08.04.1932
Neðri deild: 46. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 206 í B-deild Alþingistíðinda. (41)

1. mál, fjárlög 1933

Frsm. fyrri kafla (Hannes Jónsson):

Eitt af hinum þýðingarmestu verkefnum hvers þings er afgreiðsla fjárlaganna. Orkar það ekki tvímælis, hve mikil nauðsyn er á því fyrir þjóðina, að ætlaðar séu nægar tekjur fyrir gjöldum hvers árs, svo að ekki verði rekstrarhalli á þjóðarbúinu. Til þess að ná því marki er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir, hve hin raunverulegu lögboðnu gjöld eru mikil og hve mikilla tekna er að vænta ríkissjóði samkv. gildandi tekjulögum. Um langt árabil hefir verið mikill misbrestur á því, að þing og stj. hafi gert sér nægilega grein fyrir, hver hin lögboðnu gjöld væru. Þetta er nú að færast til betra horfs, og hygg ég, að fjárlögin séu nú betur undirbúin að þessu leyti en nokkru sinni áður. Fyrrverandi fjmrh. gekk mjög vel fram í því að lagfæra þetta, og eins hefir fjvn. unnið að því undanfarin ár að færa þetta til betra og fullkomnara horfs. Er að vísu enn ýmsu áfátt um það, að öll gjöld séu nú tekin í fjárlögin, þau sem vissa er fyrir, að ríkissjóður verður að greiða. Skal ég í því sambandi geta þess, að einn ekki veigaminnsti útgjaldaliður landsreikningsins er ekki tekinn með í fjárlögin í ár frekar en undanfarið, þar sem eru öll þau gjöld, sem á ríkissjóð koma samkv. sérstökum lögum, heimildum í fjárlögum og fjáraukalögum. Hefir þessi upphæð jafnan leikið á háum tölum í seinni tíð. Síðan 1920 hefir hún aldrei numið minnu en 1/2 milljón kr., og stundum mörgum millj., en hæst hefir hún orðið 10 millj. kr., og var þá greiðslan samkv. þessari gr. landsreikningsins meira en helmingur allra útgjalda ríkisins það sama ár. — Þetta er að vísu formsatriði, en þó rétt að leiðrétta það. Er rétt að áætla fyrir þessum útgjöldum, og ef það er ekki gert, verður að ætla fyrir þessari greiðslu á annan hátt og það er ekki hægt öðruvísi en með tilsvarandi tekjuafgangi eða með því að hafa áætlanir fjárlaga svo varlegar, að tekjurnar verði þeim mun hærri, sem greiða þarf samkv. þessum lið landsreikningsins. Að þessu sinni hefir n. ekki gert verulegar breytingar á útgjaldaáætlununum í þessa átt. Fannst n. svo vel að þessu búið með samningi fjárlagafrv., að henni þótti ekki ástæða til að gera miklar breytingar í þessu efni. Hinsvegar hefir n. gengið miklu lengra en hæstv. fjmrh. í niðurfærslu þessara gjalda. Í frv. hefir ráðh. lækkað gjöldin á örfáum liðum með ákveðinni hundraðstölu, en þessi lækkun hafði ekki verið tekin nógu víða til greina, og hefir n. því borið fram brtt. í þá átt. Í nál. á þskj. 293 hefir n. gert grein fyrir heim breytingum, sem á frv. verða samkv. hennar till., og sé ég ekki ástæðu til að fara að fjölyrða um þessa liði út af fyrir sig, því að ég þykist vita, að hv. þdm. hafi kynnt sér nál., en niðurstaðan af till. n. er þessi:

Tekjur:

Lækkun:

Tekjur samkv. 2. gr. .. kr. 650000.00

Tekjur samkv. 3. gr. .. – 20000.00

Kr. 670000.00

Hækkun:

Eignahreyfingar skv. 12.

gr. (Sjóðsyfirlit) .... – 7670.00

Kr. 662330.00

Gjöld:

Lækkun:

Gjöld skv. rekstrarreikn. kr. 341530.00

Eignahreyfingar ....... – 65000.00

Kr. 406530.00

Hækkun:

Gjöld skv. rekstrarreikn. - 49100.00

Kr. 357430.00

Kr. 304900.00

Eftirstöðvar á sjóðsyfirliti

skv. frv. .............. - 45741.87

Halli á sjóðsyfirliti skv.

till. n. ................ kr. 259158.13

Ég býst við því, að d. litist ekki á þessa niðurstöðu, og ef til vill hefði mátt ganga lengra í niðurfærslu útgjaldanna og lækka gjöldin til verklegra framkvæmda meira. Mundi með því hafa verið hægt að fá sæmilegan jöfnuð á greiðslum og innborgunum ríkissjóðs, en n. sá sér ekki fært að fara lengra í þessa átt að sinni en hér er gert eða að draga meira úr útgjöldum vegna verklegra framkvæmda en hæstv. fjmrh. hefir lagt til. En til þess að gera nokkuð í þá átt, að rekstur þjóðarbúsins megi verða forsvaranlegur á árinu, hefir n. á þskj. 258 flutt frv. til l. um bráðabirgðabreytingu nokkurra laga, þar sem farið er fram á, að framkvæmd þeirra verði frestað um nokkurn tíma, og hefir sú frestun í för með sér, að útgjöld ríkissjóðs minnka það mikið, ef frv. nær fram að ganga, að það ætti fullkomlega að vega upp á móti þeim greiðsluhalla, sem orðinn er á fjárlagafrv. skv. till. n., jafnframt því, sem þetta mundi létta mikið á ríkissjóði á yfirstandandi ári og þannig draga úr heim tekjuhalla, sem fyrirsjáanlegur er á núgildandi fjárlögum.

Ég skal þá víkja nokkrum orðum að hinum einstöku till. n.

Ég get að mestu leyti vísað til þess, sem stendur í nál. á þskj. 293. Þær miklu lækkanir, sem n. gerir á tekjuliðunum, eru að vísu nokkuð mikið í lausu lofti. Til þess að hægt sé að gera ábyggilegar áætlanir um tekjur næsta árs, yrði maður að hafa séð, hvernig tekjur yfirstandandi árs myndu verða, en það er ómögulegt að sjá á þessum tímum. Það eina, sem maður sér, er útkoma fyrsta ársfjórðungsins. Á sumarþinginu í fyrra hafði maður við hendina skýrslur um tekjur ríkissjóðs fyrra árshelminginn. Sú skýrsla gaf þær upplýsingar, að tekjur fyrri hl. ársins í fyrra urðu svipaðar og fyrri hl. ársins 1930, en á það ber að líta, að tekjur fyrri hl. ársins eru ekki nema örlítill hl. af árstekjunum, svo að skýrslan gat auðvitað ekki gefið verulega ábyggilegar upplýsingar um það, hvernig afkoman mundi verða fyrir það ár, enda kom það í ljós, að tekjurnar urðu lægri en á árinu áður, sem stafaði af verðfalli á innfluttum vörum og takmörkun á innflutningi. Nú þegar maður lítur yfir fyrsta ársfjórðung, þá getur maður gengið út frá því sem sjálfsögðu, að það gefur ekki fullkomnar upplýsingar um það, hvernig tekjurnar munu reynast á þessu ári; aðeins bendingar. Og út frá því verða menn svo að reikna, og eftir þeirri trú, sem menn hafa á afkomu ársins, sem eftir er. Sá samanburður, sem ég hefi um tekjur ríkissjóðs þennan ársfjórðung, sem liðinn er, og tekjur fyrsta ársfjórðungs í fyrra er bessi:

1931 1932

Aukatekjugjöld .. 93135 kr. 107337 kr.

Vörutollur . .. . . .195340 – 194075 –

Verðtollur ....... 134847 – 71070 –

Aðflutningsgjald 408017 – 224025 –

Útflutningsgjald . 57749 – 82204 –

Mannt.bókargjald .177472 – 145225 –

Ýmislegt ………… 28900 – 22087 –

Mismunurinn á tekjum þessa ársfjórðungs og ársins í fyrra er 152 þús. lægri nú í þetta skipti eða nær 15% lægri. Mestur er munurinn á vöru- og verðtollinum og það er eðlilegt. Sá mismunur er fullkomlega 25%. þessir 2 stóru tekjustofnar, sem voru árið 1930 um 3 millj., lækka nú um 25%. Og ef maður gengur út frá því, að árið haldi áfram á þennan hátt með þetta lægri tekjum í ár en í fyrra, þá er sjáanlegt, að verðtollur og vörutollur verða mikið lægri, enda fyrirsjáanlegt, að svo verður, hvort sem sá mismunur verður eins og fyrri ársfjórðungurinn gefur tilefni til að ætla eða ekki. þessa skýrslu hafði n. ekki, þegar hún gerði till. sínar, en það var ljóst, að verðtollur og vörutollur hlaut að verða lægri í ár en síðasta ár. En nú er maður ekki að gera tekjuáætlun í ár, heldur næsta árs, og þá verður álitamál, hvort reikna megi með meiri tekjum á árinu 1933 en á yfirstandandi ári, en vonandi má treysta því, að það verði eitthvað betra. Það verður líka að verða það, ef útkoma þessa árs verður svipuð og þessi ársfjórðungur gefur tilefni til að ætla, til þess að till. n. geti staðizt. En verði hinsvegar árið 1933 ekki lakara en síðasta ár, þá hefir n. kannske verið óþarflega varkar í till. sínum. Á þessum 2 liðum eru það sérstaklega stórar breytingar, sem n. gerir. Ég fer ekki út í það að rökstyðja þær breytingar, sem n. gerir við ýmsa aðra tekjuliði, eins og t. d. tekju- og eignarskatt. Útflutningsgjald, annað aðflutningsgjald, því að þar er um mikið minni upphæðir að ræða. Ég býst við, að ef ætti að fara að véfengja að einhverju leyti till. n., þá væri frekar hægt að segja, að óþarfi væri að lækka tekju- og eignarskattinn. Um útflutningsgjaldið er örðugt að segja. Mér finnst eftir upplýsingum hv. þm. G.-K., að það sé ekki varlegt að treysta á útflutningsgjald 1933.

Um brtt. við 3. gr. þarf ég ekki að fjölyrða. Það er aðeins smávægileg leiðrétting, eins og getið er um í nál. Ég vil geta þess, að í sambandi við símalagningar hefir n. lagt til, að þær símalínur, sem áður hafa verið ákveðnar af þingi og fjvn., að lagðar yrðu á árunum 1930 og 1931, og ennþá eru ólagðar, að þær verði að svo miklu leyti, sem þær verða ekki lagðar í ár fyrir ráð fé, sem áætlað er í fjárlogum ársins, lagðar að ári. Með því móti er að mestu leyti ráðstafað því fé, sem í fjárlagafrv. stendur; aðeins um 20 þús. kr. eftirstöðvar að ræða. Og vill n. leggja það á vald landssímastjóra og stj., hvaða línur þá verða teknar, en í áliti sínu hefir hún bent á eina línu, sem er mjög nauðsynlegt, að komi fljótlega, frá Staðarfelli að Skarði.

Þá skal ég með fáum orðum víkja að brtt. n. við útgjöld ríkisins. Það er ein brtt. við 8. gr., sem ekki er neitt skrifað um í nál. Það er brtt., um það, að borðfé konungs sé lækkað úr 73200 kr. niður í 60000 kr. Eins og hv. þm. er kunnugt, þá er Það með lögum ákveðið, að borðfé konungs sé 60 þús. kr. Frá byrjun hefir þessi umrædda upphæð verið greidd í d. kr. á landsreikninginn hafa verið færðar 60 þús. kr., en gengismunurinn færður á gengisreikning. Breyting varð á þessu nýlega, þannig, að fjárveitingin er tekin upp í fjárlögin í þessa gr. frv., og er ætlazt til, að það komi þannig fram á landsreikningnum. Um þetta hefir orðið talsverð deila. Vildu sumir láta þetta standa svo á landsreikningnum áfram, og gengismunur kæmi á gengisreikning, en aðrir vildu, að þetta kæmi á þessa gr. landsreikningsins, þar sem gengisreikningur er ekki færður. Áður var gengisreikningur stór upphæð, sem kom á óvissu gjöldin, en á seinni árum hefir það breyzt þannig, að gengisreikningur er færður á tilsvarandi gr. Ég legg ekki mikið upp úr þessari breytingu fyrir mitt leyti og geri ekki ráð fyrir, að ég greiði henni atkv., þótt ég tali fyrir henni fyrir hönd n. Ég býst við, að einhverjir úr n. árétti það frá sínu sjónarmiði, sem þeir vildu sagt hafa um þessa till.

Þá kem ég að brtt. við 11. gr., um skrifstofukostnað sýslumanna. Á þessari fjárlagagr. hefir verið veitt til skrifstofuhalds sýslumanna 100 þús. kr. En nú er tekin upp sú stefna að færa niður þær launagreiðslur, sem ekki eru lögbundnar. Þær lögbundnu launagreiðslur hafa lækkað af sjálfu sér með lækkun dýrtíðaruppbótarinnar. N. finnst því sanngjarnt, að þessi liður verði lækkaður um 10%, úr 100 þús. kr. niður í 90 þús. kr. í samræmi við aðrar lækkunartill., sem n. hefir gert, er gert ráð fyrir, að þetta hafi aðeins yfirsézt hjá hæstv. fjmrh., þegar hann útbjó frv.

Ég held, að ekki sé ástæða til að fjölyrða um ýmsar aðrar brtt., sem n. hefir gert. Þær skýra sig flestar sjálfar í áliti n. Ég ætla þó aðeins að nefna nokkrar, sem mér finnst helzt þurfa skýringar við.

Brtt. við 12. gr., um starfsmenn á Nýjahreppi, fer fram á lækkun úr 30 þús. niður í 25 þús. Í fjárlfrv. er ekki gert ráð fyrir neinni launalækkun starfsmanna á spítalanum, en þar sem slík lækkun hefir almennt farið fram, telur n. sjálfsagt, að hún verði framkvæmd þar eins og annarsstaðar eftir því, sem við verður komið. Vill n. benda á í þessu sambandi, að líklegt sé, að nokkuð megi spara með því að samræma meira störf á þessum tveimur spítölum. Þar munu vera menn við samskonar starf, sinn á hverjum stað, sem líklegt er, að mætti sameina í eitt starf, og þannig spara talsverða upphæð.

Þá hefir n. gert nokkra breyt. við frv. viðvíkjandi Kristneshæli. Í frv. stj. er færður inn einn liður til rekstrar, ósundurliðaður. Það mun stafa af því, að stj. hefir litið svo á, að hælið væri sjálfstæð stofnun, sem ríkinu kæmi ekki við að öðru leyti en því, að það væri styrkt til rekstrar eftir þörfum. En nú er það með þetta hæli eins og öll önnur hæli í landinu, að ríkið á það og ber skylda til að reka það að öllu leyti. Það er því tekið upp í áætlun til þessa hælis og sundurliðað í till. n., tekjur og gjöld. Af þessu leiðir, að það kemur viðbótarliður, sem kemur sem hækkun fyrninga í 20. gr. Annars er farið eftir till. forstöðumanns hælisins að öllu leyti. Fjárveiting til þessa hælis verður samkv. till. n. nokkuð minni en í frv., en sýnist þó samkv. upplýsingum vera sæmileg.

Þá kem ég að brtt., sem kannske skiptir mestu máli í þessum kafla fjárlaganna, fyrir utan till. um tekjur, og eru það till. um það, hvernig því fé skuli varið, sem stj. hefir ætlazt til, að gengi til nýrra akvega. Í frv. stj. standa í þessu skyni 150 þús. kr. N. var í mjög miklum vafa um, hvað gera ætti í þessu efni. Var úr vöndu að ráða, þar sem n. gat ekki skilað frv. með sæmilegum greiðslujöfnuði. þó þessi upphæð verði öll tekin, þá er það ekki nóg til að koma jöfnuði á frv., enda sýnist ófært að fella niður vegagerðir í landinu. Það leiðir af sér stórkostlegt atvinnuleysi fyrir verkafólkið, og er einnig óheppilegt fyrir yfirstjórn vegamálanna, sem hefir fasta menn í sinni þjónustu, og er erfitt að víkja þeim frá störfum eitt og eitt ár í bili. N. tók það ráð að fylgja till. stj. um það, hve miklu skyldi varið í því skyni, og gerir þar enga breytingu, en fékk hinsvegar vegamálastjóra til að gera till. um það, hvernig þessu fé skyldi varið, og eru till. n. allar eftir till. vegamálastjóra. Í upphaflegum till. til stj. hafði hann gengið út frá því, að varið yrði 270 þús. kr., og benti þá á þá skiptingu, sem á þessu fé ætti að vera. Nú vildi n. á engan hátt taka á sig þá ábyrgð að segja um það, hverja af þessum vegum ætti að leggja fyrir þetta fé, 150 þús. Það varð að draga úr vegagerðum sem nam 120 þús. kr., og fékk n. vegamálastjóra til að gera áætlun, hverjir vegir kæmu til greina, ef ekki væri varið meira en 150 þús. kr., 100 þús. eða 200 þús. Af þessum áætlunum kemur það skýrt í ljós, hvaða vegir það eru, sem vegamálastjóri álítur þörf á að leggja og hvaða vegir eigi að sitja í fyrirrúmi. (HG: Fjarðarheiðarvegurinn?). Fjarðarheiðarvegurinn gæti kannske komið til mála, ef varið væri 1 millj. kr. til vegagerðar.

Ég ætla ekki að fara út í það að sinni að skýra frá sjónarmiði n. og vegamálastjóra þá nauðsyn, sem liggur bak við þessa vegi. Ég ætla áður en ég geri það að hlýða á þær framsöguræður, sem hér verða fluttar um brtt. við brtt. n. Má vera, að þá komi eitthvað í ljós, sem ástæða er að taka til greina, þó að við í n. höfum ekki komið auga á það, enda hafa ekki legið fyrir n. neinar upplýsingar frá þessum mönnum um þá vegi, sem þeir leggja til að verði lagðir.

Það eru tvær ólíkar skoðanir um það, hvernig þessu vegafé eigi að verja. Vegamálastjóri lítur á aðra frá því sjónarmiði, hvernig bezt sé borgið samgöngukerfinu milli sveitanna. Aftur á móti hættir einstökum þm. til þess að líta á þessar framkvæmdir meira með tilliti til þess, hvað héruðunum sjálfum gagnar bezt. Frá þessum tveim sjónarmiðum verðum við að líta, þegar við ákveðum, hvaða vegi eigi að leggja mesta áherzlu á. Það skal ekki standa á mér að hlýða á mál þeirra, sem vilja líta á það frá öðru sjónarmiði en vegamálastjóri þótt það verði hinsvegar að vera nokkuð rík skylda n. að fara í öllum aðalatriðum eftir till. vegamálastjóra. Ég hefi áður á þingi deilt á vegamálastjóra fyrir till. hans í vegamálum, en ég játa, að slíkar ádeilur eru út frá öðru sjónarmiði en hann verður að líta á þetta mál. Hinsvegar býst ég við, að happadrýgst væri að skoða þetta mál út frá þessu hvorutveggja, að sem greiðast verði gert fyrir með langleiðirnar, og reynt að stilla svo til, að þær geti komið héruðunum að sem fyllstum og beztum notum.

Aðrar brtt. við þessa gr. eru smávægilegar. N. hefir lækkað vetrarflutninga yfir Hellisheiði úr 8000 kr. niður í 5000 kr. Það getur verið vafasamt, hvort hægt er að spara á þessu, hvort ekki verður að leggja fram, sem því nemur, sem í frv. stendur. En þar sem alstaðar er skorið við neglur sér, þótti n. ekki annað fært en að sverfa að þessu líka. Mér er ekki ljúft að mæla með öllum brtt. við þessa gr., t. d. að vetrarferðir yfir Holtavörðuheiði og Fagradal verði lagðar niður, því að ég veit, að þær ferðir hafa verið mjög gagnlegar fyrir hlutaðeigandi héruð. En það verður að gera fleira en gott þykir á þessum tíma. Menn verða að sætta sig við eitt og annað í bili, þótt ekki beri að skilja það svo, að n. sé hér með till. um reglu, sem eigi að gilda í framtíðinni, og ég get hinsvegar tekið það fram, að það mundi gleðja n., ef Alþingi sæi sér fært að halda í horfið í þessu efni.

Þá er það smávægileg brtt., sem n. flytur, um að hækka laun aðalaðstoðarmanns vitamálastjóra. Í till. er raunar ekki um launaviðbót að ræða frá því, sem verið hefir, heldur höfðu laun hans verið færð niður í frv. stj. En þegar þess er gætt, að samskonar verkfræðingur og þessi, sem er aðstoðarmaður vegamálastjóra, heldur sínum launum, er verið hafa jafnhá launum þessa manns, þá virðist n. ekki sanngjarnt að gera mun á þessum mönnum, svo að hún tók það ráð að leggja til, að laun þessa manns skyldu haldast óbreytt, heldur en dregið verði af hinum. Ef nú hv. þdm. vilja heldur fara hina leiðina, þá mun n. ekki setja sig á móti því, en ég tel sjálfsagt og sanngjarnt, að þessir menn hafi jafnt.

Fjvn. hefir gert brtt. um það, að lagt verði nokkurt fé til hafnargerðar á Akranesi. Það má virðast nokkur kaldhæðni örlaganna, að ég skuli verða til þess að flytja það mál. En það er nú um þessa höfn að segja, að þar stendur alveg sérstaklega á eins og bent er á í nál. þessu fé á að verja til þess að fullkomna það verk, sem þarna er verið að vinna og líklegt er, að komi þessu þorpi mjög að haldi, svo að n. sá sér ekki fært að synja um þetta fé. Það skal tekið fram, að samkv. brtt. n. er hér ekki um alveg nýjan lið að ræða, heldur er þessi upphæð að nokkru leyti tilfærsla. Það stendur í fjárlagafrv. 30 þús. kr. fjárveiting til hafnargerða og lendingarbóta, þar sem viðkomandi héruð eiga að leggja fram fé á móti, en undanfarin ár hefir þessi sama upphæð verið ónotuð að kalla, vegna þess að héruðin hafa ekki getað fyrir fátæktar sakir notað þessa heimild. Ég veit aðeins dæmi þess um eina bryggju, á Vopnafirði, sem líkur eru til að verði byggð á þessu ári fyrir framlag samkv. þessum lið. Vegna þess, að ekki er útlit fyrir það, að þessi 30 þús. kr. upphæð verði notuð á þessu ári, hefir n. lagt til, að hún verði lækkuð um 10 þús. kr., og fært það fé til hafnargerðar á Akranesi, og má þá segja, að n. leggi samt til með brtt., að gjöldin hækki um 15 þús. kr. En það er þó sama upphæð og n. leggur til, að framlag ríkissjóðs til vitabygginga lækki um, svo að þessar brtt. n. leiða ekki til hækkunar á frv., heldur eru þær tilfærslur á tveimur upphæðum. Það má að sjálfsögðu um það deila, hvort forsvaranlegt sé að taka af vitafénu, svo mikið fé sem ríkið árlega fær í vitagjöldum, sem gera strangar kröfur til umbóta á því sviði sanngjarnar. En með tilliti til þess, að tímarnir krefjast þess, að sparað sé eins og hægt er á greiðslum út úr landinu, þá er á það að líta, að vitabyggingar krefjast meira af því efni, sem sækja verður til útlanda, heldur en hafnargerðir, sem í þess stað verða mikið fremur til atvinnubóta.

Ég get þá lokið máli mínu um þennan kafla fjárlaganna og brtt. n. við hann. Ég býst við að ræða frekar um vegi og vegagerðir, þegar hv. þm. hafa talað fyrir sínum brtt. um þann lið og ég hefi heyrt, hvað þeir hafa fram að bera. Annars er um þau efni nauðsynlegt að afla sér upplýsinga þess manns, sem þeim er kunnugastur, sem er vegamálastjóri, og að þeim fengnum geta svo hv. þm. dæmt um það, hvort till. okkar eru réttar eða ekki. Eins og ég hefi bent á, er það ekki nema eðlilegt, að hann kunni að líta á vegamálin frá nokkuð öðru sjónarmiði en þm. einstakra héraða.