19.05.1932
Neðri deild: 78. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1086 í C-deild Alþingistíðinda. (4060)

70. mál, ábúðarlög

Frsm. (Steingrímur Steinþórsson):

Eins og hv. þdm. sjá, eru komnar fram allmargar brtt. við ábúðarlagafrv., en ég mun lítið á þær minnast fyrr en flm. þeirra hafa talað fyrir þeim. Þó vil ég aðeins með fáum orðum minnast á nokkrar brtt., sem landbn. flytur á þskj. 758. 1. flytur þá brtt. við 1. gr., að það skuli vera nokkru nánar ákveðið, hvað átt skuli við með jörð í lögunum, og er ákvæði brtt. á þá leið, að jörð teljist hvert það býli, sem fleyti minnst 6 kúgildum. Það getur náttúrlega verið álitamál, hvaða lágmark skuli sett um þá minnstu áhöfn, sem jörð getur fleytt, en það er hinsvegar nauðsynlegt að setja einhver takmörk um það, hvað býli megi vera minnst samkv. lögunum, svo að jörð geti talizt, en um það varð samkomulag í n. að hafa lágmarkið 6 kúgildi, og virðist ekki ástæða til að setja það lægra.

Einnig leggur n. til., að við ákvörðun hugtaksins „jörð“ sé ekki lagt til grundvallar mat samkv. fasteignamatsbók, eins og nú er í frv., heldur sé miðað við fasteignamat almennt. Virðist réttara og eðlilegra að miða við þetta, því að ella gæti svo farið, að býli kæmust ekki undir ákvæði l. fyrr en nýtt allsherjarfasteignamat hefir fram farið, en slíkt er auðvitað ekki meiningin.

2.–5. brtt. n. eru aðeins leiðréttingar og lagfæringar, sem ekki þurfa skýringar við, og sama er að segja um 6. brtt., en við hana hefir hv. 2. þm. Reykv. flutt sérstaka brtt. á þskj. 761, þar sem hann vill taka upp lítið eitt breytt orðalag frá því, sem er á þessari brtt. n., og get ég viðurkennt það, að brtt. hv. þm. sé til bóta, og hygg, að ég mæli þar fyrir hönd n., er ég legg til, að þessi brtt. hv. 2. þm. Reykv. verði samþ. Um aðrar brtt. þessa hv. þm. mun ég ekki margt ræða að svo stöddu, né heldur um þær brtt., sem hv. 1. þm. N.-M. hefir borið fram við frv. Ég vil þó taka það fram, að n. hefir ekki haft aðstöðu til að athuga þessar brtt., svo að það, sem ég segi um þær, er frá eigin brjósti talað, en ekki fyrir hönd n. Hefi ég litið lauslega yfir þessar brtt., og sýnist mér sem sumar þeirra séu til bóta, en um aðrar má segja, að þær orki nokkrum tvímælum, þó að ég muni ekki sjá mér fært að fylgja þeim, en ég skal ekki fara meira inn á það að sinni, og geymi mér það, þar til flm. þeirra hafa reifað þær. Á eina af brtt. hv. 1. þm. N.-M. verð ég þó að drepa lítið eitt nánar í sambandi við þá brtt. n., sem ég á eftir að minnast á, og n. flytur sérstaka á þskj. 765.

Samkv. frv., eins og það nú er, er hámark leiguliðabótarinnar ákveðið 1% af steinbyggingum og 2% af byggingum úr öðru efni. Við nánari athugun hefir n. komizt að raun um, að þetta muni vera fullhátt, og leggur því til, að hámarkið verði lækkað um 50%. Verður þetta ekki sízt nauðsynlegt, ef sú brtt., sem hv. 1. þm. N.-M. flytur viðvíkjandi ráðstöfum leiguliðabótarinnar, verður samþ., en hann leggur til, að leiguliðabótin verði látin renna í sérstakan sjóð, sem varið verði til að endureisa byggingar á leigujörðum. Hefir þessi till. hv. l. þm. N.-M. að vísu ekki verið rædd í n., en ég hygg þó, að mér sé óhætt að segja, að n.till. fylgjandi, enda hafði uppástunga um þetta komið fram í n. frá hv. 2. þm. Skagf., eins og ég gat um við 2. umr., og n. leizt vel á hugmyndina, þótt ekki yrði úr því, að hún bæri fram till. í þessa átt. Það er hinsvegar ljóst, að hámark leiguliðabótarinnar yrði alltof hátt, ef þetta væri upp tekið, eins og hámarkið er nú í frv., því að frv. gerir jafnframt ráð fyrir, að helmingur leiguliðabótarinnar standi vaxtalaust hjá leiðuliða, unz leiguliðaskipti verða eða til endurbyggingar kemur. Samkv. brtt. hv. 1 þm. N.-M. yrði leiguliði aftur á móti að greiða leiguliðabótina alla út árlega, og er þetta tvennt mjög ólíkt. Sé og gert ráð fyrir því, að leiguliðabótin sé ávöxtuð með 41/2% vöxtum, eins og hún er ákveðin í frv., mundi verða hægt að endurnýja steinbyggingar á 38–39 árum og aðrar byggingar á 27 árum. Sjá allir, að ekki nær nokkurri átt, að vandaðar steinbyggingar endist ekki lengur en þetta, og að því muni óhætt að hækka hámarkið. Leggur n. til, að hamark leiguliðabótarinnar verði ákveðið 1/2% af steinbyggingum, sem svarar til þess, að hægt sé að endurbyggja þær á 50–60 árum og 1% af öðrum byggingum, sem þannig yrði hægt að endurreisa á 36–40 árum. Auk þess er á það að líta, að með því að hafa hámarkið eins hátt og það er í frv., er gefið undir fótinn með það að ákveð leiguliðabótina óhóflega háa, ef sá háttur er uppi, og sýnist sízt vera ástæða til þess.