20.05.1932
Neðri deild: 79. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1113 í C-deild Alþingistíðinda. (4077)

70. mál, ábúðarlög

Pétur Ottesen:

Enda þótt nú séu hér við 3. umr. komnar fram milli 30 og 40 brtt. við þetta frv., sem flestar, að ég ætla, miða til bóta fyrir frv., þá er það þó svo, að enn eru nokkur atriði í frv., sem bent hefir verið á, að þyrfti að athuga nánar og setja ákvæði um, en ekki hefir verið komið með brtt. um. Í því sambandi vil ég benda á, að ég hefi við 2. umr. málsins bent á tvö atr., sem virðist svo háttað, að það hljóti að verða sett einhver ákvæði í ábúðarlög um þau, áður en endanlega er gengið frá þeirri löggjöf hér á hv. Alþ. Ég gerði grein fyrir þessum tveim atr. við 2. umr. frv. Þess vegna get ég að mestu látið vera að ræða um þau í þetta sinn. Annað atr. er í sambandi við það, hvað við tæki, ef jarðeiganda er ekki unnt að inna af hendi þá skyldu, að byggja nauðsynleg hús á jörð sinni. Mér skilst að þetta geti í ýmsum tilfellum skipt svo miklu fyrir jarðeiganda fjárhagslega, að jafnframt því, sem skylda er lögð á jarðeigendur með lögum þessum til þess að húsa jarðir sínar, þá muni þurfa að setja ákvæði í lögin um það, að jarðareigandinn verði ekki allt of hart úti, þannig að jörðin verði honum ekki allt um of verðlitil fyrir þessa skyldukvöð. Hitt atr. er það, að þar sem jarðir eru gefnar samkv. gjafabréfi gæti hæglega farið svo, að ákvæði þessara gjafabréfa yrði að engu um langan tíma vegna skyldu sjóðsins til að byggja upp á jörðinni, því ég geri ráð fyrir, að það geti tekið tugi ára að borga höfuðstól, sem lagður væri í hús, með afgjaldinu. Ég sagði við 2. umr., að ég liti svo á, að það væri varhugavert að ganga í berhögg við vilja gefenda í þessu efni, og það mundi vera fullkomlega ástæða til þess að setja sérákvæði, er tryggi það, að ekki sé gersamlega gengið framhjá þeirra vilja.

Sennilega eru það einhver fleiri atr., sem ástæða væri að leggja áherzlu á, t. d. það, sem hv. 1. þm. S.-M. talaði um, að það væri ófært skilyrði, að jarðir séu ætíð leigðar með æfiábúð; gæti verið ástæða til að athuga þetta nánar.

Hv. 1. þm. N.-M. flytur brtt. 756 III., við 12. gr. og tekur upp hugmynd, er kom fram í landbn. að ég ætla frá hv. 2. þm. Skagf, og var þar nokkuð rædd. Var fyrst talað um að mynda af hinni svokölluðu leiguliðabót sjóð fyrir hverja jörð, sem yrði varið til húsabóta. Ástæðan fyrir því að n. bar ekki fram neinar till. um þetta atr. var sú, að hún treysti sér ekki til að ganga svo frá ákvæðum um þetta, að vel væri, á þeim takmarkaða tíma, sem n. hefir. Ég ætla, að það hafi vakað fyrir hv. 2. þm. Skagf. að setja þetta inn í lögin, en hv. 1. þm. N.-M. hefir nú lagt til, að ákvæði um þennan sjóð séu sett með reglugerð. Í brtt. n., sem samþ. var við 2. umr., er gert ráð fyrir, að bæði leiguliðar og landeigendur leggi til jafns fé í þennan sjóð, en hv. þm. vill láta aðeins leiguliðana greiða fé í sjóðinn. Ég tel heppilegra, að báðir aðilar greiði fé í þennan sjóð, og tel það betri tryggingu fyrir bættri húsaskipun í framtíðinni.

Þá flytur hv. þm. brtt. á sama þskj. við 25. gr., sem hann leggur til að falli burt og önnur ný komi í staðinn. Tilgangur gr. eins og hún er í frv. er aðallega sá að tryggja það, að jörðunum sé haldið í sæmilegri rækt, en við breyt. hv. þm. virðist mjög dregið úr þessum tilgangi. T. d. ætlar hann algerlega að fella niður bannið við því, að fluttur sé áburður burt af jörð, og sömuleiðis við því, sem skýrt er fram tekið í frv., að selt sé burt hey nema gegn endurgjaldi í beit eða áburði. Þessi ákvæði eru vitanlega sett því til tryggingar, að ræktun haldist við á jörðunum og frekar aukist. Í staðinn fyrir þessi ákvæði setur hv. 1. þm. N.-N. óákveðin orð, sem túlka má á ýmsa vegu. Ég er því ekki í neinum vafa um, að ákvæðin í frv. muni reynast haldbetri í þessum efnum heldur en till. hv. þm., því það er síður en svo, að þær sett til bóta. Ég vil því ráða hv. þdm. til þess að láta 25. gr. halda sér, því vitanlega er það mikilsvert atr. að tryggja það sem bezt, að ræktunin haldist við á jörðunum og setja skorður við því, að hún gangi úr sér. Ég geri ráð fyrir því, ef frv. verðum samþ., þá gangi það til Ed., þó nokkurn veginn sé fyrir því seð, að það afgreiðist ekki sem lög frá þessu þingi. En vegna þess vil ég einmitt taka það fram, að ef menn sjá, að í frv. vantar mikilsverð ákvæði, þá er sjálfsagt að nota þann tíma, sem gefst, áður en frv. endanlega verður afgreitt frá þinginu til þess að laga gallana, og vil ég þá vænta, að tekin verði til athugunar milli þingi þau atr., sem ég hefi nú bent á.