10.05.1932
Sameinað þing: 8. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 288 í D-deild Alþingistíðinda. (4107)

223. mál, viðskiptasamningar við erlend ríki

Jóhann Jósefsson:

Það er í rauninni eðlilegt, að einhver rödd komi fram í þá átt að beina athyglinni að þeirri miklu nauðsyn, sem okkur er nú á því að komast að viðunandi viðskiptakjörum við aðrar þjóðir, og þá sérstaklega Breta. Tollur sá, sem þar hefir verið lagður á fisk, kemur mjög hart niður á viðskiptum Íslendinga við Bretland. Þessi tollur kemur ekki aðeins niður á ísfiskinum, heldur hefir hann líka gert saltfisksöluna til Englands torvelda. Eftir því, sem ég hefi frétt frá saltfisksútflytjendum til Englands, er það nú mjög á reiki, hvort þeir fái endurgreiddan toll af þeim íslenzka saltfiski, sem Bretar kaupa til þess að flytja síðan til Afríku og Brasilíu, því að sem kunnugt er, er saltfiskurinn, sem við seljum til Bretlands, ekki notaður þar, heldur fluttur burt aftur. Ég hefi orðið þess var hjá útflytjendum, sem hafa viðskiptasambönd í Englandi, að þeir hafa það eftir viðskiptavinum sínum í Englandi, að aðgerðarleysi Íslendinga í því að leita samninga við Englendinga hafi orðið þeim til mikils skaða. Þessir brezku viðskiptavinir hafa látið í ljós, að ekki mundi hafa orðið svo torvelt fyrir Íslendinga að fá linkind viðvíkjandi tollinum. Ég vil ekki fullyrða, hvernig þetta hefði reynzt í framkvæmd, og ber ekki brigður á orð hæstv. fjmrh. um þá örðugleika, sem nú séu á öllum tollasamningum. Þó að þeir erfiðleikar hafi ekki farið vaxandi síðan Bretar stigu það þýðingarmikla spor að hverfa frá frjálsri verzlun, er ekki hægt að sjá heldur, að úr þeim hafi dregið. Nú má segja, að augu manna um allan heim beinist að alríkisráðstefnunni miklu í Ottawa í sumar, þar sem fulltrúar brezku nýlendnanna koma saman og ræða fyrirkomulag tollamálanna innan brezka alríkisins. Nú þegar er gert ráð fyrir því, að nýlendurnar fái sérstöðu gagnvart Englandi með tollamál, og eins hefir verið gefið í skyn, að vinveittar þjóðir mundu ef til vill einnig fá sérstöðu. Þarna kemur það fram, að þegar Bretar hurfu frá frjálsri verzlun, hafi þeir haft það líka fyrir augum að geta notað tollalöggjöfina til samninga við önnur ríki um ýmsa hluti. Og í slíkum samningum ætti Ísland að hafa jafngóða aðstöðu og hvaða land sem væri.

Fyrir skömmu var haldin ráðstefna í Englandi, og komu þar saman fulltrúar 17 ríkja til þess að ræða um frjálsa verzlun. Sú ráðstefna var aðallega haldin með það fyrir augum að vera upphaf andróðurs gegn verndartollastefnunni, sem auðséð er, að er á hraðri uppsiglingu í Englandi. Mér þykir það eftirtektar- og eftirbreytnisvert fyrir okkur Íslendinga, að fulltrúar ýmsra ríkja, þar á meðal Danmerkur, lögðu mikla áherzlu á það, að sótzt væri eftir því að kaupa enskar vörur umfram aðrar.

Það gengur nú sem rauður þráður í gegnum öll viðskipti milli ríkja, að þeir, sem vilja ná í einhver viðskipti, verða að hafa einhver viðskipti að bjóða. Hæstv. fjmrh. mjnntist réttilega á erindi, sem stj. hefir borizt frá utanríkismálaráðuneytinu danska og hún nú hefir sent Alþingi, um það, hvernig málum okkar væri komið í Portúgal. Það virðist steðja að ekki svo lítil hætta. Og það skeður einmitt á sama tíma, að Íslendingar ryðja vöru sinni svo til rúms á portúgölskum markaði, að það fer ekki öfundarlaust framhjá öðrum þjóðum. Í skýrslu þessari frá danska utanríkismálaráðuneytinu segir frá því, að danska generalkonsulatið í Lissabon hafi komizt að því, að utanríkismálaráðuneyti Portúgals sé að athuga möguleika á því að koma meiri verzlunarjöfnuði á milli Íslands og Portúgals en nú sé, og það tvennt hafi komið til álita, annaðhvort að auka útflutning portúgalskra vara til Íslands, eða þá að hækka toll á íslenzkum fiski.

Það er, eins og hæstv. fjmrh. tók fram, sérstaklega þarna, sem hagsmunir Íslands eru í voða, og öllum má vera ljóst, hvílíkur hnekkir það yrði fiskútflutningi okkar, ef Portúgal tæki upp fjandsamlega tollapólitík.

Það hefir verið minnzt á kjöttollsmálið í Noregi við þessar umr. Ég geri ráð fyrir því, að atbeina stj. þurfi til þess að kippa því máli í lag, ef ekki þykir heppilegra að beina kjötútflutningi okkar í aðrar áttir, svo að við þurfum Noregs þar ekki við. Ég geri ráð fyrir því, að samningar við Noreg verði ekki síður erfiðir nú en 1924.

Það hefir verið mikið um það rætt í sambandi við útflutning á ísfiski, hvort þingið mundi ekki gera neitt til þess að leita einhverra leiða til þess að koma íslenzkum fiski á erlendan markað, og þá aðallega þann enska. Þótt lítið eitt hafi verið selt á þýzkum og hollenzkum markaði, er það svo lítið, að sá enski yfirgnæfir. En auðvitað þurfa stjórnarvöldin að athuga, hvort ekki muni fært að opna ísfiskinum víðar markaði en í Bretlandi.

Í grg. þessarar till. segir svo m. a., að atvinnurekendum og útflytjendum sé ekki treystandi til að leysa þetta mál. Finnst mér hér óheppilega og óviðkunnanlega að orði komizt, því að það er ekki einstaklinganna að gera slíka viðskiptasamninga við erlend ríki, heldur er það stjórnarvaldanna verk að leysa slík mál ríkja á milli.

Ég vil styðja þessa till., af því að mér er það ljóst, hvílík nauðsyn er á því að beina athygli stjórnarvaldanna að því að efla sem mest utanríkisverzlun okkar. Það kann að vera, að till. hefði átt að vera með öðru formi, eins og hæstv. forsrh. drap á, en mér finnst þó ekkert athugavert við það, þó að flm. hennar hafi viljað afgr. þetta mál sem ályktun Alþingis. Það eru mörg mál, sem Alþingi hefir ástæðu til að skipta sér af, og þetta er ekki hvað þýðingarminnst, því að mikið er í húfi um það, að reynt verði að leysa þetta svo vel af hendi sem unnt er.