20.04.1932
Efri deild: 56. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 852 í B-deild Alþingistíðinda. (410)

5. mál, verðtollur

Dómsmrh. (Jónas Jónsson) [óyfirl.]:

Ég hygg, að það sitji nú ekki sem bezt á hv. 1. landsk. að vera að breyta ónotum til hv. 2. þm. Eyf. Þeir hafa báðir gegnt sömu stöðu, sinn á hvorum tíma, og það munu flestir mæla, að það sé mikill mismunur á því, hvernig þeir skildu við (JónÞ: Já, sem betur fer.), þar sem eins og kunnugt er hv. 1. landsk. — þó ekki sé nefnt nema tvennt — fyrir greindarleysi og þekkingarleysi var búinn að setja alla atvinnuvegi í landinu á hausinn og eyðileggja afkomu landsmanna. Hann ber ábyrgð á gengishækkuninni og þá um leið í aðalatriðum á gjaldþroti fjölmargra fyrirtækja, sem ekki þoldu hana. Hv. þm. var eins og menn muna, lýst svo í ræðu uppi í Mosfellssveit af manni, sem stendur mjög nærri honum, sem sé hv. þm. G.K., sem þótti ekki gáfulegt að hækka gengið og var á móti því, — að hann væri eins og stóra nautið á Korpúlfsstöðum. Hann minntist einmitt á stóra nautið á Korpúlfsstöðum í sambandi við gengismálið. Og þegar svona vitnisburður kemur frá manni, sem stendur hv. þm. svona nærri, þó honum sé ekki trúandi um margt annað, þá býst ég við, að hv. 1. landsk. taki nokkurt tillit til hans.

Hitt er um viðskilnað hans við fjármálin, þegar hann á árunum 1926–27 kastaði burt skottum til að þóknast einhverjum kunningjum sínum, og skildi við ríkissjóðinn með tekjuhalla, án þess að hafa gert nokkuð af verklegum framkvæmdum. Einmitt árin 1925, 1926 og 1927 gerðust þeir hlutir á sviði atvinnuveganna, sem ekki eiga hliðstæður á öðrum tímum, og það eru hlutir tilheyrandi fjármálastjórnartíð þessa hv. þm. Annars hygg ég, ef hv. þm. vildi fara út í samanburð á meðferð okkar á eiturefnum, að þar sé tvímælalaust um ólíka notkun að ræða, og læt ég nægja að vísa til hans eigin vitundar í því efni. Þar sem hann mundi ekki eftir nema þremur stjórnmálaflokkum, sem hann hefði átt sæti í, þá skal ég benda honum á til viðbótar því, sem hann nefndi, bæði sparnaðarbandalagið og 10-mannabandalagið, sem hann var í þegar hann var milli vita í pólitíkinni. Og auk þess má benda honum á, að nú upp á síðkastið hefir hann staðið nærri því að lenda í Alþýðuflokknum. Ég sé, að hv. þm. muni ætla að mótmæla þessu, og skal ég ekki fara lengra út í það að stríða honum á sambandi hans við þann flokk, en aðeins benda á það, að nú upp á síðkastið hefir hann komið fram eins og nokkurskonar vinnumaður hjá hv. 2. landsk., eins og lýst hefir sér í því, að hann hefir lýst því yfir, að hann vildi fylgja því með Alþýðuflokknum, að landið allt verði gert að einu kjördæmi, sem hann veit þó, að enginn af hans flokksmönnum vill fallast á. En nú, þegar hv. þm. hefir fengið skýringu á því, hverjir eru þessir sex flokkar, sem hann hefir verið riðinn við, þá vona ég, að hann gangist við þessum lausaleikskrökkum sínum með því að viðurkenna faðernið.

Viðvíkjandi sjálfu málinu vill hv. þm. nú ekki viðurkenna sína fyrri aðstöðu, þegar hann sat í stj. með minni hl. þingsins að baki sér. Hann leggur mikla áherzlu á það ná, að sú stj., sem með völdin fer, hafi meiri hl. þings að baki sér, sem eðlilegt er, en það var bara frá hans sjónarmiði ekki eins nauðsynlegt í hans eigin stjórnartíð. Þeim skatti, sem hér er um að ræða, fekk hv. þm. á komið með hjálp Framsóknarflokksins árið 1924, sem ekki var þó veitt af því, að flokkurinn viðurkenndi stj. hv. þm., heldur fyrir nauðsyn þjóðfélagsins. Þá sat stj. hans við minnihluta-fylgi, við fylgi 20 þm. af 42, stj., sem honum ætlaði aldrei að takast að mynda, þó að hann væri búinn að lýsa því yfir, að hann ætlaði sér að mynda stjórn. Og þegar þess er ennfremur gætt, að einn þessara 20 stuðningsmanna stj. var minnihlutaþingmaður, þ. e. a. s. maður, sem flotið hafði inn í þingið á fölsuðum atkv., eins og allir vita, þá er það furðulegt, að þessi hv. þm. skuli voga sér að halda því fram, að löglega kosin meiri hl. sé ekki meiri hl. það er ekki hægt að neita því, að sá meiri hl., sem kosinn var í vor, er löglega kosinn, og þess vegna verður ekki hægt að líta á þessi mótmæli hv. þm. öðruvísi en sem byltingatilraunir. Það lítur út fyrir, að hv. þm. vilji byltingu, því allar tilraunir hans að véfengja rétt þingmeirihlutans eru þess eðlis. En ég held, að í staðinn fyrir að ætla að taka sér valdið með ofbeldi, þá sé honum miklu réttara að breyta stefnu og reyna að láta sína flokksmenn lifa þannig að kjósendurnir vilji treysta þeim. Það er áreiðanlega miklu réttara fyrir hann heldur en að vera nú að leggjast á móti þeim málum, sem hann hefir áður barizt fyrir, eða þá hreinlega að ganga nú í annan flokk. Að öðrum kosti þykir mér ekki ólíklegt, að þetta herbragð hv. þm. og hans flokksmanna verði þeim til álíka mikils pólitísks framdráttar og byltingin í fyrra, ef þeir halda því áfram.

Hv. þm. var að tala um löngun hjá mér til þess að styðja jafnaðarmenn í því að auka beina skatta frá því, sem verið hefir. En þetta kemur fram hjá honum af því hann virðist ekki þekkja stefnuskrá Framsóknarflokksins, sem gengur einmitt út á það að hækka beina skatta, og hann hefir kannske heyrt það, að framsóknarflokksþingið í fyrra samþykkti einmitt áskorun til þingmanna flokksins um að herða á þeirri hækkun meira en orðið er, alveg eins og flokksþing sjálfstæðismanna í vetur gerði aths. við till: hv. 1. landsk. í kjördæmamálinu. Annars skil ég það mjög vel, að hv. 1. landsk. með öllu sínu sementsbraski og lóðabraski í Skildinganesi lítist ekki sem bezt á hækkun tekjuskatts. Hv. þm. viðurkenndi, að ég væri ekki samskonar braskari og hann, og það er alveg rétt, að ég hefi aldrei verið hrifinn af hans braski, eins og allir vita, enda er líklega enginn, sem þessir braskarar hata meira en mig, eins og þegar er vitað. Ég skal minna á það í sambandi við aðstöðu hv. 1. landsk. til þessa máls, að framkoma hans á Alþingi 1930, sem að öllum líkindum skapar honum þúsund ára frægð, sýnir betur en nokkuð annað glögga mynd af hinu nána sambandi milli hans og fjárplógselementanna í landinu. Sú till., sem hann flutti þá, mun aldrei verða til mikils sóma fyrir hann og hans flokk, en hún sýndi auðvitað mjög greinilega það, sem raunar var áður fyllilega vitað, en það var viðhorf hans og hans flokks til mín, sem var svo mótað af hugarfari fjárplógsmanna og braskara, að engum gat dulizt. Þess vegna er það ekkert óeðlilegt, þó að ég bæði fyrr og síðar beiti mínum áhrifum á móti stefnu þessara manna í skattamálunum, með því að stuðla að því, að tekjuskatturinn komist í réttlátara horf. Við framsóknarmenn höfum enga ástæðu til þess að gera bandalag við Alþýðuflokkinn til þeirra hluta; við munum sjálfstætt vinna að því að hækka beinu skattana, eftir því, sem við verður komið. En ég hygg, að hv. 1. landsk. sé nú einmitt með þessari framkomu sinni að vinna okkar stefnu meira gagn en hann grunar, með því að efla og auka hatur á nefsköttunum, sem hann nú er að mæla á móti, en er í hjarta sínu vinveittur.