02.05.1932
Neðri deild: 65. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 353 í D-deild Alþingistíðinda. (4232)

150. mál, landvist erlendra hljómlistarmanna og um skemmtanaleyfi til handa úlendingum

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég vil geta þess út af till. þessari, að í ráðuneytinu var þeirri reglu fylgt um þá menn, sem hingað koma til þess að reka það sem atvinnu að spila, að bera það fyrst undir Hljómsveit Reykjavíkur, að ég ætla, en nú síðast hefir þetta verið borið undir félag hljómlistarmanna hér.

Í haust var viðkvæðið, að hér væru ekki til menn, er fullnægt gætu þessu, en nú koma alltaf fram fleiri og fleiri raddir um það að leyfa ekki útlendum mönnum að spila hér á kaffihúsum. Af þessum ástæðum hefir öllum, sem slík leyfi hafa fengið, verið tilkynnt, að leyfin verði ekki framlengd, þegar þau eru útrunnin, nema sérstaklega standi á. Hvað gert verður, þegar leyfin eru útrunnin, skal ég ekki fullyrða, en ætti ég um það að fjalla, mun ég hafa tilhneigingu til að láta innlenda menn sitja fyrir. Komið hafa fyrirspurnir frá erlendum listamönnum, og þeim verið svarað af lögfræðingi í ráðuneytinu á þá leið, að engin lög væru fyrir því að banna mönnum að koma hingað í því skyni að halda hljómskemmtanir, en hinsvegar voru þeir látnir vita, að þeir gætu ekki farið út úr landinu með peninga þá, sem þeir kynnu að vinna sér inn hér á landi, enda er hægt að hafa eftirlit með slíku, þar sem þeir eiga undir högg að sækja um yfirfærslu peninganna.