13.05.1932
Neðri deild: 74. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1076 í C-deild Alþingistíðinda. (4053)

70. mál, ábúðarlög

Magnús Guðmundsson:

Ég er sammála hv. frsm. um það, að málið hafi haft mjög gott af hinum rólegu umr., er hér hafa farið fram. Það er alveg satt, sem hann segir, að svo lengi getur þingið staðið, að hægt verði að afgreiða málið. En ég og hv. þm. Borgf. gerðum ráð fyrir, að þingið stæði ekki mjög lengi enn. Ég ætla hér aðallega að ræða um nokkur almenn atr., er borið hafa á góma í umr.

Það er þá fyrst út af því, sem hv. 1. þm. S.-M. sagði um hús á jörðum. Mér skildist á honum, að hann teldi það ófært að skylda eigendur til að láta hús fylgja leigujörðum. Ég er á þveröfugri skoðun. Mér finnst, að ekki sé hægt að leggja það á annan en eigandann að leggja til jarðarhús. Mér finnst sú jörð ekki vera í leigufæru standi, sem er húsalaus. Hitt er annað mál, að á þeim tímamótum, er ný ákvæði eru sett, sem breyta gömlum venjum, þá verður að gæta þess að gera ekki eigendum of erfitt fyrir. Það get ég viðurkennt í skoðun hv. þm. En ég held, að það sé óhugsandi að leggja húsaskylduna á annan en eigandann. Það mun sýna sig, að meðan leiguliðar eiga að leggja til húsin, verður aldrei vel byggt. Ég veit, að þessi ákvæði geta í bili komið hart niður á eigendum, og það verður að finna leiðir, er gera eigendum kleift að húsa leigujarðir sínar. Það má vera, að ekki sé nægilega séð fyrir því í frv., þótt talsvert hafi verið úr því bætt frá því það kom fyrst fram. Ég held, að frv. hafi í byrjun gengið fullmikið á rétt eigenda, og þeir, sem það sömdu, hafi sjálfir fundið til þess og því bætt 45. gr. inn í frv. til þess að milda það. Ég skal ekki fara langt út í að ræða þá gr. Mér skildist, að það mundi vera einna mestur ágreiningur milli mín og hv. frsm. um hana. Ég get alls ekki sætt mig við hana eins og hún er. Við skulum taka dæmi af tímum eins og nú eru. Það getur verið alveg ómögulegt, jafnvel fyrir efnaðan ábúenda, að fá lán til jarðakaupa á hinum tiltekna fresti. Það væri sjálfsagt hægt að reka hvern þann ábúanda af jörð, sem ekki ætti peninga í sjóði til að borga jarðarverðið. Þetta er alltof strangt ákvæði, og því verður að breyta. Það getur komið ákaflega hart niður á leiguliðum. Það væri betra að milda eitthvað skyldu landsdrottins til þess að leggja til hús á jörð, t. d. gripahús, en grípa til þessa óyndisúrræðis.

Þá vil ég nefna þá spurningu, sem hv. 2. þm. Reykv. hreyfði, um áhættuna af því, að byggingar á jörðum skemmst af náttúrunnar völdum. Fyrir flestum slíkum skemmdum er ekki hægt að tryggja sig. Í fljótu bragði sýnist það rangt að láta eigendur ekki bera áhættuna af ófyrirsjáanlegum skemmdum, en þó verður því ekki neitað, að taka ber tillit til þess, sem hv. þm. benti á, að þetta horfir nokkuð öðruvísi við, þar sem um lífstíðarábúð er að ræða. Ég held, að þetta atr. sé þess vert að taka það til nánari athugunar.

Um lífstíðarábúðina get ég verið fáorður. Hún gildir aðeins gagnvart eigendum; leiguliðar geta sagt ábúðinni upp, þegar þeir vilja. Það er auðvitað, að mjög stuttur leigutími er hættulegur fyrir leiguliðana, og brýn nauðsyn að fyrirgirða það, að hægt sé að halda þeim í þeirri kreppu að fá byggingu frá ári til árs. Það lamar viðleitni þeirra til að gera jörðinni til góða og er á hann hátt eigendum líka til ills.

Ég veit, að ennþá eru í frv. ýms atr., sem betur færi á að leiðrétta. Það er leiðinlegt að sjá málvillurnar í frv., og því miður eru þær í brtt. líka. Í 10. gr. er t. d. punktur í stað kommu. Það er líka í brtt. (EA: Það er víða í frv.). Í 31. gr. er leiðinlegt orðatiltæki, sem endilega þarf að leiðrétta. Það væri talin slæm villa í íslenzkum stíl í barnaskóla. Þetta þarf allt saman að laga og leiðrétta. Það þarf að hefla frv. og pólera áður en það fer úr deildinni. Það er hægt að gera milli 2. og 3. umr., ef tími vinnst til þess, og ég vil beina þeirri ósk til hæstv. forseta, að hann gefi n. tóm til þess að fara nákvæmlega yfir frv., ef það skyldi sýna sig, að þing standi svo lengi, að tiltök verði á því að afgreiða málið.