19.05.1932
Neðri deild: 78. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1090 í C-deild Alþingistíðinda. (4062)

70. mál, ábúðarlög

Frsm. (Steingrímur Steinþórsson):

Ég vil segja nokkur orð út af brtt. hv. 1. þm. N.-M., þegar hann nú hefir talað fyrir þeim, en ég tek það fram, og hefi þó reyndar gert það áður, að ég tala fyrir sjálfs mín reikning, en ekki f. h. n.

Um 1. brtt. hefi ég ekkert að segja. Hún er aðeins orðabreyt., og get ég vel sætt mig við hana, en tel þó, að sama sé, hvort orðið er notað.

2. brtt. er hinsvegar allmikil efnisbreyt., þótt lítið láti yfir sér, og get ég alls ekki fylgt henni. Fer till. fram á það, að landsdrottni sé heimilað að taka jörð úr ábúð og leigja hana síðan nánustu skyldmennum sínum, en samkv. frv. er þetta bundið því skilyrði, að hann láti þeim hana af höndum til fullrar eignar, og er þetta skilyrði sett til þess að tryggja leiguliða fyrir því, að honum sé byggt út, en jörðin þó aðeins afhent að nafninu til, þannig t. d., að landsdrottinn taki hana úr ábúð handa barni sínu að yfirvarpi, og ráðstafi jörðinni síðan eins og honum sýnist. Ég álít því mjög varhugavert að samþ. þessa till., því að með henni er sú trygging felld niður, sem frv. setur fyrir því, að þessum ákvæðum verði misbeitt. Mun ég því greiða atkv. á móti þessari brtt.

Um 3. brtt. hefi ég áður talað og skal ekki endurtaka það, en vísa til þess, sem ég hefi áður sagt í því efni. Ég vil aðeins bæta því við það, sem ég sagði þá, að það kom fram í n., að eðlilegast væri, að landsdrottinn legði eitthvað fram á móti tillagi leiguliða í endurbyggingarsjóðinn, t. d. nokkurn hluta jarðarafgjaldsins, en þar sem þetta er síðasta umr. málsins hér í d., verður till. í þessa átt sennilega ekki komið við, og hefir enda ekki fengið nægilega athugun enn.

4. brtt. hv. 1. þm. N.-M. er aðeins orðalagsbreyt., og get ég vel fellt mig við hana.

Kem ég þá að 5. brtt., sem hv. þm taldi aðalbreyt. sína við frv. Skal ég játa, að margt af því, sem hv. þm. sagði út af henni, er á fullum rökum reist, en það mun þó tæplega rétt, að með ákvæðum 25. gr. frv. sé leiguliða bannað að selja hey. Þetta er ekki bannað, en aðeins áskilið, að hann kaupi jafngildi þess í áburði. Það er hinsvegar rétt, að það getur verið óþægilegt og enda rangt að óheimila leiguliða að selja hey í burtu, ef hann kaupir ekki jafngildi þess í áburði. Það geta verið þær aðstæður fyrir hendi, t. d. þar sem áveituengjar eru, að ekki sé rétt að krefjast slíks. Breyttar aðstæður gera það á margan hátt að verkum, að breyt. á hinum fornu lagaákvæðum í þessu efni hafa við mikil rök að styðjast, og að því er mig snertir, mun ég greiða atkv. með þessari till. Hygg ég og, að engu þurfi að vera stefnt í voða, hvað þetta snertir, því að svo er um búið, að úttektarmenn eiga að meta það sem annað, að ekki sé of langt gengið á þessu sviði.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þessar brtt. hv. 1. þm. N.-M. Ég mun greiða atkv. á móti 2. brtt. og hefði að vísu kosið dálitlar breyt. á 3. brtt., en mun þó greiða henni atkv. eins og hún er, og enda hinum öðrum brtt. hv. 1. þm. N.-M.