07.05.1932
Neðri deild: 69. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 276 í D-deild Alþingistíðinda. (4091)

587. mál, milliþinganefnd um fjárhagsástand á Austfjörðum

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Á þessu þingi er mikið rætt um erfiðar ástæður ríkisins og atvinnuveganna. Kreppa og erfiðleikar skella ekki síður á Austfjörðum en öðrum landshlutum, en það getur ekki orkað tvímælis, að ýmsar verstöðvar á Austurlandi hafa verið verr undir það búnar að mæta kreppunni en líklega nokkur önnur kauptún eða kaupstaðir hér á landi. Ég og fleiri þm. að austan höfum flutt till. og frv. til þess að bæta úr ástandinu þar. Þessar till. okkar hafa flestar átt erfitt uppdráttar hér í deild. Hér var borin upp sem brtt. við fjárl. till. um að leggja fram 200 þús. kr. til að koma upp síldarbræðslustöð á Seyðisfirði. Hún var felld. Samskonar till. að því er Neskaupstað snertir var felld í Ed. Till. um að heimila stj. að ganga í 100 þús. kr. ábyrgð fyrir láni til Samvinnufélags Seyðisfjarðar var líka felld í Ed. Frv., sem flutt var um það, að ríkið gengi í ábyrgð fyrir láni til þess að Austfirðingar gætu keypt saltfisk innanlands, hefir ekkert komizt áfram. Frv. um að leyfa erlendum veiðiskipum að leggja upp afla sinn til verkunar á Austfjörðum er enn ekki lengra komið en til n. Þá liggur hér fyrir frv. um að leyfa erlendu félagi að reisa síldarbræðslustöð á Seyðisfirði, en ennþá er það mál ekkert komið áleiðis, enda ekki séð, að hverju haldi mundi koma. Sýnir þetta, hve erfitt er að fá þingið til þess að gera sér grein fyrir því, hversu erfitt er ástandið þar eystra. En auk þess kreppuástands, sem nú er, má segja, að síðustu 10–12 árin hafi atvinnuvegur þeirra, er við sjóinn búa þar eystra, verið rekinn með halla. Segja þeir, sem rannsakað hafa þetta, að töpin síðustu 10–12 árin muni ekki vera minni en 15 millj. kr. svæði því, sem venjulega er kallað Austfirðir, búa um 8% landsmanna. Liggur það því í augum uppi, hversu gífurlegur halli þetta er. Sé ég ekki, að Alþingi geti látið þetta ástand afskiptalaust. Ef ekki verða gerðar sérstakar ráðstafanir, er ég viss um, að skuldirnar halda áfram að aukast. Er ekki hægt að gera sér neina skynsamlega von um það, að atvinnuvegirnir fari nú að bera sig, ef áfram er haldið á sama hátt og verið hefir og engin nýbreytni til bóta upp tekin. Ég hefi farið fram á það í till. minni, að stj. skipi 3 manna n. til þess að kynna sér fjárhagsástandið þarna og benda á ráð til bóta. Hefi ég átt tal um þetta við bankastjóra beggja bankanna. Í till. er gert ráð fyrir því, að stj. skipi 2 af nm. eftir till. bankastjórnanna. Bankastjórarnir töldu þetta sjálfsagt.

Ég ætla ekki hér að fara að gera nánari grein fyrir verkefnum n. Er það á valdi stj. að ákveða þau, og í öðru lagi mun n. ákveða það að nokkru sjálf, þegar hún tekur til starfa. Kostnaður við þetta ætti ekki að verða nema tiltölulega lítill, og sé ég ekki, að nokkur þurfi af þeim sökum að leggjast á móti málinu. Ef ekki eru gerðar sérstakar ráðstafanir, þá mun verða áframhaldandi tap á atvinnuvegunum. Fólkið getur ekki leitað annað til þess að vinna fyrir sér. Hlýtur þá að verða skortur þar víðast hvar. Frá 3 kaupstöðum og kauptúnum þar eystra hafa komið áskoranir til Alþingis. Í byrjun þessa fundar las forseti upp áskorun frá íbúum Neskaupstaðar um að samþ. þessa till. Forseti ákvað 2 umr. um hana. Sé ég ekki ástæðu til þess, að till. sé vísað til n., heldur ætti að vísa henni til síðari umr. strax að þessari umr. lokinni.