20.04.1932
Efri deild: 56. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 843 í B-deild Alþingistíðinda. (405)

5. mál, verðtollur

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Það getur verið, að flokkur hv. 2. landsk. sé okkur ekki sammála um hinar smærri greiðslur úr ríkissjóði, er nú eiga sér stað. En um hin stærri atriði hefir flokkurinn ekki haft neinar till. til niðurfærslu. Flokkurinn hefir ekki séð ástæðu til að amast við lögbundinni útgjaldahækkun síðastliðinna ára, sem nemur 2 millj. síðan 1926. Hefir hann ekki komið með till. til niðurfærslu á þeim, hott hann þykist vera óánægður. Mun það líka meir vera á yfirborðinu.

Hv. 2. landsk. lagði áherzlu á aðra tekjumöguleika fyrir ríkissjóð en tolla. Veit hann þó eins vel og ég, að ef slíkir möguleikar eru til, þá þarf þeirra til viðbótar við tollalögin, en þeir geta ekki komið í staðinn fyrir þau, jafnvel þótt hann gæti bent á leiðir til hækkunar um 100–200% . Beinir skattar hafa sína kosti, og „teoretiskt“ er hægt að segja, að peningarnir séu til og að ekki þurfi annað en að taka þá með beinum sköttum, en vegna þess, hvernig hér er ástatt og annarsstaðar, verður aðallega að byggja á óbeinum sköttum.

Hv. þm. gat um Danmörku og tilraunir flokksmanna hans þar um hækkun á beinum sköttum. En þessi hækkun er ekki meiri en svo, að samanlagður gamli skatturinn og hækkanir fari fram úr þeim tekju- og eignarskatti, sem hér gildir.

Allar stjórnir síðan 1914 hafa farið fram úr fjárlagaheimildum, og er það því ekkert einsdæmi, þó að svo hafi verið gert síðasta ár. Stærst eru dæmin um þetta frá stríðsárunum. Hafa á þeim árum útgjöld, sem í fjárl. var gert ráð fyrir, að nema myndu 21/2 millj., orðið 14 millj. frá 1914 munu hverjar 4 millj. af 9 hafa verið utan fjárlaga. Hefir ekki verið auðvelt að halda útgjöldum í samræmi við fjárl. Þó hefir þetta og síðasta þing gert mikið til bóta í þessu efni.

Um samkomulag milli mín og sjálfstæðismanna er ekki að ræða. Hefi ég ekki átt tal um það við neinn sjálfstæðismann að hleypa frv. áfram. Hinsvegar hljóta allir, sem vilja vel, að viðurkenna, að nauðsyn beri til að greiða fyrir því. Samkomulagi er því ekki til að dreifa í þessu efni, þótt reynt sé að koma óorði hver á annan með því, að einn bregður öðrum um samkomulagshug. Það væri ljóta ólánið fyrir þessa þjóð, ef eitthvert samkomulag ætti sér stað í þinginu !