07.05.1932
Neðri deild: 69. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 278 í D-deild Alþingistíðinda. (4092)

587. mál, milliþinganefnd um fjárhagsástand á Austfjörðum

Sveinn Ólafsson:

Ég get verið hv. flm. sammála um það, að erfiðar horfur eru víða austanlands, en líkt mun það víða annarsstaðar. Hefi ég ekki fyrir mér skýrslur, sem hægt sé til fullnustu að byggja á um það, hvar hagur útvegsmanna muni lakastur vera eða kreppan mest. Getur verið, að það sé á Austurlandi, en þó er ég ekki viss um það. Hinsvegar verð ég að segja það, að ef ekki er um aðrar líklegri ráðstafanir að ræða til bjargar Austfirðingum en að skipa rannsóknarn. eftir till. bankanna til þess að athuga fjárhag austur þar, þá er að minni hyggju bezt að láta málið afskiptalaust og fela forsjóninni úrslit öll. Slíkri n. og hér ræðir um treysti ég ekki til að ráða bót á erfiðleikunum, og víst er það, að ég myndi ekki leggja slíkri n. lið eða telja hana alandi eða ferjandi. Veit ég heldur ekki til þess, þótt hv. flm. héldi því fram, að komið hafi tilmæli um það að austan, að þessi till. yrði samþ., eða að beðið hafi verið um þessa rannsóknarn. nokkursstaðar á Austurlandi. Ég lít á þessa till. eins og óviljandi móðgun við Austfirðinga og veit, að ég mæli þar fyrir munn margra þeirra, sem eru mér andlega skyldir og handgengnir á Austurlandi. Ég álít að þessari till. eigi að vísa til stj., ásamt öðrum líkum erindum um atvinnumál, sem bíða verða aðgerða. Ég get ekki séð, að verkefni þessarar n., sem að vísu er ekki ljóslega tekið fram í till., geti verið annað en það, að ferðast um sveitirnar, spyrja búendur og afla upplýsinga, sem hægt væri að fá án skipunar aukanefndar. Það er vitanlega verkefni hreppsnefnda og sýslunefnda að afla slíkra skýrslna á hverjum stað, ef þörf krefur. Og þótt þessari rannsóknarn. yrði bætt ofan á sveitarstjórnirnar, þá sé ég ekki, að hún mundi afreka annað eða meira en það, að leggja fram eitthvert marklítið plagg, sem kallað yrði nefndarálit, og hirða nokkrar krónur í ómakslaun.

Bezt væri að þurfa ekki að eyða mörgum orðum að þessari till. Ég vil vísa henni til stjórnarinnar. Þar álít ég hana bezt komna og vil, að hún sé athuguð þar með öðrum skyldum málum. En út af þeim ummælum hv. flm. till., að á Austurlandi hefðu týnzt stórar upphæðir á síðustu árum, vil ég segja, að sum þau töp eiga rætur í löngu liðnum tíma. Ég skil, að hv. flm. á hér við þau töp, sem bankarnir eystra hafa þurft að afskrifa og nema munu á sjöundu millj. kr. Ég hygg, að ræturnar að þeim liggi til áranna kringum 1920, og sumra jafnvel lengra aftur í tímann. Ég veit að vísu, að á tveim undanförnum árum hafa bæði útgerðarmenn og kaupmenn beðið töluvert tjón af útgerð. En það er hvorttveggja, að það mun vera töluvert minna en hv. flm. ætlar, enda engar ábyggilegar skýrslur til, er sýnt geti, hve mikið týnzt hefir. En stórtöp bankanna þar hafa að litlu leyti orðið til á tveimur síðustu árum.

Ég veit, að fjárhagserfiðleikar eru miklir eftir áföll síðasta árs í verstöðvum og kaupstöðum á Austurlandi, en eftir að hafa kynnt mér málið frá fleiri hliðum hygg ég, að ástandið þar sé ekki miklum mun verra en almennt gerist sumstaðar annarsstaðar. Ég afneita því eindregið fyrir mína hönd og sveitunga minna þessari rannsóknarnefnd eða tilraun til að setja þarna nýtt „soviet“ til höfuðs sveitarstjórnum.