10.05.1932
Sameinað þing: 8. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 284 í D-deild Alþingistíðinda. (4102)

223. mál, viðskiptasamningar við erlend ríki

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég má segja, að það hafi verið aðalflm. þessarar till., sem á sínum tíma bar fram frv. um stofnun utanríkismálanefndar, sem í samráði við stj. á að annast utanríkismálin. Það er því óneitanlega dálítið skrítið af sama hv. þm. að ætlast til þess nú, að gengið sé framhjá þessari n., sem kosin var af Sþ., og ræða utanríkismálin við stjórnmálaflokkana.

Annars vildi ég gefa nokkrar upplýsingar í sambandi við þau tvö atriði, sem hv. flm. nefndi í till. sinni. Um fyrra atriðið, innflutningstoll á fiski í Englandi, er það að segja, að sendiherra okkar í Kaupmannahöfn hefir farið til Englands og kynnt sér það mál og hefir þar gert allt, sem hægt hefir verið, okkur til hagsbóta.

Hitt atriðið er um sölu síldar til Rússlands. Að fyrirlagi mínu var sendiherra Íslands í Khöfn falið í vetur að athuga möguleika fyrir slíkri sölu, og fyrir skömmu síðan hefir aftur verið farið á stúfana til þess að athuga þetta. Nú standa yfir samningaumleitanir, sem ekkert er hægt að segja um ennþá. Ég er hv. flm. alveg sammála um það, að æskilegt væri að geta selt síld og jafnvel aðrar vörur til Rússlands, og ætti ekkert að vera til fyrirstöðu frá okkar hálfu að koma á sem almennustum vöruskiptum við Rússa. — Ég hefi því ekkert við það að athuga, þó að þessi till. verði samþ., en vildi aðeins benda á það, sem búið er að gera í þessu efni.