19.05.1932
Neðri deild: 78. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1093 í C-deild Alþingistíðinda. (4064)

70. mál, ábúðarlög

Magnús Guðmundsson:

Það er út af seinustu orðum hv. 1. þm. N.-M., að ég vildi segja örfá orð. Spurningin er um, hvort bæði leigutaki og jarðeigandi skuli leggja fram fé til endurbyggingar húsa á þeigujörðum. Mér finnst það vera nauðsynlegt, að eigendur leggi líka fram fé. Það má þó að vísu segja, að þetta komi í einn stað niður, því að þegar eigandinn eigi að leggja til hús, þá verði hann að greiða þann mismun, sem verður á endurbyggingarkostnaðinum og því, sem lagt hefir verið fram af hálfu leiguliða. En ég álít betra fyrir eigendurna að leggja fram ákveðinn hluta af eftirgjaldinu á hverju ári og safna þannig í sjóð, sem á að fylgja jörðinni við kaup og sölu, og notast til að byggja upp, þegar með þarf. Þykist ég þá sjá í hendi mér, að með þessu geti safnazt öflugir sjóðir, án tilfinnanlegrar byrði fyrir leiguliða eða jarðeiganda. Þá má og búast við sæmilegri hýsingu á jörðunum, þegar byggja þarf, en ég tel það eitt hið mesta mein, hve jarðir, sérstaklega leigujarðir, eru illa hýstar. Ég er sannfærður um, að ef þetta fyrirkomulag hefði staðið nú um 40–50 ára skeið, þá væri mikill munur á byggingum í landinu frá því, sem er, og það er eitt af aðalatriðum, sem keppa ber að, að á sveitabýlum verði reistar byggingar úr varanlegu efni og svo góðar, að vel megi teljast viðunandi. En eins og nú er, er það svo mjög víða á landinu, að byggingar eru svo slæmar, að ekki geta talizt viðunandi. Ég er því ekki ánægður með brtt. hv. 1. þm. N.-M., og vildi óska, að hann gæti gengið inn á að láta framlagsskyldu einnig ná til jarðeiganda.