20.04.1932
Efri deild: 56. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 855 í B-deild Alþingistíðinda. (411)

5. mál, verðtollur

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Hv. 1. landsk. sagði, að ég hefði viðurkennt, að það ætti að vera samband milli skattamálanna og stjórnarskrármálsins. Það er rétt, að ég viðurkenndi, að það ætti að vera samband milli skattanna og þjóðarviljans. En það hagar þannig til nú, að það er engin hætta á því, að nokkurt skattamál verði afgr. á þessu þingi, sem ekki hefir meiri hl. þjóðarinnar að baki sér. Það hagar þannig til um skipun Ed. nú, að slíku er alveg borgið. Það er rétt, að ég viðurkenndi sambandið milli skattamála þjóðarinnar og þjóðarviljans, en ég viðurkenndi ekki samband milli skattamálanna og stjórnarskrármálsins, þó að ég sjái og skilji, á hvern hátt hv. andstöðuflokkar hugsa sér, að þessi mál eigi að hafa áhrif hvert á annað, því að það er vitanlega allt af hægt að hugsa sér eitthvert óeðlilegt samband milli tveggja mála, og þetta minnir mig ósjálfrátt á kæru, sem hv. 2. þm. Árn. barst einu sinni, og var eitthvað á þessa leið: „Með því að N. N. hefir haft óleyfilegt samband við konu mína, þá leyfi ég mér hér með að kæra hann fyrir að hafa skotið tíu æðarkollur“. Það er rétt, að þessi kæra ber með sér víst samband milli tveggja alóskyldra mála, og samskonar samband hafa hv. andstæðingar sett á milli tveggja álíka óskyldra mála hér í hv. d., en það samband er þess eðlis, að það tjáir ekki að ræða það nánar.