13.05.1932
Neðri deild: 74. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1067 í C-deild Alþingistíðinda. (4051)

70. mál, ábúðarlög

Pétur Ottesen:

Hv. 2. þm. Skagf. hefir nú gert grein fyrir því, hvað í því felst, að við skrifuðum undir nál. með fyrirvara. Fyrirvari okkar liggur í því, að þó raunar væri ekki mikill ágreiningur um frv. í n., þá töldum við þó þörf á breyt. á nokkrum atr. í því. Við álítum einnig, að þegar um svo stórt og mikilvægt mál er að ræða sem þetta er, þá væri nauðsynlegt að gera það svo vel úr garði sem nokkur föng eru á. Og þó að málið hafi fengið allrækilega athugun á landbn., bæði í fyrra og nú, þá töldum við samt ekki enn svo vel um alla hnúta búið sem þörf er á í svo mikilvægu máli. Það er og eðlilegt, að það sé tímafrekt verk að athuga þetta mál hér í þinginu, þar sem frv. hafði ekki fengið eins góðan undirbúning og æskilegt hefði verið, þegar það var fyrst borið fram. Hv. form. þeirrar mþn., er undirbjó málið, sem er hæstv. forsrh. þessarar d., hefir líka játað, að skort hafi á þann undirbúning, sem sú n. þó taldi nauðsynlegan, og hefir hann gert grein fyrir því, í hverju það liggur. Þetta er orsök þess, hve málið hefir tafizt.

En auk þess hefir málið tafizt fyrir það, að hér er um svo stóra breyt. á gildandi löggjöf að ræða, löggjöf, sem lengi hefir staðið. Sú breyt. er að vísu gagnleg, þar sem hún færir til skyldur þær, sem hafa hvílt á landsdrottnum og leiguliðum og jafnar þær, þó þeim sé að vísu í sumum tilfellum alveg snúið við og færðar yfir á hinn aðiljann. Sumum þótti líka að þar væri gengið of harkalega til verks og að það þyrfti að koma á meira samræmi á þeim skyldum, sem á aðiljunum hvíla.

Þessar róttæku breyt. virðast lítinn stuðning hafa átt, hvorki hjá þingi né stjórninni. Þar sem frv. var upphaflega undirbúið af mþn., er stjórnin skipaði, hefði verið eðlilegt, að hún hefði tekið það til flutnings. En það hefir hún ekki treyst sér til að gera. Og hún hefir algerlega látið undir höfuð leggjast að gera nokkrar þær lagfæringar á frv., er til bóta horfðu, m. ö. o. ekkert sinnt málinu. Það hefir því orðið hlutverk höf. að bera það fram í þinginu. Þetta mál hefir nú verið athugað rækilega, bæði á vetrarþinginu 1931 og nú á þessu þingi. Í fyrra voru það þáv. 2. þm. Skagf., Jón Sigurðsson, og hv. þm. Mýr. (BÁ), sem að því unnu og lögðu til, að því yrði gerbreytt. Þeir fluttu 47 brtt. við 55. gr. frv., sem margar voru alveg orðaðar um. Þessar brtt. komu ekki fram fyrr en daginn áður en þinginu var hleypt upp og þingmenn sendir heim. Hv. flm. höfðu þó tekið nokkuð af brtt. þeirra til greina, er þeir lögðu málið fram og undirn., sem nú hefir starfað að frv. í landbn., hefir og stuðzt mjög við þessar brtt., auk þess sem hún gerir ráð fyrir fleiri breyt. Þetta sýnir bezt hinn mikla skoðanamun, sem verið hefir um þetta mál, því um hitt er enginn skoðanamunur, að þörf sé mikilla umbóta á ábúðarlöggjöfinni. Aðalatr. er því að finna haganlegt fyrirkomulag, þegar farið er að breyta löggjöfinni.

Þrátt fyrir mikla athugun á þessu þingi og þinginu í fyrra, sem frv. þetta hefir fengið, þá hefir það þó komið greinilega í ljós í dag, að enn eru ýms atr. í sambandi við frv., sem þarfnast nýrrar athugunar, ef lögin eiga að ná sem bezt tilgangi sínum. Hv. landbn. er þetta líka fyllilega ljóst, þ. á m. þeim mönnum í n., sem mest unnu að frv., en það voru þeir hv. þm. Skagf. heim og öðrum var það ljóst, að frv. stóð enn til bóta hvað búning snertir. Og þeim var það einnig ljóst, að ef meiri tími ynnist til nánari athugunar á því, þá væru efnisbreyt. enn nauðsynlegar á því. Landbn. hefir heldur enga áherzlu lagt á það, að frv. fengi endanlega afgreiðslu á þessu þingi. Það mun þvert á móti vera samhuga álit hennar, að frv. verði tekið enn á ný til nánari athugunar. Hinsvegar þótti n. rétt, að frv., ásamt þeim breyt., er hún leggur til, að á því verði gerðar, kæmi fram, svo að hv. d. gæfist kostur á að ræða það og láta í ljós álit sitt um brtt. Auk þess mátti búast við, að fram kæmu ýmsar aths. og gagnrýni við frv. frá hv. dm., sem svo gætu orðið til stuðnings og glöggvunar, þegar endanlega er gengið frá þessu máli. Það hefir líka komið á daginn, að bent hefir verið á ýmislegt í sambandi við frv., sem full ástæða er til að taka til athugunar. Ég held því, að það væri vinningur fyrir góða, endanlega niðurstöðu í málinu, að frekari athugun fengist á því en tími vinnst til á þessu þingi, eftir að gengið hefir verið til atkv. um þær brtt., sem nú liggja fyrir, en að það væri hinsvegar undirbúið eins vel og rækilega og hægt er fyrir næsta þing. Flestir gera ráð fyrir, að þinginu verði slitið einhverntíma í næstu viku, og verður því eflaust ekki tími til að athuga frv. frekar en orðið er, ef það á að þvinga það í gegn nú, og teldi ég það illa farið. Hinsvegar legg ég áherzlu á, að frv. verði borið fram aftur á næsta þingi. Hygg ég, að heppilegt væri til samkomulags um málið og góðrar afgreiðslu þess, að landbn. tæki þá að sé flutning frv., eftir að ný athugun hefði farið fram á því á milli þinga.

Ég skal ekki fara neitt út í það nú að gera grein fyrir, hvaða atriði það eru í frv. og brtt. heim, sem n. flytur, sem ég teldi betur fara, að nokkrar breyt. væru gerðar á. Fari svo, að frv. komi til 3. umr. mundu þær aths. sennilega koma fram í brtt.formi, eftir því sem tími vinnst til, og mun ég þá gera grein fyrir þeim.

Ég skal aðeins minnast á eitt atr., sem töluvert hefir verið gert að umtalsefni undir þessum umræðum. Það er ákvæðið um það, að jarðareigendurnir eigi að leggja til öll hús á jarðirnar. Þó að gerð húsanna og hvað mikið er lagt í kostnað við þau eigi að vera háð ályktun annara manna. Þó að nokkuð sé slakað til í þessu efni í brtt. n. frá því, sem var í frv. upphaflega, þá er þar þó svo til tekið, að landsdrottni sé skylt að láta fylgja leigujörð sinni nauðsynleg bæjarhús og peningshús í góðu lagi að dómi úttektarmanna. Yrði það þá vitanlega með þeim hætti, að þegar húsin væru ekki lengur í góðu standi að dómi úttektarmanna, þá myndu þeir álykta, að jarðareigandinn yrði að bæta úr því, e. t. v. byggja öll bæjarhúsin upp af nýju og peningshúsin líka, eftir því sem áhöfn jarðarinnar gerir nauðsynlegt, og þó ríflega það, því taka á tillit til aukinna möguleika til skepnuhalds, sem aukin ræktun hefir í för með sér. Nú er sá rekspölur kominn á yfirleitt í sveitum landsins, að byggt er aðallega úr steini eða timbri, þegar byggt er upp af nýju á annað borð. Og reynslan hefir sýnt, að verði steinbygginganna, og jafnvel timburbygginganna líka, hefir í mörgum tilfellum farið langt fram úr verði jarðanna sjálfra samkv. fasteignamati, þó ekki hafi verið farið langt fram yfir þær þarfir, sem fyrir hendi eru á sveitaheimilum. Það leiðir því af sjálfu sér, að með þessu ákvæði er lögð þung kvöð á jarðareigendurna, ef það er framkvæmt þannig, að strangar kröfur eru gerðar til þeirra um gerð húsanna, og sé ég ekki annað en að þeir verði að beygja sig fyrir ályktun úttektarmannanna hvað það snertir. Og mér skilst, að það gæti í mörgum tilfellum farið svo, að jarðareigandinn eigi þess engan kost að leggja fram nægilegt fé til þeirra bygginga, sem hann eftir þessu þyrfti að koma upp. Þó að hann veðsetji jarðirnar fyrir byggingarláni, þá mundi hann í ýmsum tilfellum ekki fá út á þær nema nokkurn hluta af því fé, sem til bygginganna þyrfti og auk þess geta jarðirnar verið veðsettar áður. Afleiðingin yrði sú, að jarðareigandinn gæti á engan hátt uppfyllt þessi skilyrði og neyddist hann þá sennilega til þess að selja jörðina fyrir það verð, sem hann gæti fengið fyrir hana á þeim tíma. Þetta gæti þá e. t. v. snúizt þannig við, að sá, sem hafði jörðina á leigu, verði kaupandi hennar, og þegar hann er orðinn eigandi jarðarinnar, á hann um það við sjálfan sig, hvað hann getur sætt sig við litlar og ódýrar byggingar, og mundu þá kröfurnar í mörgum tilfellum verða minni heldur en meðan annar átti að bera kostnaðinn. Ég held, að þetta mundi þannig í framkvæmdinni stuðla að sjálfsbúð, og tel ég það út af fyrir sig gott. Framtíð búnaðarins er áreiðanlega bezt borgið með því, að sem flestir bændur eigi sjálfir jarðirnar, sem þeir nota. Hinsvegar er því ekki að leyna, að þetta getur komið jarðareigendum mjög í koll, og þeir yrðu undir þessum kringumstæðum oft að sætta sig við lægra verð fyrir jarðeignir sínar heldur en þeir gætu fengið, ef engin slík þvingun ætti sér stað í sambandi við sölu þeirra.

Það hefir verið bent á það hér, að tiltækilegra mundi vera fyrir ríkissjóð að selja þær jarðir, sem hann á enn í landinu heldur en leggja fram allt það fé, sem þurfa mundi til húsabóta á þeim. Í því tilfelli mundi því niðurstaðan einnig verða sú, að þetta yrði til þess að auka sjálfsábúð í landinu, og teldi ég það út af fyrir sig síður en svo til tjóns.

Þá vil ég minnast á eitt atr., sem ég sé ekki, að neitt sé vikið að í frv., en sem mér finnst full ástæða til að taka til athugunar í þessu sambandi, en það er þá tilfelli, þegar um gjafajarðir er að ræða. Eins og kunnugt er, hafa ýmsir gefið jarðir sínar í guðsþakkarskyni eins og kallað er. Þeir hafa þá gefið út gjafabréf fyrir heim, þar sem ákveðið er, að árlegt afgjald þeirra renni til einhvers ákveðins, t. d. einhverrar styrktar- eða líknarstarfsemi, til verðlauna og ýmislegs þessháttar. Nú segir það sig sjálft, að ef þessir sjóðir eiga að leggja fram fé til þess að byggja upp á jörðunum, er það ekki hægt á annan hatt heldur en að brjóta í bága við þau ákvæði gjafabréfanna, að afgjaldið skuli árlega renna til þess, sem þar er ákveðið. Því að afgjaldið þyrfti um lengri eða skemmri tíma að ganga óskipt til þess að standa straum af byggingarkostnaðinum. Ég skal ekkert segja um réttmæti þessara gjafabréfa, eða hvort talið er, að Alþingi megi rifta því, sem þar er ákveðið það má vel vera að svo sé. Hinsvegar er það svo um þessi gjafabréf, að margir líta á þau sem helga dóma, vegna þess að í þeim komi fram hinsti vilji gefandans, og telja því allvarhugavert að raska ákvæðum þeirra. Auk þess virðist þessi verknaður, að gefa fé sitt til góðgerðastarfsemi eða annara gagnlegra hluta, vera þess eðlis, að ekki sé rétt að varpa skugga á hann í augum manna, með því að gera að engu þær reglur, sem gefandinn vill láta verja gjafafénu eftir. Mér finnst því full ástæða til að taka þetta efni sérstaklega til athugunar í sambandi við afgreiðslu þess máls, sem nú liggur fyrir.

Ég skal þá ekki hafa þessi orð fleiri, en vildi eindregið óska þess, að samkomulag gæti orðið um að knýja frv. ekki gegnum þingið nú, þar sem séð er, að ekki er hægt að leggja það verk í að ganga frá því, sem nauðsynlegt er og við hæfi jafnmikilsverðrar löggjafar, heldur verði endanlegri afgreiðslu málsins frestað til næsta þings, og tíminn milli þinga notaður til þess að gera enn umbætur á frv., svo að næsta þing geti afgreitt það sem vel undirbúna og góða löggjöf.