20.05.1932
Neðri deild: 79. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1116 í C-deild Alþingistíðinda. (4080)

70. mál, ábúðarlög

Sveinn Ólafsson:

Það hefir átt sér stað lítilsháttar misskilningur út af einni brtt. á þskj. 760 milli mín og hv. flm. Ég hafði gert ráð fyrir því eftir viðtali við hann, að hann bætti inn í 4. lið brtt., við 9. gr. frv., ákvæði þess efnis, að ekki sé skylt að byggja jörð æfilangt, ef leiguliði óskar annars, eða ef nauðsyn ber til þess að ráðstafa jörð um tiltekinn tíma, en þar sem farizt hefir fyrir með þessa viðbót við brtt., ætla ég að leyfa mér að bera hér fram skrl. brtt. við brtt. á þskj. 760, við 9. gr. frv., þar sem talað er um, að allar jarðir skuli vera í æfiábúð, en með brtt. 760,4 er tekið fram, að ekkja hefir ábúðarrétt manns síns, þar til hún giftist aftur. Ég vil fylgja þeirri brtt. og tel hana til mikilla bóta. Skrl. brtt. er á þessa leið: Við brtt. 760,4. lið. Á eftir orðinu, „æfilangt“ komi: nema leiguliði óski annars eða nauðsyn beri til að ráðstafa jörðinni tiltekinn tíma. Um þetta er hv. flm. aðaltill. mér sammála.

Það getur hæglega staðið svo á, að leiguliði hvorki óski né hafi þörf fyrir byggingu jarðarinnar nema stuttan tíma. (BSt: Getur hann þá ekki sagt lausu?). Í annan stað getur vel staðið svo á, að eigandi jarðar hafi ekki tækifæri til að nota jörð sína fyrr en eftir einhvern ákveðinn tíma og er þá hastarlegt, að hann skuli ekki mega byggja jörðina þangað til hann þarf hennar, nema til lífstíðar. Einnig skal ég benda á, að það kemur oft fyrir, að beinlínis er óhjákvæmilegt að ráðstafa um stuttan tíma jörðum, sem eru opinber eign. Á Austurlandi hefir það þrisvar komið fyrir um læknissetur, síðan ég tók við umsjón opinberra eigna í Múlasýsluumboði, að skyndilega hefir þurft að ráðstafa því um stuttan tíma. (StgrS: Það eru annarsstaðar í frv. ákvæði, sem sjá fyrir því.) Það eru engin skýr ákvæði í frv. um það. Í slíkum tilfellum er vitanlega nauðsynlegt að binda ekki jarðirnar í æfiábúð, enda hugsanleg fleiri tilfelli lík. Ég tel því nauðsynlegt, að í frv. séu ákvæði, sem tryggja, að undir sérstökum kringumstæðum megi ráðstafa jörðum um stuttan ákveðinn tíma.

Ég vil svo að síðustu taka undir með hv. þm. Borgf. um gjafajarðir, sem annaðhvort eru eign hins opinbera eða einstaklinga, að mér finnst þurfa að setja sérákvæði vegna þeirra. Það sæmir ekki að gera að engu gjafabréf eða síðasta vilja gefanda slíkra eigna. En að leggja fortakslausa húsbótaskyldu á slíkar jarðeignir mundi oft leiða til þess, að jarðarverðið sjálft nægði ekki til húsabóta og jörðin yrði eiganda með öllu arðlaus.

Ég skal svo ekki tefja tímann með lengri ræðu að sinni. Ég á ekki von á því, að frv. fari öllu lengra en komið er og tel meðferð þess hér í hv. d. hafa orðið því búningsbót mikla, þótt enn sé mörgu áfátt, sem athuga þarf áður til úrslita kemur.