20.04.1932
Efri deild: 56. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 844 í B-deild Alþingistíðinda. (406)

5. mál, verðtollur

Jón Þorláksson [óyfirl.]:

Ég ætla ekki að blanda mér í ágreining hæstv. fjmrh. og hv. 2. landsk., þótt ég sjái fram á það, að ámæli það um ábyrgðarleysi, sem ráðh. bar á 2. landsk. og flokk hans, geti líka hitt Sjálfstæðisflokkinn og mig, ef við tökum sömu afstöðu til málsins og hv. 2. landsk., en þá er tími til andsvara. Vil ég láta það afskiptalaust, sem hæstv. ráðh. sagði um samband þessa máls og stjórnarskrárbreytingarinnar. Sagði hann að vísu, að nokkurt samband væri þar á milli, en lýsti því svo, að það væri eins og þá er maður segði við annan: „Ef þú verður ekki góður að því er þetta snertir, þá drep ég þig“. Sýnir þetta, að hæstv. ráðh. hefir ekki enn öðlazt sama skilning og ég á þessu. Tel ég því rétt í þessu sambandi að rifja það upp, að þegar íbúar Norðurálfunnar hófu baráttu sína um það, að fá þátt í stjórnarvaldinu, þá var byrjunin sú, að borgarar tóku að heimta skattaálöguvaldið úr höndum þjóðhöfðingja og í hendur fulltrúa borgaranna eða almennings. Þessari baráttu hefir verið haldið áfram öld eftir öld, og er nú svo komið, að það er viðurkennt í öllum lýðfrjálsum löndum, að skattaalöguvaldið beri hvergi að hafa annarsstaðar en hjá borgurunum sjálfum, þeim er kosningarrétt hafa. Það er ennfremur almennt viðurkennt í lýðfrjálsum löndum, og um það er enginn ágreiningur, að meiri hl. eigi að ráða og að skattaalöguvaldið sé í höndum meiri hl. þjóðfélagsborgaranna þetta eru þau undirstöðuatriði í því þjóðskipulagi, sem byggir á almennum kosningarrétti, ráðarétti meiri hlutans. Nú er okkar alþingisskipulag komið út af þessum grundvelli; það er ekki lengur þannig skipað, að meiri hl. þess sé í skoðunum í samræmi við skoðanir meiri hl. þjóðarinnar. Að það sé því nú ekki bært að leggja skatta á þjóðina, er alviðurkennt í þeim grundvallarreglum lýðstjórnarfyrirkomulags nútímans, sem ég gat um.

Hæstv. ráðh. talaði með lítilsvirðingu um þá menn, sem hrópa réttlæti ! réttlæti ! Hann um það. En hversu lítilsvirðandi, sem hann talar um það, þá munum við krefjast þess, að þetta þing skilji það, að sá eini réttur, sem það hefir, er rétturinn til þess að kippa því í lag, sem í dag er komið af því, sem snertir almennan rétt manna til kosninga samkv. stjskr þetta er sá eini réttur, sem þetta þing hefir, og það skilur ekki sinn vitjunartíma, ef það heldur áfram að leggja á skatta eins og það væri réttur aðili, sem færi með vald sitt í umboði meiri hl. þjóðfélagsins. Í mínum augum er það miklu stærra mál, að koma þessu máli í það horf, sem það á að vera, heldur en hitt, hvort stj. fær fleiri eða færri krónur til að rusla með um eins árs skeið eða svo.

Þetta er sá grundvöllur, sem við sjálfstæðismenn stöndum fast á. Og hæstv. fjmrh. má ekki halda, að þó Sjálfstæðisflokkurinn hleypi þessu máli til 2. umr. nú, þá hviki hann neitt af þessum grundvelli. Ég get fullvissað hæstv. ráðh. um það, að með því stigum við ekki spor í þá átt að játa meiri hl. þessa þings fara með skattaálöguvaldið, eins og hann væri réttur umboðsmaður meiri hl. þjóðarinnar.