31.03.1932
Efri deild: 39. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1154 í C-deild Alþingistíðinda. (4187)

141. mál, skirteini til vélstjórnar

Jón Baldvinsson:

Það hafa nokkur frv. lík þessu legið fyrir þinginu áður, þar sem farið er fram á að veita mönnum, sem ekki hafa tekið vélstjórapróf, rétt til vélstjórnar á íslenzkum skipum. Um þetta hafa orðið töluverðar umr. í blöðum í vetur, og hefir því verið haldið fram, að þegar vélstjóraskólinn hafi starfað í vetur, þá séu nægilega margir menn til, sem hafi þá þekkingu, sem heimtuð er eftir núgildandi lögum fyrir rétti til vélstjórnar á íslenzkum skipum. Eins og nú standa sakir er þetta undanþágumál orðið hálfgert vandræðamál frá báðum hliðum. Það er erfitt að gera upp á milli manna, sem hafa starfað lengi við vélstjórn. Það getur ýmislegt mælt með því að veita t. d. einum þennan rétt, en þá kemur annar og telur sér órétt gerðan með því. Verður þingið þannig að meta á milli manna í hverju tilfelli. Ég tel því vafasamt, hvort þingið eigi að ganga inn á þessa braut. Mér virtist bezt, að það skipti sér ekkert af því, þegar nægilega margir vélstjórar eru til, sem réttindi hafa. Ég vil því biðja hv. sjútvn., sem mál þetta fær til meðferðar, að athuga þetta rækilega, og mér þykir ekki ósennilegt, eftir þeim upplýsingum, sem ég hefi um þessa hluti, að hún komist að þeirri niðurstöðu, að ekki sé þörf á að veita þessa undanþágu.