19.05.1932
Neðri deild: 78. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 304 í D-deild Alþingistíðinda. (4160)

187. mál, björgunarstarf og eftirlit með fiskibátum

Jón Auðunn Jónsson:

Ég verð að segja, að mér er ekki kunnugt um, að fiskveiðar séu stundaðar á Austurlandi í nóv. og des. Ég átti nýlega tal við mann nákunnugan þessum efnum, Jóhann Magnússon af Norðfirði, og tjáði hann mér, að sjósókn væri venjulega hætt þar eystra síðast í október. Í Hornafirði er sjór ekki sóttur fyrr en í febrúar og marz, en þá er dag mjög farið að lengja. Það ætti heldur ekki að þurfa að draga úr eftirliti þar, þótt varðskip væri haft fyrir Vestfjörðum frá nóv. og fram í janúar. Skipið gæti eftir þann tíma tekið að sér eftirlit þar eystra. Ég er hræddur um, að litið verði úr framkvæmdum í þessu máli, ef því er vísað til stj. og Alþingi lætur ekki heyra ákveðnari raddir en þetta.