19.05.1932
Neðri deild: 78. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 300 í D-deild Alþingistíðinda. (4152)

187. mál, björgunarstarf og eftirlit með fiskibátum

Jón Auðunn Jónsson:

Ég vil leyfa mér að mótmæla því, sem hv. 1. þm. S.-M. sagði, að það væru áhöld um það, hvar á landinu væri mest þörf fyrir eftirlit með fiskibátum, því að það er vitanlegt öllum, sem til þekkja, að slíks eftirlits er langmest þörf fyrir Vesturlandi. Það er vitanlegt, að sjósókn er hvergi stunduð í skammdeginu hér við land eins og fyrir Vestfjörðum. Bátarnir þurfa að sækja þar á haf út um 24 sjómílur undan landi, og það einmitt á þeim tíma árs, sem verst eru veður og mest myrkur, enda er sjósókn á Vestfjörðum þá hættulegust. Hér á Suðurlandi, t. d. í Vestmannaeyjum og á Akranesi, eru fiskiveiðarnar stundaðar til þess að gera skammt undan landi, en fyrir vestan hefir jafnan orðið að sækja fiskinn ákaflega langt, svo að varla hefir verið hægt að sækja á þessi mið án þess að bátarnir yrðu að liggja úti á nóttunni. Slys hafa einnig orðið þar tiltölulega meiri en nokkursstaðar annarsstaðar hér við land. Ekki færri en 8 stórir bátar hafa farizt þar á 14 árum, og af þeim hafa allir, nema einn, farizt á tímabilinu nóv.-des. Sjósóknin er svo hættuleg á þessum tíma, að vafi getur leikið á, hvort stunda eigi sjó á þessum tíma, sé ekkert gert til öryggis mönnum og skipum, þótt þörf bæði sjómanna og þeirra, sem í landi vinna, krefjist þess, að sjór sé sóttur. Ég veit, að allir hljóta að viðurkenna, að þörfin á björgunar- og eftirlitsstarfsemi sé hvergi eins brýn og einmitt á þessum slóðum. Það er algengt, að veiðiskipin hrekjast frá Djúpi og vestur á firði og norður á víkur, af því að þau verða að sækja svo langt á haf út, þar sem straumar eru harðir og sjóar vondir, þótt hafnir séu víðast hvar góðar.

Auk manntjónsins má geta þess, að menn hafa undanfarin ár misst veiðarfæri fyrir þúsundir og tugi þúsunda kr. af völdum togara, einkum erlendra, sem toga yfir veiðarfærin og eyðileggja þau og veiðiskapinn. Hér getur því mætavel farið saman björgunarstarf og landhelgigæzla. Þegar varðbátur, þótt ómerkilegur væri, hefir verið á þessu svæði fram í sept., hafa menn varla séð togara í landhelgi, af því að togararnir hafa vitað af varðbátnum á þessu svæði á þeim tíma.