20.04.1932
Efri deild: 56. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 856 í B-deild Alþingistíðinda. (412)

5. mál, verðtollur

Jón Baldvinsson:

Ég ætla að leiðrétta það; sem hæstv. dómsmrh. var að tala um, í hve mörgum flokkum hv. 1. landsk. hefði verið. Hæstv. ráðh. sagði, að hann hefði verið í sex flokkum, en þetta er ekki rétt. Ég hefi nú verið að rannsaka þetta og telst svo til, að þessi hv. þm. hafi ekki verið nema í 5 flokkum. Hæstv. dómsmrh. taldi bæði sparnaðarbandalagið og 10 manna bandalagið, en þetta var einn og sami flokkurinn. en svo gleymdi hann aftur Borgaraflokknum. Hæstv. ráðh. taldi ennfremur Alþýðuflokkinn, en það var vitanlega ekki rétt. Annars stóð ég á fætur til að leiðrétta það, sem hæstv. ráðh. og hv. 1. landsk. hafa verið að bera hvor á annan um samninga við Alþýðuflokkinn. Hv. 1. landsk. hefir borið ráð á hæstv. dómsmrh., að hann hafi tilheyrt Alþýðuflokknum nú um skeið, og hæstv. dómsmrh. hefir haldið því fram, að hv. 1. landsk. hafi undanfarið verið í þessum flokki. En ég mótmæli þessu og vil bera þær sakir af Alþýðuflokknum, að þessir menn hafi nokkurntíma í honum verið. (JakM: Hefir dómsmrh. aldrei verið í Alþýðuflokknum?). Nei, dómsmrh. hefir aldrei verið í Alþýðuflokknum. (JakM: Nei, ekki sem ráðh., en áður?). Nei, aldrei, hvorki sem ráðh. eða sem Jónas frá Hriflu, og það er aðeins gert til þess að svívirða flokkinn að vera að bendla þessa menn við hann. (JakM: En hefir þá dómsmrh. aldrei verið í Dagsbrún?). Það getur vel verið, en það hafa líka margir „frjálslyndir“ verið í því félagi.