23.03.1932
Neðri deild: 36. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1150 í C-deild Alþingistíðinda. (4173)

141. mál, skirteini til vélstjórnar

Frsm. (Guðbrandur Ísberg):

Ég er sammála síðasta ræðumanni um það, að eðlilegast væri að skipa málunum þannig, að ekki komi aðrir til greina sem vélstjórar en þeir, sem hafa próf. En undanfarið hefir verið hörgull á þesskonar mönnum, og hafa því mörgum verið veitt bráðabirgðaskírteini til vélgæzlu, sem eigi hafa gengið á vélskóla. Þessi maður, sem hér ræðir um, hefir starfað sem vélstjóri mjög lengi, og þar sem auk þess er um fátækan fjölskyldumann að ræða, væri það hart, ef honum yrði nú hægt frá atvinnu sinni. Ég get gengið inn á það, að eðlilegast væri að setja lög, sem heimiluðu undanþágu um tiltekinn árafjölda, og væri svo hætt með öllu að veita undanþágur. Og ég get upplýst, að frv. Þess efnis mun fljótlega verða flutt hér í þessari hv. d. En þar sem óvist er, að það nái að verða að lögum á þessu þingi, vil ég mælast til þess við hv. d., að hún lati þetta frv. halda áfram til Ed. Mér er kunnugt, að Vélstjórafélagið mun ekki hafa neitt sérstakt að athuga við það, þó að þessum manni verði veitt takmörkuð vélstjóraréttindi. Hefir lengi verið hörgull á vélstjórum á Akureyri, og má búast við því, að svo verði lengi enn, að vélstjóra skorti fyrir norðan, þó að nóg sé af þeim hér og í Hafnarfirði, þar sem gufuskipaflotinn er næstum allur samankominn. Er því ástæðulaust með öllu af hálfu Vélstjórafélags Íslands að amast við því, að frv. Þetta verði samþ. Treysti ég því, að hv. d. leyfi því að halda áfram til Ed. Gæti það eftir atvikum hvílt sig þar í n., þar til útséð er um, hvernig væntanlegu frv. um almenna undanþágu til handa próflausum vélstjórum reiðir af hér í deildinni.