07.05.1932
Neðri deild: 69. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 281 í D-deild Alþingistíðinda. (4095)

587. mál, milliþinganefnd um fjárhagsástand á Austfjörðum

Sveinn Ólafsson:

Ég skal ekki tefja tímann með því að svara ýtarlega. Þó verð ég að leiðrétta dálitla missögn, er kom fram hjá hv. þm. Seyðf., flm. till., þar sem hann sagði, að ég teldi till. móðgun við Austfirðinga. Ég taldi, að hana mætti skoða sem móðgun, ef ekkert væri annað gert af þingsins hendi til að létta af þeim erfiðleikum en að skipa rannsóknarnefnd. Að koma með þessa n. eins og eina bjargráðið, það er að bjóða steina fyrir brauð. Eftir því sem mér hefir skilizt, þá er ástandið ekki öllu lakara í þessum landshluta en í ýmsum öðrum stöðum. Ég veit þó, að þeir tveir staðir, sem hv. þm. nefndi, munu einna lakast stæðir sem stendur í þeim landshluta.

Út af fullyrðingu minni um að týnsla fjár hjá bönkunum stafaði frá fyrri tímum, viðurkenndi hv. þm., að hún mundi allt að því tíu ára gömul. Ég hygg nú reyndar, að sumt af töpum bankanna sé mun eldra. Hitt er ókannað með öllu, hve miklu einstaklingar og kaupsýslumenn hafa tapað. Um það eru engar skýrslur til.

Í einu er ég hv. flm. sammála. Það er í því, hver viðbrigði það voru og hnekkir fyrir Austurland, þegar útlendingar þeir, er þar höfðu starfrækt stór fyrirtæki, hurfu á braut og sú vinna og öll þau margháttuðu viðskipti, sem af starfsemi þeirra leiddi þar, hættu. Þetta leiddi til kyrrstöðu í atvinnuháttum margra, sem eðlilegt var. En síðan hefir vaxið upp nýr atvinnuvegur, sem dregið hefir að sér fleira fólk og meira fjármagn en holt var á byrjunarstigi. Það er útvegur bátanna, sem vaxið hefir mjög hin síðari ár, en þó á frumbýlingsárunum verið rekinn af vanefnum, og veldur hann því, að ástandið er nú ískyggilegra en áður. Ég fyrir mitt leyti er þó alls ekki svo kvíðinn um framtíðina, þótt lítið verði af þingsins hálfu gert til að rétta við þetta ástand. Ég hygg, að það lagist af sjálfu sér smám saman með fenginni reynslu og framtakssemi. Mér virðast skilyrði vera til þess, þótt þessi ráðgerða tilsjónargerð — ef ég mætti nefna hana því nafni — verði ekki framkvæmd. Svipuð tilsjónargerð hefir að vísu þekkzt hin síðari ár. Henni hefir verið beitt við Skeiðaáveituna, og nú er í ráði að henni verði beitt við Flóaáveituna. En til þess liggja alveg óskyld atvik, sem ekki skulu hér gerð að umtalsefni.

Ég endurtek þá ósk mína, að þessari till. verði vísað til stj., svo að hún fái athugun þar í sambandi við önnur skyld mál. Ég skal ekki leggja fastlega á móti því, að hún fari til fjhn., enda þótt ég álíti, að það sé ekki til annars en að tefja fyrir því, að hún komist þangað, sem henni ber að komast og henni er beztur hvílustaður búinn.