19.05.1932
Neðri deild: 78. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 300 í D-deild Alþingistíðinda. (4150)

187. mál, björgunarstarf og eftirlit með fiskibátum

Vilmundur Jónsson:

Ég hefði kosið betri og ákveðnari undirtektir undir till. þessa, en verð að sjálfsögðu, úr því sem komið er, að sætta mig við þau örlög hennar, að henni verði vísað til stj. Ég er því miður ekki svo heppinn, að nokkur úr hæstv. stj. sé viðstaddur nú, svo ég geti spurzt fyrir um það, hvað hún muni treysta sér til að gera í þessu máli. Ég get ekki látið vera að mótmæla því hjá hv. 1. þm. S.-M., að það sé eins hættuleg sjósókn fyrir Austur- og Norðurlandi eins og Vesturlandi. Allir, sem kunnugir eru sjósókn í þessum landshlutum, vita það ofurvel, að hún er langhættulegust fyrir Vesturlandi, enda hefir reynslan sýnt það, að þar verða sjóslysin flest og stórkostlegust. Það er að vísu erfitt að sækja sjó frá Vestmannaeyjum, en á engan hátt erfiðara eða hættulegra en frá Vestfjörðum.

En sem sagt, úr því að sjútvn. tók á þennan veg í þetta nauðsynlega mál, þá verður sennilega við þá afgreiðslu að sitja, sem hún leggur til, þótt ómakleg og óréttlát sé.