29.03.1932
Neðri deild: 37. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1161 í C-deild Alþingistíðinda. (4212)

142. mál, skemmtunarskattur og þjóðleikhús

Einar Arnórsson:

Hv. þm. Borgf. tók að mestu af mér ómakið, þar sem hann svaraði þeim atriðum í ræðu hv. flm., sem ég sérstaklega ætlaði að gera aths. við.

Það liggja nú fyrir þinginu nokkur frv., sem borin hafa verið fram í þessari hv. d., frv., sem vitanlegt er, að sér staklega er ætlað að ná til Reykvíkinga. Má þar til nefna frv. um háleiguskatt, stóríbúðaskatt og frv. það, sem nú er til umr., þar sem farið er fram á að ráðstafa skemmtanaskattinum á annan veg en gert hefir verið. Það er nú svo um alla skatta, hvort sem þeir nefnast háleiguskattar, stóríbúðaskattar eða hverju nafni sem þeir nefnast, að ef þeir á annað borð eru greiddir, þá rýra þeir gjaldþol þeirra, sem fyrir þeim verða. Það er aldrei nema rétt, sem sagt hefir verið hér, að þeir séu ekki of góðir að borga skatta til hins opinbera, sem hafa efni á að veita sér mikil þægindi, hvort sem er í húsakynnum eða öðru, en þó er það svo, að það fyrir gjaldþol þeirra. Þeir eru t. d. ekki eins færir um að greiða há útsvör eins og ella. Þessir háu skattar til ríkissjóðs hljóta því að ganga út yfir bæjar- og sveitarfélögin, þar sem þau geta ekki þeirra vegna lagt eins há útsvör á og annars. Gjaldstofnar bæjar- og sveitarfélaganna hafa ekki það þanþol, að hægt sé að leggja ótakmarkað á þá. Hvernig komið er um sjávarútveginn t. d. hér í Rvík, vita allir. Hann þolir ekki þau álög, sem hann hefir borið undanfarið.

Útsvarsálagning á þá, sem að honum hafa unnið, getur því ekki orðið hin sama nú og verið hefir. Sama máli er að gegna um verzlunarstéttina. Hún getur ekki borið sömu álögur til bæjarfélagsins og verið hefir, a. m. k. eru tekjur hennar minni en að undanförnu, er bæði stafar af innflutningshöftum og kaupgetuleysi almennings. Af þessum ástæðum o. fl. er það sýnilegt, að löggjafarvaldið verður að fara sér varlega í því að skattleggja þegnana til ríkissjóðs, ef bæjar- og sveitarfélögin eiga að geta haldið uppi sínum fjárreiðum. Með þessu er ég þó alls ekki að halda því fram, að ekki sé rétt að leggja skatt á skemmtanir, heldur vil ég láta löggjafarvaldið fara eins varlega og hægt er, til þess að þrautpína ekki fólkið svo, að sveitar- og bæjarfélögin fái ekkert í sín gjöld.

Ég held, að það sé ómótmælanlegt, að kreppan komi engu síður niður á bæjar-og sveitarfélögin en ríkissjóðinn, og að þau eigi þeim mun erfiðara að ná inn sínum tekjum eftir því, sem kreppan stendur lengur. Ég álít því, að frv. þetta sé mjög varhugavert, því að ég vil láta skattinn ganga til þeirra sveitar- og bæjarfélaga, þar sem hann er greiddur.