19.05.1932
Neðri deild: 78. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í D-deild Alþingistíðinda. (4155)

187. mál, björgunarstarf og eftirlit með fiskibátum

Sveinn Ólafsson:

Ég hefi að sönnu ekki mörgu að svara, en verð þó að víkja lítið eitt að ræðu hv. þm. N.-Ísf. Mér fannst hann fullyrða heldur mikið, er hann sagði, að hvergi væri eins hættuleg sjósókn og frá Vestfjörðum. Ég verð að minna hann á það, að þar eru þó alstaðar góðar hafnir, eins og hann reyndar tók fram sjálfur, og það getur ekki talizt lítils virði. Hinsvegar get ég einnig bent honum á eina stóra veiðistöð á Suðausturlandi, sem enga þrautalendingu eða höfn hefir, nema þegar vel stendur á sjó og veður er kyrrt, og getur sú höfn orðið öllum skipum ófær á fárra stunda fresti. Þessi veiðistöð er Hornafjörður, og ætla ég, að engum blandist hugur um það, að þar sé hættan enn meiri en jafnvel fyrir Vestfjörðum og við Vestmannaeyjar. Fyrir Austfjörðum hefir þessi gæzla bátanna aldrei verið, nema þegar varðskipin hafa verið þar á ferð af tilviljun, og hafa þau þá ef til vill einstaka sinnum leiðbeint fiskiskipum, en aldrei þurft að bjarga þeim úr sjávarháska. Að sjósókn á haf út sé lengri vestanlands en annarsstaðar, held ég vera ofmælt hjá hv. þm. Hann sagði, að sjómenn vestra sæktu 24 sjómílur á haf út eða 6 mílur danskar. Ég get sagt honum, að ég þekki af eigin reynd miklu meira langræði en þetta. (JAJ: Í skammdeginu?). Að vísu er sá munur á, að veiði er stunduð meira í nóvember og desember vestanlands en austan, en þó er nóvember sjálfsagður fiskimánuður á Austurlandi og algengt að fara þar í fiskileitir 32 sjómílur á haf út. Ég ætla, að yfirleitt hendist á munum vegalengd og viðhorf til sjósóknar á Vesturlandi og Austfjörðum, en þó eru hafnir betri og öruggari vestra en sunnarlega með Austfjörðum, eða sunnan Berufjarðar.

Hv. þm. sagði, að saman gæti farið strandgæzla og eftirlit með fiskiskipum. Ég veit, að þetta tvennt getur oft farið saman, en þó ætla ég, að þurfi varðskipið að liggja yfir bátum 24 sjómílur frá landi, þá geti oft svo farið, að togarar sjái sér fært að skreppa inn fyrir landhelgilínuna, sem er 3 sjómílur undan landi, sérstaklega þegar kunnugt er um staðbindingu varðskipsins. Hinsvegar getur þetta eftirlit báta og strandvörn oft farið saman og fer oft saman, þar sem varðskipin eru á flakki kringum landið. Hefir oft verið reynt að taka tillit til óska verstöðva og héraða um eftirlit með fiskibátum og varðskipin einkum látin halda sig þar eða fara um þær slóðir, þar sem báta hefir verið von, þegar þess hefir verið kostur: Ég tel því allra aðilja vegna langbezt að fela framkvæmdarvaldinu og útgerð varðskipanna að hafa vakandi auga á þessu björgunarmáli bátanna vegna, en staðbinda ekki skipin frekar. Slíkt getur hreint og beint orðið til þess að veikja strandvörnina mikið og jafnvel aftrað björgun einmitt þar, sem mest liggur á, er umferðarsvæði hvers varðskips minnkaði vegna staðbindingar.