15.03.1932
Neðri deild: 29. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1168 í C-deild Alþingistíðinda. (4229)

149. mál, verðhækkunarskattur

Flm. (Halldór Stefánsson):

Okkur flm. þessa frv. kemur það ekki á óvart, þótt menn verði ekki sammála um það, því að ýms ákvæði þess geta vitanlega verið álitamál. Við vikjum að því í grg., að þar sem þetta sé nýmæli, megi búast við, að okkur hafi ekki tekizt að ganga svo vel frá því í alla staði, að ekki verði að fundið. Það er því sjálfsagt að taka vel þeim aths., sem fram koma við málið, sérstaklega þar sem þær eru eins hóflega fram bornar eins og hjá hv. 2. þm. Skagf. Af því, sem ég hefi sagt, vildi ég að það skildist, að ég stend í raun og veru ekki upp til þess á þessu stigi ,málsins að ræða einstök ágreiningsatriði. Ég hugðist fyrst og fremst að minnast á fyrirspurn þá, sem hv. 2. þm. Skagf. beindi til mín. Hann spurði um, við hvað verðhækkunarskatturinn ætti að miðast, hvort miða ætti við krónuna eins og hún væri á hverjum tíma eða þá gullgildar krónur eða annan fastan óbreytilegan verðmæli. Í frv. er gert ráð fyrir að miða við verðmælinn, krónuna, eins og hann er á hverjum tíma. Ég skal þó geta þess, að þetta atriði kom til athugunar í n. Náðist ekki samkomulag um þetta atriði á milli okkar flm. Berum við fram aðeins það, er við vorum sammála um, mun og erfitt í framkvæmd og vafasamt í mörgum tilfellum, ef við annað væri miðað en þegar sala fer fram. Að því verður að gæta, þótt, verðmælirinn hafi mismunandi gildi gagnvart kaupi og sölu, hefir hann það einnig í skattgreiðslunni.

Hv. þm. kom dálítið inn á mál, sem ekki er á dagskrá, en er þó þessu máli tengt, það er sala þjóð- og kirkjujarða. ég er sammála honum um þá hugsun eða tilgang, sem þar lá til grundvallar, en við erum e. t. v. ósammála um, hverjar ályktanir beri að draga af þeirri reynslu, sem fengizt hefir. Það er ekki hægt að leggja mikið upp úr því, þótt hægt sé að benda á, að meiri framkvæmda hafi gætt á jörðum í sjálfseign en í leiguábúð. Það tel ég stafa fyrst og fremst af því, hversu örðug kjör leiguliðar hafa átt við að búa eftir ábúðarlögum vorum. En yrði þeim breytt til hins betra, þannig, að leiguliðar gætu haft sömu hvöt til umbóta á leigujörðum eins og eigendur, þá myndi munurinn hverfa. Ef svo væri um búið, að leiguliðar á opinberum eignum hefðu ekki aðeins lífstíðarabúð, heldur erfðaábúð og að öðru leyti svo um búið, að þeir og niðjar þeirra fengju að njóta þeirra umbóta, sem þeir gera á eigninni meðan þeir hafa hana með höndum, þá hefðu þeir sömu hvöt til umbóta og sjálfseignarbændur.

Ég finn svo ekki ástæðu til þess að minnast á fleiri atriði að svo komnu, en leyfi mér að leggja til, að málinu verði, að lokinni umr., vísað til allshn.