10.05.1932
Sameinað þing: 8. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 287 í D-deild Alþingistíðinda. (4106)

223. mál, viðskiptasamningar við erlend ríki

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Ég man það, að á sumarþinginu í fyrra, þegar nefndin var kosin, átti ég tal við einn af þm. jafnaðarmanna um það, að þeir ættu að setja mann í utanríkismálanefnd. En hvort sem það hefir verið af pólitísku skírlífi eða öðrum ástæðum, fékk ég engar undirtektir með það. Auðvitað verða þeir að fá nóg atkvæðamagn til þess að koma manni í n., en ég geri ráð fyrir því, að það atkvæðamagn hafi hvorki skort á sumarþinginu eða því yfirstandandi. Ef þeim væri leyft að hafa einn mann á lista, sem kæmist að, sé ég ekki betur en að það sé alveg sama hjálpin og þó að þessi maður væri hafður á lista annarshvors hinna flokkanna. Þessi n. er þannig vaxin, að í henni eiga að vera fulltrúar allra flokka, og jafnaðarmenn mega sjálfum sér um kenna, að þeir skuli ekki eiga þar fulltrúa nú. Ummæli mín í fyrri ræðu minni voru sögð án þess að ég bæri mig saman við minn flokk eða aðra. Ég talaði aðeins um, hvað ég vildi gera til að jafnaðarmenn fengju sæti í nefndinni.