21.03.1932
Sameinað þing: 6. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 348 í D-deild Alþingistíðinda. (4203)

91. mál, niðurfærsla á útgjöldum ríkisins

Forseti (EÁrna):

Ég tók það fram snemma í þessum umr., að óvíst væri, að ég sæi mér fært að leyfa nema takmarkaðar umr. um till. þessa, þar sem stór vafi gæti leikið á um það, hvort till. þessi sé borin fram á réttum vettvangi, svo óvíst væri, að hún gæti komið til atkvæða. Út af þeim ummælum hafa fallið þau orð, að þá hefði átt að vísa till. frá á fyrsta stigi málsins. Annað væri ekki leyfilegt. En þetta á sér engan stað. Þess eru mörg dæmi, að till. eða málsatriði hefir verið vísað frá á hvaða stigi sem var, áður en til atkv. kom. Í þessu efni er það vitanlega atkvgr., sem máli skiptir, en ekki umræðurnar.

Þá hefir líka verið sagt, að fordæmi finnist fyrir slíkri till. sem hér er á dagskrá, og hefir verið vitnað í þáltill. frá 1922. Út af því vil ég taka það fram, að í þeirri till. er ekkert atriði, sem kemur neitt nærri 35. gr. stjskr. Getur því ekki verið um réttmætan samanburð á þeim tveim till. að ræða.

Þá hefir það einnig verið fært fram sem ástæða fyrir því, að þessi till. gæti komið til atkv. í Sþ. og náð samþykki, að fyrirspurn hefir verið gerð til stj. um það, hvort hún myndi banna embættis- og starfsmönnum ríkisins að gefa slíkri n. þær skýrslur, sem hún kynni af þeim að heimta. Út af því vil ég taka það fram, að hversu margra spurninga sem stjórnin er spurð um þetta efni, og hvernig sem hún svarar þeim spurningum, þá breytir það í engu efni till.

Samkv. efni og orðalagi þessarar till. verður að líta svo á, að hér sé um að ræða skipun rannsóknarnefndar um mál, er almenning varðar, og með síðustu málsgr. till. er n. fengið óskorað vald til að krefja embættismenn og starfsmenn ríkisins um allar upplýsingar, er varða embætti þeirra eða stofnun þá, er þeir vinna við. Rannsóknarnefnd með slíku valdi getur ekki orðið skipuð öðruvísi en samkv. 35. gr. stjskr., og er henni að nokkru leyti öðruvísi háttað en venjulegri þingnefnd. Venjulegar þingnefndir skipa ýmist sameinað þing eða þingdeild, en nefnd samkv. 35. gr. stjskr. er deildunum einum ætlað að skipa, en ekki sameinuðu þingi. Að vísu er ekki í till. sjálfri vitnað til fyrrnefndrar stjórnarskrárgreinar, en það skiptir ekki máli, þar sem efni till. gerir beinlínis ráð fyrir því, að framkvæmd hennar sé byggð á valdi því, sem felst í 35. gr. stjskr. Það verður því að líta svo á, að það brjóti í bág við ákvæði stjórnarskrárinnar að gera ályktun um þessa till. í sameinuðu þingi, og úrskurðast því, að till. á þskj. 91 kemur ekki undir atkvæði.