29.03.1932
Neðri deild: 37. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1154 í C-deild Alþingistíðinda. (4179)

141. mál, skirteini til vélstjórnar

Frsm. (Guðbrandur Ísberg):

Ég vil leyfa mér að benda hv. 4. þm. Reykv. á það, að nú er hér mjög mikill hörgull á vélstjórum, a. m. k. úti um land. Og það er vitanlegt, að þetta verður svo, unz síðasti árgangurinn, sem nú er í vélstjóraskólanum, hefir verið útskrifaður. Fyrr getum við ekki gert okkur vonir um að geta fengið nóg lærðra vélstjóra. Og það er of hart að gengið að veita ekki þeim mönnum, sem nú hafa um lengri tíma gegnt þessum störfum og leyst þau vel af hendi, tækifæri til þess að öðlast vélstjóraskírteini. Álít ég, að með frv., sem ég nefndi aðan, sé einmitt stefnt í rétta átt að þessu leyti, að samkv. því gefist þessum mönnum tækifæri til þess í 3 ár að fá slík skírteini, og taka svo alveg fyrir þessar undanþágur eftir þann tíma. Það væri afarhart aðgöngu að heimta það, að undanþáguvélstjórarnir, sem flestir munu vera milli fertugs og fimmtugs, fari að setjast á skólabekk eftir að þeir hafa gegnt þessum störfum, sumir hverjir jafnvel upp undir 20 ár, og leyst þau prýðilega af höndum. Þá er og á það að líta, að hér er aðeins um takmörkuð vélstjóraréttindi að ræða, því að það er ætlazt til, að þessir menn hafi ekki rétt til að vera 1. vélstjórar á skipum með meira en 200 hestafla vél, og undirvélstjórar á skipum með meira en 900 hestafla vél.