29.03.1932
Neðri deild: 37. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1159 í C-deild Alþingistíðinda. (4210)

142. mál, skemmtunarskattur og þjóðleikhús

Flm. (Bergur Jónsson):

Ég hefi ekkert á móti því, að n. taki till. hv. þm. Borgf. til athugunar. En ég verð þó að segja það, að stór munur er á aðstöðu bæjar- og sveitarfélaga eða ríkissjóðs um öflun tekna. Í þeim eru tekjurnar fengnar með útsvörum, en við álagningu þeirra er hægt að taka tillit til allra ástæðna af kunnugum mönnum í hvert sinn. Er því hægt að ná þar nægum tekjum, enda þótt tekjur ríkissjóðs rýrni mjög, þar sem þær eru bundnar við alveg ákveðna lögbundna tekjustofna, sem geta rýrnað mjög í erfiðu árferði.

Hv. 3. þm. Reykv. vildi breyta frv. þannig, að skatturinn yrði bundinn við ákveðnar framkvæmdir úr ríkissjóði, eða þá að hann væri latinn renna til bæjarfélaganna. Eftir því, sem hv. þm. talaði, þá býst ég ekki við neinum stuðningi af honum. Ég get ekki verið með því að binda hverja tekjugrein ríkissjóðs við ákveðnar framkvæmdir. Ríkissjóður er samlagssjóður allrar þjóðarinnar. Honum á að verja henni til þarfa eftir því, sem þörfin heimtar og geta og kringumstæður leyfa í hvert sinn. Ef þessi samlagssjóður þjóðarinnar er aukinn, þá er líka hægt að gera meira og taka til greina fleiri þarfir landsmanna.

Ég mun litlu svara skætingi hv. þm. Ég hefi aldrei verið sócíalisti og mun aldrei verða það, a. m. k. ekki meðan hv. 3. þm. Reykv. er í þeim flokki. Ég hygg, að það hafi legið nær hv. þm. að verða Tímamaður en mér að verða sócíalisti. Hann var víst einu sinni nærri því kominn að verða ritstjóri þess flokks, en þá var, sem betur fór, völ á öðrum færari manni til þess starfa. Hefði Framsóknarfl. verið svo fátækur að starfskröftum þá, að hann hefði orðið að gera hv. 3. þm. Reykv. að ritstjóra sínum, þá væri hv. þm. líklega Tímamaður enn þann dag í dag.