20.04.1932
Efri deild: 56. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 850 í B-deild Alþingistíðinda. (409)

5. mál, verðtollur

Jón Þorláksson [óyfirl.]:

Hæstv. dómsmrh. hljóp nú hér fram fyrir kollega sinn, hæstv. fjmrh., og er það sjálfsagt af því, að hann hafi minnt, að Einar á Eyrarlandi sæti ennþá í stólnum, og þá var þetta svo sem sjálfsagt, en það er ekki víst , að það eigi eins vel við, að hæstv. dómsmrh. sé að þessu nú. Annars var það nú eins og fyrri daginn, að hann opinberaði bara sjálfan sig í ræðu sinni.

Það er sagt, að það fari svo fyrir þeim mönnum, sem venja sig á óhóflega vinnautn að kveldi dags eða að næturlagi, að þegar þeir vakna á morgnana, þá eru þeir að vísu ódrukknir, en sjá þá allt tvöfalt. nú sakar enginn hæstv. dómsmrh. um óhóflega vínnautn, en þá hlýtur það að vera einhver annar óþverri svipaðrar tegundar, sem hann hefir inndrukkið í sig og sem veldur því, að það koma fram svipuð áhrif á sálarlíf hans eins og þau áhrif, sem ofnautn áfengis hefir á sjón drykkjumannanna. Ráðh. sér sem sé tvöfalt. Hann þóttist sjá, að ég hefði verið í 6 flokkum. Þetta er nákvæmlega tvöfalt. Ég hefi verið í 3 flokkum: Heimastjórnarflokknum, Íhaldsflokknum og Sjálfstæðisflokknum. En þetta varð að 6 flokkum fyrir sálarsjónum hæstv. ráðh., sem einhverja nautn óheilla andlegra meðala undir lagður sér allt tvöfalt eins og drykkjumaður.

Annars var ekkert af því, sem hann sagði um skattamálin, neitt nýstárlegt. Ég veit vel, að hann hefir hallazt og hallast enn að stefnu sócíalista í skattamálum eins og öðrum málum. Og honum mun það ljúft, nú eins og áður, að stefnu flokks hans sé beint meira inn á þær brautir, sem Alþýðuflokkurinn vill fara. Hann hótar að fara eftir skoðunum sínum og leita samvinnu við Alþýðuflokkinn í skattamálum, ef stj. fái ekki nægar tolltekjur þetta vissi ég allt fyrirfram. Og ég get sagt hæstv. ráðh. það, að ég get vel beygt mig, eins og ég hefi alltaf gert, undir hverskonar skattalöggjöf sem er, ef hún hvílir á þeim grundvelli, sem fulltrúar meiri hl. þjóðarinnar vilja vera láta. Og hitt er mér vel ljóst, að gangi Framsóknarflokkurinn og Alþýðuflokkurinn saman, þá hafa þeir til þess nægan meiri hl. að setja há skattalöggjöf, sem þeim þóknast, og þó hún verði ekki í samræmi við skattastefnu míns flokks, þá verður það svo að vera. En hinu víkjum við sjálfstæðismenn ekki frá um hársbreidd, að við viðurkennum ekki, að það þing, sem þannig er skipað, að lítill hluti þjóðarinnar hefir meiri hl. þm., geti tekið sér skattaalöguvald, eins og það færi með umboð meiri hl. þjóðarinnar. Við viðurkennum ekki, að þetta þing hafi nokkurn rétt til að fara með skattaalöguvaldið. Hér er verið að berjast um grundvallarstefnu, um hugsjón, en ekki um það, hvort þeir menn eigi að greiða hærri eða lægri skatt, sem hæstv. dómsmrh. kallar spekulanta, fjárglæframenn og braskara, og þeirra nánustu andlegir félagsbræður, eins og t. d. hæstv. dómsmrh. sjálfur, sem er athafnamestur spekulant hér á landi, þó aldrei hafi hann spekulerað með sitt eigið fé, því þessi hæstv. ráðh. hefir aldrei haft menningu í sér til að eignast neitt, en eingöngu spekulerað með annara fé. Ég get látið mér í léttu rúmi liggja, hvernig löggjafarvaldið og framkvæmdavaldið breytir við þessa menn, og aðstandendur þessa vinahóps ráðh. og meðbræður hans. í þjóðfélaginu, nú og síðar.

Hæstv. fjmrh. var að reyna að verja sig með því, að þessi skattur væri í samræmi við vilja meiri hl. þjóðarinnar. Ég geri nú ráð fyrir því, að ef um það eitt væri að ræða að velja á milli þessa skatts og einhverra annara, að þeir flokkar, sem við báðir tilheyrum, vildu fremur þennan skatt en ýmsa aðra, sem stungið kynni að verða upp á. En hér blandar hæstv. fjmrh. tvennu saman. Hann talar um afstöðu okkar sjálfstæðismanna til þessa frv. sérstaklega. En þegar hann gerir það og segir, að þetta skattafrv. sé í samræmi við okkar stefnu og því eigum við að samþykkja það, þá gleymir hann því sambandi, sem við erum báðir búnir að kannast við, að sé á milli stjskr.- málsins og skattamálanna. Átökin eru um það, hvort skattaálöguvaldið eigi að vera í höndum meiri hl. þjóðarinnar, og það ber nú svo að í þeirri deilu, að þetta mál, sem við sjálfstæðismenn undir venjulegum kringumstæðum mundum vera fylgjandi, kemur fyrst fyrir. Og þó það sé náttúrlega vilji okkar að halda okkar stefnu í skattamálum, þá er það okkar bjargföst sannfæring, að skattaálöguvaldið beri þessu þingi ekki að nota, heldur aðeins að gera ráðstafanir til þess, að stjórnskipulagið fái að njóta sín samkv. stjskr. Hitt látum við svo alveg skeika að sköpuðu með, hvaða mál það eru, sem verða fyrst fyrir, og hvaða afstöðu hæstv. stj. tekur til skattamálanna yfirleitt í tilefni af þessu. Og það er nú frekar tilviljun en nokkuð annað, eða þó öllu heldur leifar af úreltu og ranglátu fyrirkomulagi um skipun þingsins, að það yfirleitt er þó mögulegt að koma við nokkurri mótstöðu gegn því, að meiri hl. þingsins færi með skattaálöguvaldið í umboði minni hl. þjóðarinnar. En við erum ákveðnir í að neyta þeirrar aðstöðu út í yztu æsar.