10.05.1932
Sameinað þing: 8. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 285 í D-deild Alþingistíðinda. (4104)

223. mál, viðskiptasamningar við erlend ríki

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Ég vil taka undir það með hæstv. forsrh., að slík mál sem þetta eigi að heyra undir utanríkismálanefndina. Það er rétt, að Alþýðuflokkurinn á þar engan fulltrúa, en það má koma því svo fyrir, að hann eignist þar fulltrúa; ég veit ekki betur en að það hafi strandað á jafnaðarmönnum sjálfum, að þeir hafa ekki fengið þar fulltrúa nú undanfarið, eða þessi tvö síðustu þing.

Það er sama að segja um þessi mál og mörg önnur, er snerta viðskipti landa á milli, að erfitt er að ræða þau opinberlega, og því er það nauðsynlegt, að allir flokkar, sem vilja hafa einhver afskipti af utanríkismálum, eigi fulltrúa í þeirri nefnd, sem um þau fjallar. Ég vil því stinga upp á því við hv. þm. Alþýðuflokksins, að þeir leiti nú fyrir sér um það, hvort þeir geti ekki komið að einum manni í nefndina. Ég get t. d. nefnt mitt sæti, að velkomið væri þeim að fá það, ef þetta samkomulag kæmist á.

Hér í till. er bent á þann möguleika að selja Rússum eitthvað af okkar síld. Um þetta stóðu yfir samningar á árinu sem leið, og var ætlazt til þess, að við tækjum í staðinn hveiti og rúg. Þessi vöruskipti voru frá Rússa hálfu bundin því skilyrði, að íslenzka ríkið keypti gegn staðgreiðslum allt, sem frá þeim kæmi, en þeir vildu fá ársgreiðslufrest á því, sem þeir keyptu. Þetta var komið svo langt, að búið var að tryggja hér markað fyrir rússneskt korn, og einnig búið að tryggja þeim 20–30 þús. tunnur af síld, en samt gat ekki orðið af samningum.

Það kom í ljós, að Rússar voru að vísu fúsir á að selja korn, en ekki á það, að kaupa síld af okkur. Ég vil geta þess, að í þessum samningum stóð mjög kunnugur maður, forstjóri rússnesk-íslenzka verzlunarfélagsins hér í bænum. Ég vil benda á þetta, svo að menn geri sér ekki tálvonir um mikla viðskiptamöguleika við Rússland.

Um enska fisktollinn er það að segja, að þegar sendiherra okkar hafði athugað það mál, varaði hann okkur mjög alvarlega við því að halda, að við gætum sveigt tollmálastefnu Englands. Stjórnin mun auðvitað fylgjast með því, hvort samningamöguleikar skapast þarna, en þó það yrði, kæmi það varla til fyrr en seinni partinn í sumar. Gangur þessara mála í Englandi síðustu mán. er á þá leið, að von um sérsamninga verður alltaf minni og minni. Verzlunartollar hafa stigið geysilega, aðeins á nokkrum matvörum, svo sem eggjum, kjöti, fiski o. fl. er tollurinn aðeins 10%. Og þetta, að fiskurinn skuli hafa skárri kjör en flest annað, sem til Englands flyzt, minnkar auðvitað möguleikana fyrir því að koma honum niður úr þessum 10%. En það fer algerlega eftir því, hvernig samningar takast innan brezka alríkisins, hvort önnur lönd geta fengið nokkrar tollatilslakanir.

Mér þykir það undarlegt, að fyrst minnzt er á einstök atriði í till., skuli ekki vera minnzt á kjöttollinn og Noreg. Þar er sömu söguna að segja. Stj. hefir fylgzt með því máli fyrir munn sendiherrans í Danmörku. En ég vil bæta því við, að þarna er ekki aðalhættan fyrir okkur, heldur mun hún nú stærst suður í löndum. Það væri ekki síður ástæða til þess að hvetja stj. til að hafa góða gát á því, sem er að gerast í tollamálum Portúgals og Spánar, ekki sízt þeirri nýju skipun tollamála í Portúgal, sem hefir verið gerð nú ekki alls fyrir löngu.

Annars vil ég taka það greinilega fram, að allir tollasamningar eru erfiðir nú á tímum, þegar þjóðarstemning ber inn í þing flestra landa álfunnar sterkan meiri hl. fyrir tollverndarstefnunni, og að meira þarf en að senda einn mann til þess að fá þjóðirnar til að sveigja út af þeirri stefnu. Útlitið er ekki bjart fyrir okkur. Það er auðvitað ágætt að skylda stj. til þess að vera á verði um hagsmuni okkar, en hitt er sennilegt, að áður en þetta sumar er liðið verðum við að sæta miklu þyngri búsifjum í þessum efnum en nú, og þyngri en okkur grunar. Það getur verið, að verði að kalla saman þing í haust og þar verði að taka upp verndartollastefnu í stórum stíl, til þess að svara tollum annara þjóða. Andi till., sem hér um ræðir, er sá, að stj. fylgist vel með slíkum málum, og að því leyti getur vafalaust allur þingheimur samþ. hana. Svo er þar hent á einstök atriði, sem þó ekki eru aðalatriðin í þessu máli. Það er e. t. v. rétt að láta ekki of mikið uppi um hræðslu sína í þessum efnum, en ég tel sérstaklega varhugavert að færa þetta mál út úr starfssviði utanríkismálanefndar. Og ég vildi miklu heldur, að jafnaðarmenn fengju þar fulltrúa en að þetta mál væri frá henni tekið.