19.05.1932
Neðri deild: 78. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1088 í C-deild Alþingistíðinda. (4061)

70. mál, ábúðarlög

Halldór Stefánsson:

Ég hefi flutt brtt. við þetta frv. á þskj. 756, og skal ég nú gera grein fyrir þeim með nokkrum orðum.

1. brtt. mín er aðeins orðabreyt., skal ég eiga það algerlega undir tilfinningum þdm. fyrir réttu máli, hvernig um þessa brtt, mína fer.

2. brtt. mín fer fram á það, að jörð þurfi ekki að afhendast til eignar nánustu venzlamönnum jarðareigandans, til þess að hann megi taka hana úr áábúð þeim til handa, eins og 9. gr. frv. ákveður. Mér þykir það óeðlilegt, að jarðareigandi skuli ekki mega losa jörð sína úr ábúð fyrir nánustu ættingja og venzlamenn nema með því móti, að þeir kaupi jörðina, en sé óheimilt til að selja þeim jörðina á leigu. Ég óttast það, að þetta geti leitt til þess, að farið verið í kringum l. á þann hátt, að fram verði látin fara málamyndasala á slíkum jörðum, og er þá verr farið.

3. brtt. mína skal ég ekki fara neitt inn á, enda hefir hv. 1. þm. Skagf. þar tekið af mér ómakið, og 4. brtt. mín er aðeins orðabreyt., sem ég skal láta algerlega á valdi hv. d., hvernig fer um.

Kem ég þá að 5. brtt. minni, sem er aðalbrtt. mín við frv. — Aðalhugsun þessarar löggjafar er að bæta og rýmka kjör leiguliða á jörðum, en mér þykir of lítið tillit tekið til þessarar aðalhugsunar í 25. gr. frv., því að ákvæði þeirrar gr. þrengja kosti leiguliðanna ekki lítið, og alveg að óþörfu. Ég viðurkenni það, að setja verður þau skilyrði, að leiguliði sitji jörð ekki svo, að hún gangi úr sér um ræktun og annað, en þegar þeim skilyrðum er fullnægt, álit ég, að leiguliði eigi að hafa eins frjálsar hendur og unnt er, og ég tel mjög óréttmætt að meina leiguliða að selja hey af jörð sinni, eins og gert er með ákvæðum 25. gr., enda er þetta ástæðulaust með öllu. hér getur verið um að ræða sölu á töðu eða útheyi. Þegar um úthey er að ræða, þá verður að teljast, að jörð sé því betur notuð og ræktuð, því meira af landi jarðarinnar sem notað er til slægna. Þess eru mörg dæmi, að land, sem ekki var slegið, hefir fallið í rórækt: þó að á því hafi verið talsvert rubb eða sinujúði, hefir slíkt ekki komið að neinu gagni, þar sem engin skepna hefir viljað líta við því. Því er einnig oft svo farið, að fyrir fátækan leiguliða er eini möguleikinn til að geta haldið jörðinni að afla sér tekna með heysölu. Hann getur bjargazt með lítinn bústofn, ef hann má selja hey, og vegna þeirrar aðstöðu getur hann e. t. v. smátt og smátt komið sér upp hæfilegum bústofni. Skiptir að vísu nokkuð öðru máli um sölu á töðu eða ræktuðu heyi, en nú eru þó mjög breyttar ástæður um það frá því, sem áður var, þegar þau ákvæði voru upprunalega sett að leiguliði mætti ekki selja hey af jörð. sinni. Þá var ekki möguleiki til að selja ræktað hey, án þess að ræktun jarðarinnar gengi úr sér, þar sem salan hafði í fór með sér áburðartap fyrir jörðina, en nú horfir þetta öðruvísi við, því að nú má halda við ræktun jarðarinnar með tilbúnum áburði, og er því engin nauðsyn framar jarðarinnar vegna að meina leiguliðum heysölu.

6. brtt. mín er aðeins afleiðing af 5. brtt., og þarf ég því ekkert um hana að ræða.

Ég vil geta þess að lokum, að ef 2. brtt. mín verður samþ., ættu orðin: „eignar og“ einnig að falla niður í 10. gr., og mun ég e. t. v. bera fram brtt. í þá átt, en ég tel þó, að þetta megi eins leiðrétta, þegar frv. verður prentað upp eftir umr.