13.05.1932
Neðri deild: 74. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1061 í C-deild Alþingistíðinda. (4050)

70. mál, ábúðarlög

Bernharð Stefánsson:

Ég get vel skilið þá menn, sem eru ragir við að láta þetta frv. ganga fram á þessu þingi. Ég get vel skilið það, þó að ég sé annar af flm. frv. þetta er stórmál og þarf vitanlega mikillar athugunar við, en þó að þetta mál hafi nokkrum sinnum áður verið borið fram hér á þingi, þá hefir það ekki fyrr verið rætt hér nema við 1. umr. og því ekki fengið neina rækilega athugun í þinginu, enda hefir Alþingi ekki lagt ennþá úrskurð á einstök atr. þess.

Ég get vel búizt við, að það fari líka þannig í þetta sinn, að frv. nái ekki fram að ganga, þar sem ætla má, að nú sé mjög farið að líða á þingtímann. En þrátt fyrir þetta vil ég þó leggja áherzlu á það, sem hv. meðflm. minn sagði, að a. m. k. þessi hv. d. afgr. málið og leggi sinn úrskurð bæði á einstakar gr. frv. og einnig á málið í heild sinni, að svo miklu leyti sem hún telur sig geta það á því stigi, sem málið er nú á, og að frv. geti þar af leiðandi komizt svo langt á þessu þingi sem kostur er á, jafnvel þó að svo kunni að fara, að það gangi ekki fram. Ef málið kemst ekki lengra áleiðis en nú er orðið, þá býst ég við, að tiltöluega lítið gagn yrði að þeirri vinnu, sem landbn. hefir nú lagt í athugun þess. Þá mundi verða að byrja á málinu á næsta þingi, á svipaðan hátt og var byrjað í því í vetur og þannig mundi það ganga þing eftir þing.

Ég sé það, bæði af nál. hv. landbn. og þeim brtt., sem n. hefir flutt á þskj. 680, að n. hefir lagt mikla vinnu í að at huga þetta mál, enda hefir hún satt að segja haft það lengi til meðferðar. Eins og hv. meðflm. minn vil ég tjá n. þakkir fyrir þessa vinnu, sem hún hefir lagt í það að athuga málið sem bezt. Ennfremur vil ég þakka hv. frsm. n. þau lofsamlegu ummæli, er hann hafði um frv. og stefnu þess. Sömuleiðis vil ég þakka n. fyrir það, að þótt hún hafi flutt nokkuð margar brtt. við frv., hefir hún þó ekki viljað víkja neitt frá meginstefnu eða grundvallaratr. þess.

Það var svo, þegar þetta mál var fyrst borið fram hér á þingi, að þá réðust sumir hv. þm. á það allóvægilega og töldu fátt nýtilegt í því. Nú virðist mér, að bæði nál. landbn. og brtt. þær, sem hún hefir borið fram, vera viðurkenning þess, að frv. miði til bóta að allverulegum mun, sé ég því, að þessu máli hefir aukizt mikið fylgi síðan það var fyrst borið fram, og er mér það auðvitað gleðiefni.

Ég hafði ætlað mér að minnast á nokkrar af brtt. n., en ég get látið það niður falla, vegna þess að hv. meðflm. minn hefir minnzt nokkuð á þessar brtt., og get ég algerlega skrifað undir það sem hann sagði þar um. Ég er eins og hann yfirleitt ánægður með meðferð n. á málinu, en um þau fáu atr., sem hann taldi sig ekki ánægðan með, er ég honum alveg sammála. Sérstaklega er ég óánægður með þá brtt. n., að 36. gr. skuli með öllu falla niður. Eins og tekið er fram í nál. og líka kom fram í ræðu hv. frsm., þá er þessi till. borin fram af því að n. óttast, að hrekkvísir menn kynnu að misnota sér ákvæði greinarinnar með því að bjóða óeðlilega hátt eftirgjald eftir jörð til þess að tryggja sér lífstíðarábúð á henni, og heimta svo kannske eftir eitt ár gerðardóm um leigumálann, sem þeir teldu allt of háan.

Það má vel vera, að þetta tilfelli geti átt sér stað, og ég gæti gengið inn á það, að þessari gr. þyrfti að breyta eitthvað til að draga úr þeirri hættu, sem n. þykist sjá þarna. Hitt tel ég ekki rétt, að afnema þetta ákvæði með öllu og setja ekkert í staðinn, því að það er áreiðanlegt, að leigumálinn á sumum jörðum, ég vil ekki segja mörgum, er alveg óhæfilega hár.

Þrátt fyrir allan fólksstraum, sem talað er um, að nú sé úr sveitum til kaupstaðanna, þá er það víða svo, að ýmsir eru í vandræðum með jarðnæði. Og allir, sem til þekkja í sveitum, vita það, að dæmi eru til, að leiguliðar hafi orðið að sæta afarkostum, þegar þeir hafa tekið jarðirnar á leigu. Það er því ekki. nema eðlilegt, að þar sé tekið í taumana. En ég vil benda á það, að það er alls ekki heimilt eftir gr. að heita þessu nema leigumálinn sé óhæfilega hár og hærri en gerist í þeirri sveit um samskonar jarðir, og yrði það komið undir mati óvilhallra manna.

Það gæti líka komið fyrir, að landsdrottinn neyddist af einhverjum ástæðum til að byggja jörðina með óhæfilega lágum leigumála. Gæti ég vel gengið inn á að breyta gr. á þann veg, að hvor aðilja sem væri, landsdrottinn eða leiguliði, gæti krafizt slíks gerðardóms. Það væri ekki nema sanngjarnt.

Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um gagnrýni hv. þm. á þessu frv. Hv. 1. þm. S.-M. hélt því fram og síðan hv. 2. þm. Reykv., að í frv. fælust höft á samningafrelsi manna. Vitanlega er þetta rétt, en sama má segja um öll þau ákvæði, sem gilda og gilt hafa um ábúð jarða. Það er yfirleitt eðli allra laga, að þau eru höft á hið svokallaða athafnafrelsi einstaklinganna. En þau rök, sem þessir hv. þm. báru fram til að sýna, að þetta væru „óeðlileg, ranglát og óþolandi höft“, fundust mér ekki sérstaklega veigamikil.

það, sem þeim fannst sérstaklega vera óþolandi höft á samningafrelsi manna, var lífstíðarábúðin, sem ákveðin er í frv. Mér virtist hv. 1. þm. S.-M. ekki aðeins telja þetta höft á landsdrottinn, heldur einnig á leiguliða. En það er öllum vitanlegt, að þótt jarðir séu byggðar fyrir lífstíð, þá getur leiguliðinn sagt jörðinni lausri, hvenær sem hann vill, svo að þetta getur ekki verið neitt haft á hann. Landsdrottinn er aftur á móti bundinn þannig, að hann getur ekki byggt jörð sína öðruvísi en fyrir lífstíð, þó með þeim undantekningum, sem í frv. segir. Að hverju leyti er þetta þá bindandi fyrir landsdrottin? Ef hann þarf á jörðinni að halda handa sjálfum sér eða sínum nánustu vandamönnum, þá getur hann tekið jörðina úr ábúð. Höftin eru það að þá aðeins þau, að hann má ekki taka jörðina af þeim manni, sem hann hefir einu sinni leigt hana, og byggja hana öðrum sér óviðkomandi manni, nema þá með því móti, að leiguliði uppfylli ekki samninga sína við landsdrottin. Ég er viss um, að þótt þessi höft séu lögð á landsdrottin, þá sé þó miklu meira virði fyrir þjóðfélagið

það öryggi fyrir leiguliða, sem í þessu ákvæði felst. Þá eiga þeir ekki á hættu að verða hraktir burt af jörðunum eftir örfá ár, eins og nú viðgengst.

Þá þótti hv. 1. þm. S.-M. mikil og þung skylda vera lögð á landsdrottin með því að skylda hann til að láta reisa öll nauðsynleg hús á leigujörðinni. Hv. frsm. hefir nú svarað þessu svo, að ég þarf litlu þar við að bæta. — Hv. 1.þm. S.-M. sagði, að það væri hart, að landsdrottinn skyldi ekki geta leigt jörðina sjálfa alveg húsalausa. Já, það er náttúrlega afskaplega hart! Hv. þm. býst líklega við því, að það sé hægt að búa á jörð, sem er með öllu húsalaus ! Þegar um þessa skyldu er að ræða, þá verður að gæta að því, að tímarnir hafa breytzt. Þeir tímar, sem við lifum á, krefjast annars en eldri tíminn. Byggingarnar eru að breytast í það horf, að nú er ekki lengur hægt að hafa sama fyrirkomulag með hús á leigujörðum eins og áður var. Eins og við vitum, var það svo áður og er enn eftir núgildandi lögum, að þegar leiguliði fer af jörð og á hús á jörðinni, þá getur hann samið við viðtakanda um að kaupa húsin. Ef samningar takast, þá er allt gott og blessað. En ef samningar takast ekki, er hvorki landsdrottinn né viðtakandi skyldur til að kaupa húsin, og má þá fráfarandi rífa þau og flytja efnið burt. Þetta gat gengið, meðan öll hús voru torfhús með einhverju af viðum. Eins gat það gengið með timburhús. þó að það yrði vitanlegu oft fráfaranda til stórskaða að rífa þessi hús, þá gat hann þó gert sér eitthvert verð úr þeim. En nú eru steinhús sem óðast að ryðja sér til rúms, og má telja víst, að í framtíðinni verði það að mestu leyti eða eingöngu steinbyggingar, sem reistar verða á jörðunum. Hvernig á þá að fara að, ef leiguliðar byggja slík hús? Þeir eiga alltaf undir högg að sækja, hvort þeir geta selt þessi hús, þegar þeir fara frá jörðunum. Ekki geta þeir flutt steinhús með sér. Það eru þessar breyttu ástæður, sem verður að taka til greina, og virðist því algerlega sjálfsagt ákvæði, að öll nauðsynleg hús fylgi jörðinni.

Þá talaði þessi sami hv. þm. um það, að hann þekkti ekki til þess, að kjör leiguliða væru neitt slæm. Studdi hann þetta með því, hve mikill fólksstraumur væri úr sveitum til kaupstaðanna og taldi, að af þeim ástæðum væri ekki eftirspurn eftir jörðum. Ég vil segja honum það, að ég þekki mjög mörg dæmi þess, að leiguliðar hafa við afarslæm kjör að búa, og svo ótryggan ábúðartíma, að þeir sjá sér ekki fært að leggja í neinn kostnað til að bæta jarðirnar, og ég veit, að margir aðrir hv. þm. þekkja þetta líka. En það undarlegasta, sem kom fram hjá þessum hv. þm. var þó það, að hann virtist álita, að ef kjör leiguliða væru bætt, þá mundi fólkið flykkjast úr sveitunum til kaupstaðanna. Ég get ekki vel skilið þessa röksemdafærslu, því að jafnvel þótt þessi löggjöf gengi í þá átt, að mönnum þætti óaðgengilegra en áður að eiga jarðir til að leigja þær öðrum, en vildu gjarnan selja þær, þá mundi það ekki leiða þar af, að jarðirnar yrðu óbyggðar. Það yrði miklu fremur til þess, að fátækir menn, sem nú eru leiguliðar, mundu þá geta fengið jarðirnar keyptar með vægum kjörum og vera því kyrrir áfram í sveitinni. Þetta sannar því þveröfugt við það, sem hv. þm. vilda vera láta.

Hv. 2. þm. Reykv. vildi halda því fram, að eftir ákvæðum frv. væri leiguliði skyldur til að borga hluta af eignarskatti landsdrottins, vegna þess að svo er ákveðið í frv., að leiguliði borgi skatta og skyldur af ábúðarjörð sinni. Ég veit ekki betur en að það sé svo eftir núg. löggjöf, að leiguliða bera að borga skatta og skyldur af ábýlisjörð sinni, og þó veit ég ekki til, að um það sé deilt, að landsdrottinn eigi að greiða eignarskatt af öllum eignum sínum. Það er auðvitað mál, að þótt landsdrottinn gjaldi eignarskatt af öllum sínum eignum, og þar með náttúrlega þeirri jörð, sem um er að ræða, þá nær það engri átt, að það sé hluti af sköttum og skyldum af jörðinni. Það er auðvitað aðeins átt við þau gjöld, sem hvíla á jörðinni sérstaklega sem slíkri.

Annars hefði verið ástæða til að minnast á ýmis þau atriði, sem komu fram í ræðu hv. þm., en það er ekki tími til þess nú. Mér fannst líka, að það, sem hann bar fram, væri mest sparðatíningur og lögkrókar, enda er það vitanlegt, að maðurinn er einn af fremstu lögfræðingum landsins, og þegar hann tekur sig til að hártoga frv., þá getur hann vitanlega fundið þau atr., sem hægt er að snúa út úr, en ég held, að hann hafi ekki bent á neitt, sem verulegu máli skiptir.

Hann minntist nokkuð á lífstíðarábúðina og talaði um það, að ef jörð væri byggð til 2–3 ára, þegar þessi lög gengju í gildi, þá gæti leiguliði krafizt lífstíðarábúðar, ef hann vildi, og þetta sagðist hann vilja kalla svik og pretti. Ég býst við, að hv. þm. hafi tekið eftir því, að í till. n., sem við flm. höfum líka lýst yfir, að við gætum fallizt á, er svo ákveðið, að ákvæði þessara laga komi fyrst til framkvæmda um hverja einstaka jörð jafnóðum og nýr ábúðarsamningur er gerður, og þar af leiðandi kemur þetta, sem hv. þm. var að tala um, alls ekki til greina.

Hv. þm. sagði m. a., að það mundi oft vera hentugra fyrir leiguliða að fá jörðina leigða um ákveðið árabil, þannig, að hann á heim tíma mætti vera óhræddur um að þurfa að fara, heldur en að mega kannske alltaf búast við því að verða að standa upp af jörðinni, ef landsdrottinn skyldi vilja fá hana til sinna eigin afnota eða barna sinna. En auðvitað má landsdrottinn samkv. ákvæðum frv. skuldbinda sig í byggingarbréfi til að taka jörðina alls ekki af leigjanda um einhvern ákveðinn tíma. Frv. gerir beinlínis ráð fyrir, að þetta geti komið fyrir, og því má landsdrottinn ekki taka jörð úr ábúð, jafnvel ekki handa sjálfum sér, ef hann hefir skuldbundið sig til annars. Þar af leiðandi sé ég ekki annað en leiguliði geti fengið sig tryggðan í þessu efni á sama hatt og nú er. Ef frv. nær fram að ganga, þá er það tryggt, sem í þessu efni er mest um vert, að leiguliði fær lífstíðarábúð á ábýlisjörð sinni, nema landsdrottinn þurfi nauðsynlega á jörðinni að halda handa sér og sínum nánustu.

Hver sem forlög frv. kunna að verða á þessu þingi, þá vil ég endurtaka þá ósk mína, að hv. þd. leggi dóm sinn á frv. og þær brtt., sem fram eru komnar við það. Ég tel það nauðsynlegt til þess að sú vinna, sem í það hefir verið lögð á þessu þingi, komi að sýnilegum notum. Ef frv. fær við atkvgr. í þessari hv. þd. á sig þá mynd, sem meiri hl. þdm. vill gefa því eftir atvikum, þá getur sú vinna komið að nokkrum notum, þó að frv. verði ekki afgreitt sem lög frá þinginu.