16.03.1932
Sameinað þing: 5. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 318 í D-deild Alþingistíðinda. (4185)

91. mál, niðurfærsla á útgjöldum ríkisins

Jón Baldvinsson:

Hv. þm. Vestm. hóf mál sitt með því að lesa upp nokkur alvöruorð úr ýmsum þingmálafundargerðum. Venjulega eru nú í þeim fundargerðum tvennskonar till. Annarsvegar skorar fundurinn á Alþingi og ríkisstj. að spara sem mest, leggja niður óþörf embætti o. s. frv. Jafnframt eru samþ. margar till., þar sem fundurinn skorar á þm. kjördæmisins að beita sér fyrir því, að Alþingi samþ. ýmsar fjárveitingar til framkvæmda í kjördæminu. Hv. þm. las aðeins upp aðra hliðina á fundargerðinni, og yrði það of langt mál, ef ég læsi nú upp hina, sem er óefað miklu lengri.

Ég játa, að ástandið er nú ískyggilegra en nokkru sinni áður, en sú aðvörun hefir nú komið fram þing eftir þing, að varlega beri að fara með fé landsins. En um það verða hv. þm. sjálfir að dæma, hvað þeir taki til greina af þeim aðvörunum. Mun verða ástæða til þess fyrir Alþingi að gæta þess, að ekki verði að óþörfu veitt fé úr ríkissjóði og að aðeins verði því fé eytt, sem nauðsynlegt er til þess að fleyta landinu yfir þessa tíma, sem nú eru. En mér hefir samt þótt talsvert á það skorta, að hv. flm., eða þó sérstaklega sumir flokksmenn hans, hafi tekið fullt tillit til þessa. Hafa þeir reyndar jafnan tekið þunglega undir þær till., sem áttu að létta eitthvað undir með fólki því, sem verst er stætt.

Hv. þm. hefir auðsjáanlega búið sig undir eldhúsdagsumr. á stj. Hefi ég ekki búið mig undir þær, enda verður sjálfsagt tækifæri til þeirra, þegar fjárl. koma til umr. Vil ég aðeins víkja að því, er hv. þm. vildi gera Alþýðuflokkinn að stuðningsfl. stj. Þetta er ekki rétt. Alþýðufl. er andstæður stj., enda segja flokksblöð hv. þm. daglega, að svo sé, svo að hann er þar í mótsögn við sín eigin blöð. Býst ég við, að Alþýðuflokkurinn svari til þeirra mála, sem hann hefir samþ. með framsóknarstj., og fer ég ekki frekar út í það.

Hv. þm. fer fram á, að skipuð verði ríkisgjaldan. Þess vegna kom mér undarlega fyrir, að hann skyldi vera að skamma skipun gömlu ríkisgjaldanefndarinnar.

Þá talaði hv. þm. mikið um sparnað á opinberum rekstri, en minntist ekki á það, sem ekki er þýðingarminna, sem sé rekstur einkafyrirtækja. (JJós: T. d. bankanna). T. d. bankanna og útgerðarinnar. Þarf ég í þessu sambandi ekki að tala um hinar almennu kaupgreiðslur, heldur þær, sem goldnar eru fyrir störf þau, er sambærileg eru við þau störf, sem ríkið lætur vinna. Nú hefir hvorki Sjálfstæðis- eða Framsóknarflokkurinn viljað fallast á endurskoðun launalöggjafarinnar frá 1919. Hafa þeir viljað halda uppi þeirri reglu, sem haldizt hefir alllangt árabil, að halda föstum embættislaunum á lágum fjárhæðum, en hlaða svo utan um þau ýmsum aukalannum til uppbótar og til þess að þurfa ekki að fara í kapp um beztu mennina við einkafyrirtækin, sem greiða hærri laun. Ef t. d. kaupmaður rekur verzlun fyrir sjálfan sig, þá reiknar hann sér oft 30 þús. kr. árslaun. Eru þá skiljanlegir erfiðleikar ríkisins á því að halda í góða starfsmenn fyrir 4500 kr. á ári. Hefi ég hér skýrslu ríkisgjaldan. frá 1928. Sé ég þar, að einkafyrirtæki eitt greiðir pakkhúsmanni sínum 382 kr. meira á ári en ríkið lögreglustjóranum í Reykjavík, miðað við föst laun. Er það skiljanlegt, að af slíku vakni óánægja og að því séu veittir bitlingar, til þess að þurfa ekki að færa upp hærri laun á opinbera reikninga. Er þá oft búið að hlaða á opinbera starfsmenn 20000 kr. launum samanlagt, og þar yfir. Af þessum orsökum sakna ég úr till. þessari, að tekin séu hin stærstu einkafyrirtæki með. Ef þau greiða mörg forstjórum sínum 20–30 þús. kr., þá þýðir það óþarfa eyðslu fyrir þjóðina.

Vil ég beina því til hv. flm., hvort hann vilji ekki bæta því inn í till., að tekin verði upp rannsókn á kaupgreiðslum stærstu einkafyrirtækjanna. Þó að ég hafi þessa aths. við till., kem ég samt ekki fram með brtt. við hana. Vil ég lýsa yfir því, að ég og flokksmenn mínir munum greiða atkv. með þessari till. til að sjá, hvað hægt sé að gera í þessu efni, en betur hefði ég kunnað við hana aukna á þann hátt, sem ég minntist á.