16.03.1932
Sameinað þing: 5. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 317 í D-deild Alþingistíðinda. (4184)

91. mál, niðurfærsla á útgjöldum ríkisins

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Ég mun ekki fara mörgum orðum um þessa till., því að vafi leikur á um það, hvort formlega rétt sé að bera fram svona till. í sameinuðu þingi. Mun forseti fella þar úrskurð um.

Hafði ég hugsað mér, að hér myndi koma fram till. um þingskipaða sparnaðarnefnd, er starfaði einnig utan þings. Geri ég mér litlar vonir um, að ný n. ofan á fjvn., sem starfar um þingtímann, geti nokkuð gert umfram það, sem fjvn. getur. Þó gæti ég verið með slíkri n. um þingtímann, en ef hún ætti að starfa lengur, væri óþarfi að skipa fleiri menn en 3, og væru þeir þá stjórnskipaðir. Mun slík till. væntanlega koma fram í annarihvorri deildinni.

Starf þessarar n. þarf að vera með öðrum hætti en gert er ráð fyrir í ræðu hv. frsm. Má ekki ganga að þessu sem eldhúsdegi flokka, heldur verður að fara að því sem alvarlegri rannsókn og athugun. Hefir hér mikið verið rætt um sparnað, og virðast allir sammála um, að sparnaður verði að aukast, en þegar að því kemur, er snertir einstök héruð, þá eru menn ekki eins sammála. Verður sparnaðurinn jafnan örðugri í framkvæmd en í umr. á þingi. Á undanförnum krepputímum hafa verið settar margar sparnaðarnefndir, en ég hefi ekki orðið var við, að útgjöld ríkissjóðs hafi farið niður úr því, sem var, nema þá fyrir lækkað verðlag. Held ég, að heppilegra væri að vera sammála í sparnaðarmálunum á góðu árunum, því að erfitt er að taka upp sparnað, þegar versnar í ári. Þing og þjóð eru ekki laus við siðferðisbönd um ráðstafanir, sem áður hafa verið gerðar. Væri bezt að fara svo að, að sama búskaparlag gæti haldizt á góðum árum og vondum. Aðalviðfangsefnið er að rannsaka, hverju sleppa á, því að ekki er hægt að sleppa útgjöldum án þess að sleppa gagni því, er þau hafa veitt. Hafði ég hugsað mér, að skipuð yrði n. lík þeirri, sem skipuð var á Englandi síðastl. vor og bar góðan árangur. Gæti svo verið hér líka, og fer það þó eftir því, með hvaða hugarfari gengið er að verkinu. Verður að finna þær leiðir, sem greiðastar eru fyrir þjóðina út úr ógöngunum. Mun ég helzt kjósa þriggja manna stjórnskipaða n. eftir till. flokkanna.