08.04.1932
Neðri deild: 46. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 216 í B-deild Alþingistíðinda. (42)

1. mál, fjárlög 1933

Halldór Stefánsson:

Ég ætla ekki út í almennar umr. um fjárlögin að þessu sinni, heldur aðeins víkja nokkrum orðum að brtt., sem ég hefi leyft mér að bera fram á þskj. 334 við 13. gr. fjárlaganna 3. og 8. rómverskum tölulið, sem nokkurt samband er á milli. Í frv. stj. er lagt til, að veitt verði til nýbygginga á vegum 150 þús. kr., ótiltekið til hvaða vega, og hefir n. fallizt á till. um sjálfa upphæðina, en hefir hinsvegar borið fram ákveðnar till. um skiptingu þessarar fjárveitingar milli ýmissa vega. Till. n. um skiptinguna eru byggðar á till. vegamálastjóra og er meginhlutanum af þessu litla fé ætlað að fara til vega í óbyggðum og á heiðum uppi.

Eins og hv. frsm. gat um hafa verið og eru uppi tvær stefnur um það, hvernig skipta eigi því fé, sem lagt er til nýbygginga á þjóðvegum. Önnur leggur aðaláherzluna á það að bæta langvegasambandið milli landshlutanna, en hin er sú, að leggja beri aðaláherzluna á að bæta úr brýnustu þörfum til samgöngubóta byggðra héraða, bæði innan héraðanna sjálfra og til akvegasambands við kaupstað eða kauptún.

Það er ekki nema eðlilegt, að stefna þingsins mótist nokkuð af skoðunum vegamálastjóra í þessum efnum, og ég er ekki að ásaka þingið fyrir það út af fyrir sig, að vilja bæta langvegakerfið, en það er alveg áreiðanlegt, að þeim sem eiga við að búa alveg ófullnægjandi vegakerfi innan byggðra héraða og ófullkomið eða ekkert samband við viðskiptakaupstað eða kauptún, eiga eðlilega mjög erfitt með að aðhyllast slíkar skoðanir. Þeir finna það manna bezt, að vegabætur héraðanna auka og létta framtíðarmöguleikana, og því er það brennandi áhugamal þessara manna, að flýtt sé fyrir vegabótum í héruðunum. Það getur verið forsvaranlegt, ef mikið er lagt til vegamála, að ætla nokkurn hluta þess til langveganna um heiðar og óbyggðir, en það er alveg óforsvaranlegt, þegar svo litlu fé er varið til vegamála sem nú er, að helmingi þess eða meira verði varið til vega á heiðum uppi, meðan hin byggðu ból eru afskipt. Brtt. mín að þessu sinni er byggð eingöngu á þessari skoðun, þar sem ég legg til, að lítilsháttar fjárupphæðir verði veittar til framhalds nokkurra vega í byggðum á Austurlandi, en eftir till. hv. fjvn. er ekki ætlað nokkurt fé til vega á öllu Austurlandi, til þess að gera ekki með þessum brtt. hækkun á þessum lið fjárlaganna þá legg ég jafnframt til, að jafnmiklu fé verði svipt af heim heiðarveginum, sem mest er ætlað til, en það er Holtavörðuheiði. Það er ekki fyrir það, að ekki sé út af fyrir sig gott og þarft að halda vegagerð þar áfram, sem ég flyt þessa brtt., heldur hitt, að ég tel, að sá vegur megi frekar bíða en vegir innan héraða, með því líka að hann verður að teljast það sæmilegur eins og hann er, að við mætti búa um nokkur ár, enda er heiðin bílfær, og er búin að vera það í nokkur undanfarin ar. Það mál vel vera, að ekki sé síður ástæða til að bera niður til lækkunar á upphæðinni til vegarins um Vatnsskarð. Það mun vera ætlunin að flytja veginn þar til í Skarðinu, og það mun kosta svo mikið, að fé það, er n. leggur til, að fari þangað, hrekkur ekki nema að litlum hluta til hins nýja vegar. Það sem þar verður því gert til vegabóta að þessu sinni kemur ekki að neinum notum, því að hinn nýja veg verður ekki hægt að nota fyrr en búið verður að tengja hann við þjóðveginn aftur, og það verður ekki fyrr en eftir mörg ár, þó ríflega verði til hans lagt.

Ég ætla mér ekki að mæla sérstaklega með neinum einstökum af þessum vegum, sem ég flyt brtt. um framlag til. Allt eru það vegir í byggðum, og um að ræða aukning á vegakerfi byggðanna. Ég legg til, að það séu veittar aðeins lágar upphæðir til hvers vegar um sig, af því að af litlu fé er að miðla, en ég vildi með því sýna, að það væri ætlun þingsins að halda áfram að bæta vegakerfi þessara héraða, þótt í smáum stíl væri að þessu sinni. Almenningur mun skilja það, að ekki er hægt að veita stórar fjárhæðir á hverjum stað á þessum tímum, en hann getur ekki sætt sig við það, ef framkvæmdir falla alveg niður á þessum vegum, þar sem þó nokkru er varið til vegamála, og sízt getur hann sætt sig við það, ef það litla fé, sem veitt er, fer aðallega í vegagerðir á heiðum uppi. Ég hygg, að ekki sé of bjartar vonir sveitabyggðanna nú um framtíðina, hvað snertir efnalega afkomu, þótt þeir menn, sem hér heyja stríð við erfiðleika þessa tíma, sem ekki sviptir heim vonum, er þeir hafa gert sér um smábatnandi samgöngur.