ákveðinn. Leggur n. því til, að hlutur leiguliða sé ákveðinn svo, að hann leggi fram sem svarar leiguliðabót af húsum, að því leyti, sem hún er eigi áður greidd, svo og allt innlent efni, eins og t. d. möl og sand, og ennfremur annist hann alla flutninga á erlendu efni frá hafnarstaðnum. Verður hægast fyrir leiguliða að inna þetta af höndum, og efnisflutninga getur hann annazt í frístundum sínum, svo að þeir eiga ekki að þurfa að koma tilfinnanlega við hann. — Fjallar 22. brtt. n. um þetta.

Þá kem ég að VI. kafla frv., sem fjallar um breyt. á jarðargjöldum fyrir sérstakar ástæður. Leggur n. til, að önnur gr. þessa kafla, 36. gr. frv., falli niður,. en þessi gr. kveður svo á, að ef leigumáli jarðar sé óhæfilega þar, eða hærri en gerist í þeirri sveit eða héraði á líkum jörðum, geti leiguliði krafizt gerðardóms, er ákveði eftirgjöld af jörðinni. Álítur n. þetta mjög varhugavert ákvæði, og leggur því til, að það verði fellt niður. Leiguliði og landsdrottinn gera með sér ákveðna samninga og verða að standa við þá samninga, en ef þetta ákvæði yrði gert að 1., væri hægt að hugsa sér, að það yrði misnotað af leiguliða, til þess að ganga á þessa gerðu samninga, þannig, að leiguliði byði óeðlilega háa leigu í jörð, til þess að komast að henni, en notaði sér síðan ákvæði gr. til þess að láta færa leiguna niður með aðstoð gerðardóms, eftir að hann hefði tryggt sér lífstíðarábúð á jörðinni. Þar sem n. auk þess litur svo á, að tilgangur þessarar gr. náist að nokkru með ákvæðum 35. gr., telur n. réttast að fella þessa gr. alveg niður úr frv.

Þá kem ég að VII. kafla frv., sem fjallar um reka á leigujörðum. Hefir n. komið með nokkrar brtt. við þennan kafla.

37. gr. frv. kveður svo á, að engan viðarreka megi undanskilja leiguliðanotum, sem fylgt hefir jörð áður. Nú hefir það hinsvegar verið algengt, að reki væri að miklu leyti skilinn frá jörð, og leggur n. til, að farinn verði millivegur í þessu efni og rekanum skipt á milli landsdrottins og leiguliða, þannig, að landsdrottinn hafi 2/3, en leiguliði 1/3, en jafnframt er þeim þó í sjálfsvald sett að semja um þetta á annan veg, ef þeim sýnist svo, og er þetta aðeins réttur þeirra hvors um sig. Sömu ákvæði leggur n. og til, að gildi um hvalreka. — Hvorugt þetta atriði skiptir þó miklu mali, sízt hvalrekinn. Reki er nú víðast í mikilli hnignun, enda orðinn lítils virði, og sá n. ekki ástæðu til að banna landsdrottni rekanot af leigujörðum sínum, ekki sízt, þar sem honum er gert að skyldu að hýsa þær, því að oft má notast við rekavið til húsagerðar. — Fjalla 24.–26. brtt. n. um þetta.

Við III. kafla frv. hefir n. aðeins flutt eina brtt. (nr. 27), og er hún eingöngu leiðrétting á tilvitnunum, og kem ég þá að IX. kafla, sem fjallar um kaupskyldu á leigujörðum. Hefir þessi kafli aðeins að geyma eina gr., þar sem svo er ákveðið, að ef landsdrottinn bjóði leiguliða ábýlisjörð hans til kaups með fasteignamatsverði, að viðbættu virðingarverði þeirra umbóta á jörðinni, er landsdrottinn á, skuli leiguliði annaðhvort kaupa jörðina eða hafa fyrirgert ábúðarrétti sínum og víkja fyrir hinum nýja eiganda. Ef leiguliði gengur að kaupum á jörðinni, áskilur gr. honum hinsvegar aðeins 6 mán. greiðslufrest, og þykir n. þetta of lítið, og fjallar 28. brtt. um það, að þessi frestur til handa leiguliðanum verði hækkaður upp í eitt ár.

Þá er það 29. og 30. brtt., við 49. og 54 gr.; þær eru aðeins leiðréttingar, svo um þær þarf ég ekkert að tala.

Þá kem ég að 31. brtt. við 55. gr., um að gr. falli niður. Það er síðasti kafli frv., sein í eru ákvæði um stundarsakir.

Í frv. eru allnákvæm ákvæði um það, hvernig farið skuli að með leigujarðir, þegar lögin öðlast gildi. Þar er gert ráð fyrir, að úttekt skuli fram fara á öllum leigujörðum í, fardögum næsta ár á eftir, og að þá skuli landsdrottni vera skylt að reisa öll þau bæjarhús, sem eru svo hrörleg, að þau verða ekki tekin gild samkv. lögunum. Þó er í 57. gr. slakað nokkuð til á þessu ákvæði, því þar er svo um mælt, að við næstu skoðunargerð úttektarmanna, sem fram á að fara eftir 10 ár, skuli landsdrottnar hafa gert öll jarðarhús upp. Þeim er m. ö. o. gefinn 10 ára frestur til að koma húsunum í það lag, sem tilskilið er í frv. N. leggur til, að þessum ákvæðum verði breytt mjög, sem sé, að bæði 55 og 56 gr. falli niður, en að í stað 57. gr. komi ný grein, og er það 33. brtt. n., þar sem svo er ákveðið, að ákvæði laga þessara skuli koma til framkvæmda jafnskjótt og leiguliðaskipti verða á jörð, eða nýtt byggingarbréf er gefið út eða framlengt, eftir að lög þessi öðlast gildi. Þetta er miklu auðveldara og léttara í framkvæmd, og hefir auk þess þann kost, að því er mér virðist að minnsta kosti, að þær jarðir, sem leigðar eru til 1 árs eða fárra ára, koma fljótlega undir ákvæði laga þessara, og að landsdrottnar þeirra jarða verða þá þegar að taka á sig þær skyldur, sem lögin kveða á um húsabætur. Aftur á móti er lengri frestur gefinn þeim landsdrottnum, sem byggt hafa jarðir sínar til lengri tíma, eða ef þeir hafa byggt þær til lífstíðar; þá fá þeir þennan frest, meðan ábúandinn lifir. Þetta álít ég að sé rétt, að þeir landsdrottnar, sem látið hafa jarðir sínar með betri leigumála, njóti þess, og fái lengri frest til að byggja upp á þeim en hinir, sem leigt hafa með verri leigumala. Ákvæðið kemur þá miklu réttara niður en áður, auk þess sem það er auðveldara fyrir landsdrottin ef hann á fleiri leigujarðir, að byggja upp á þeim smátt og smátt heldur en allt í einu.

Ég hefi þá reynt, í svo stuttu máli sem unnt er, að skýra frá brtt. n., og skal ég þá líka láta máli mínu vera lokið.