10.03.1932
Neðri deild: 25. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1125 í C-deild Alþingistíðinda. (4132)

118. mál, húsnæði í Reykjavík

Héðinn Valdimarsson:

Hv. 1. þm. Arn. og flm. þessa frv. lætur sér annt um okkur Reykvíkinga og sýnir öllu meiri áhuga í því, heldur en að greiða fyrir sínum eigin kjósendum. Hann hefir ekkert frv. flutt til þess að laga þeirra hag, og virðist þó sízt vanþörf á því. Ég finn ekki ástæðu til að þakka þennan brennandi áhuga hv. flm. fyrir bæjarbúum, því að þó að hann væri einu sinni þm. fyrir Reykjavík, þá nýtur hann engrar lýðhylli hér nú. Það má hv. þm. vita.

Þó að þetta frv. veki engan fögnuð hér í bænum, þá hefir hv. þm. sniðið af því ýmsa agnúa frá því á sumarþinginu. En þrátt fyrir það er gildi þess mjög vafasamt fyrir bæjarbúa; það, sem veldur mestum vandræðum hér í bænum, er hvað það húsnæði er lélegt og ófullkomið, sem fjöldinn á við að búa, og í öðru lagi, hvað húsnæðið er dýrt. Hv. þm. snýr sér með þessu frv. aðeins að annari hlið málsins — húsaleigunni. Það, sem einkum hefir staðið í vegi fyrir umbótum á þessu sviði, er, að bankarnir lána ekkert til húsabygginga, veðdeildin má heita lokuð, og það litla, sem selst af veðdeildarbréfum, er með svo miklum afföllum, að byggingarkostnaðurinn margfaldast. Þetta kemur svo vitanlega aftur fram í húsaleigunni, hún hlýtur að verða því hærri, sem örðugleikarnir eru meiri við að byggja húsin. Jafnframt því að lækka og samræma húsaleiguna þarf þess vegna að greiða sem bezt fyrir lánveitingum til húsabygginga og bæta lánskjörin. En stefna Framsóknarflokksins hefir verið sú, að hindra lánveitingar til húsabygginga í Reykjavík, og auk þess eru lánsstofnanir nú svo félausar, að jafnvel þó að Framsókn vildi eitthvað styðja að auknum byggingum, þá er það ekki hægt. Þó að talsvert sé komið áleiðis um byggingu nokkurra verkamannabústaða hér í bænum, þá er það samt svo, að ef húsaleigan á að lækka til muna, þá verður að efla byggingarstarfsemi í bænum, einkum fyrir verkamenn. En ekkert hefir enn komið fram í þá átt á þessu þingi. Á síðasta þingi varð samkomulag um það á milli Framsóknarfl. og Alþýðufl. að láta arðinn af tóbakseinkasölu ríkisins renna til húsabygginga í sveitum og til verkamannabústaða í kaupstöðum. En nýlega er fram komið frv. frá stj., þar sem laumazt er aftan að þessum tekjum með því að leggja enn háan toll á tóbakið, og vitanlega rýrir það tekjur byggingarsjóðanna af þeim stofni. Málið verður ekki leyst án þess að eitthvað sé gert annað en að jafna húsaleiguna, annaðhvort að styrkja einstaka menn til bygginga eða samvinnufélög, sem stofnuð væru í þeim tilgangi.

Þetta frv. kann þó að verða til bóta að einhverju leyti, og mun ég ekki hindra, að það fái að ganga til nefndar. En ég vil hér með skora á hv. flm., fyrst hann þykist bera svo mikla umhyggju fyrir hag okkar Reykvíkinga, að hann beiti áhrifum sínum til þess að lækka mjólkurverðið í bænum, því að í því eiga kjósendur hans mikinn þátt.