11.05.1932
Neðri deild: 72. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 355 í D-deild Alþingistíðinda. (4274)

548. mál, meðferð lánsfjár og starfsfjár

Flm. (Jónas Þorbergsson):

Ég geri ráð fyrir, að þegar litið verður yfir starf þessa þings, muni verða litið svo á, að í fari þess hafi komið fram meiri viðleitni en oftast endranær í störfum Alþingis í þá átt að létta gjöldum af ríkissjóði. Má í fyrsta lagi nefna fjárlagafrv. hæstv. fjmrh., sem mjög bar svip af þessari viðleitni, svo og afgreiðslu þessarar hv. d. á frv. Í öðru lagi má geta um þær mörgu till., fjórar alls, sem fram hafa komið í þinginu og allar hníga í þá átt, að ráðstafanir verði gerðar til niðurfærslu á kostnaði við rekstur ríkisins og stofnana þess, eftir því sem unnt kunni að vera.

Árangur þessarar viðleitni hefir, eins og kunnugt er, orðið sá, að nefnd hefir verið skipuð í hv. Ed. Er hún þegar tekin til starfa, og er gert ráð fyrir, að hún starfi einnig eftir að þingi er lokið, á þeim grundvelli, sem fyrir hefir verið mælt í nefndum tillögum.

Ég hefi í þessum sama farvegi leyft mér að bera fram till. til þál. á þskj. 548, sem hljóðar um meðferð lánsfjár og starfsfjár.

Eins og hv. dm. munu hafa veitt eftirtekt, er aðalefni þessarar till. að skora á ríkisstj. að undirbúa og leggja fyrir næsta reglulegt Alþingi frv. til laga um meðferð lánsfjár og starfsfjár bæjarfélaga, stofnana og atvinnufyrirtækja, þar sem ríkissjóður hefir hagsmuna og fjár síns að gæta, og þeirra stofnana, sem eru að meira eða minna leyti reknar með fé ríkisins og á ábyrgð þess.

Í fyrsta lagi fer till. fram á, að löggjöf þessi miði til þess að færa launagreiðslur hjá bæjarfélögum og stofnunum, þar sem ríkissjóður hefir hagsmuna að gæta, til samræmis við launagreiðslur við hliðstæð störf í stofnunum ríkisins, og til hæfis við fjárhagslega getu þjóðarinnar. Ennfremur er ætlazt til, að löggjöfin miði í þá átt, að frekari skilyrði verði sett en nú gilda fyrir lánveitingum úr bönkum, sem ríkissjóður ábyrgist, en það eru nú, eins og kunnugt er, allir bankar landsins. — Ég vil biðja hæstv. forseta að stilla til friðar úti í lestrarsalnum. Ég treysti mér ekki til að tala, þegar aðrir tala hærra en ég sjálfur.

Till. ber það með sér, að hún er miðuð við, að ríkissj. hafi víðar hagsmuna og fjár að gæta en í eigin rekstri og rekstri þeirra stofnana, sem starfa beinlínis á vegum hans. Ég hygg, að enginn mæli á móti því, að nauðsynin sé hin sama til að gæta fjár, hvort heldur féð er í eigin rekstri ríkisins og stofnana þess eða þeirra stofnana, sem eru að meira eða minna leyti opinberar og starfa með fé frá ríkissjóði og á ábyrgð hans. Ég geri ráð fyrir, að þessi sannindi, sem virðast augljós, séu almennt viðurkennd, en þessi viðurkenning hefir ekki komið fram í störfum og viðleitni Alþingis.

Þá er næst að athuga, hvar ríkissjóður hefir hagsmuna að gæta annarsstaðar en í eigin rekstri og rekstri stofnana ríkisins. Í till. eru nefnd bæjarfélög, stofnanir og atvinnufyrirtæki.

Samkv. landsreikningnum fyrir 1930 eru samanlagðar ábyrgðir ríkissjóðs fyrir banka, bæjarsjóði, sveitarfélög og ýms félög og stofnanir alls nokkuð á 12. millj. kr. Auk þess stendur ríkissjóður, eins og kunnugt er, í ábyrgð fyrir eigin lántökum og starfsfjárlánum handa bönkum. Þar má einkum nefna eftirstöðvar af enska láninu frá 1921 og veðdeildarlánið til Landsbankans. Stærstu ábyrgðirnar, sem hér eru nefndar í landsreikningnum, eru vitanlega fyrir bankana, þar næst fyrir Reykjavíkurkaupstað og loks fyrir Eimskipafélag Íslands. Ég ætla því, til þess að takmarka mál mitt, að halda mér við þessar þrjár stofnanir í hugleiðingum mínum um meðferð lánsfjár og starfsfjár á vegum þeirra stofnana, sem starfa ýmist beint eða óbeint á ábyrgð ríkissjóðs. Ég ætla fyrst að minnast á Eimskipafélag Íslands.

Ríkissjóðsábyrgðir fyrir það eru um hálf millj. kr. Þetta félag er samkv. uppruna og ætlunarverki sínu að hálfu leyti ríkisstofnun. Það er stofnun þjóðarinnar. Ríkið leggur því árlega mjög mikið fé og afstaða þess til lands, þjóðar og ríkissjóðs er sú, að það mundi aldrei verða látið bera upp á sker, heldur mundi Alþingi telja sjálfsagt að taka á sig, ég vil segja næstum því hve þunga fjárhagslega byrði sem væri, til þess að forða því frá hruni eða að verða að hætta störfum, vegna þess að félagið er líftaug þjóðarinnar og einn meginþátturinn í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga. En um leið og það er athugað, hve mikils virði Eimskipafélagið er fyrir þjóðina, og afstaða þess til ríkisins, sem ég áður gat um, verður það ljóst, að ríkið hefir þarna mikilla hagsmuna að gæta og það getur ekki verið því óviðkomandi, hversu þessu fyrirtæki er stjórnað og hvernig með fjárreiður þess er farið. Nú er það vitað, að félagið er í stöðugum fjárhagsvandræðum, eins og eðlilegt er, ekki sízt nú á tímum. En þrátt fyrir þau vandræði, sem að því hafa steðjað, eins og öðrum stofnunum ríkisins, og þau vandræði, sem hafa knúð fram hér á Alþingi þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið til að draga úr útgjöldum ríkisins, hefir þessi sama nauðsyn ekki haft nein áhrif á stjórn Eimskipafélags Íslands að því er snertir launagreiðslur, hliðstæðar þeim, sem mest hefir verið talað um hér í þinginu við rekstur ríkisins sjálfs og stofnana þess. Ég skal til fróðleiks telja hér upp helztu og hæstu launagreiðslur þess félags, svo að hv. þm. geti haft það til athugunar og samanburðar við launagreiðslur ríkisins og þær tölur, sem hefir verið verkefni fjvn. og allra hv. dm. að hugsa einna mest um á þessu þingi.

Framkvæmdarstjóri félagsins hefir 19 þús. kr. föst laun, en það er 7 þús. kr. hærra en ráðherrarnir hafa. Þrátt fyrir þessi ríflegu laun virðist svo, sem stjórn Eimskipafélagsins hafi óttazt, að þessi maður myndi tæplega geta séð sér fyrir sæmilegu húsnæði, svo að hún hefir gert sérstakar ráðstafanir og látið hann hafa 4 þús. kr. í húsaleigustyrk. En til þess að ennþá öruggara yrði, að maðurinn kæmist sæmilega af, hefir honum verið tryggður ágóðahluti — 3 þús. kr. á ári —, hversu svo sem rekstur félagsins gengi, hvort sem það tapaði eða græddi. En nú hefir félagið, eins og kunnugt er, tapað um margra ára skeið. Alls nema þessi laun forstjórans 26 þús. kr. á ári. Aðrir starfsmenn við þetta félag, svo sem skrifstofustjóri, aðalbókari og aðalritari hafa um 10 þús. kr. á ári.

Ég hirði ekki um að fara lengra út í einstakar upptalningar á launagreiðslum. Eins og gefur að skilja, munu launagreiðslu hjá þessu félagi yfirleitt bera nokkurn svip af launagreiðslum til stjórnenda félagsins og helztu starfsmanna.

Ég ætla þá, enda þótt einhverjum kunni að þykja nokkuð langt seilzt um öxl til lokunnar, að minnast á Reykjavíkurkaupstað í þessu sambandi.

Ég geri ráð fyrir, ef umr. verða um málið, að þá verði því haldið fram, og með nokkrum rétti, að Reykjavík sé sjálfstæður bær og að íhlutun Alþingis eigi þar ekki að koma til greina. En það er hinsvegar vitanlegt, að ríkissjóður stendur í mikilli ábyrgð fyrir bæjarsjóð Reykjavíkur. Samkv. landsreikningnum 1930 er þessi ábyrgð 2550000 kr. Auk þess hefir verið lagt fram á Alþingi, samkv. beiðni bæjarins, frv. til laga um ábyrgð á 7 millj. kr. láni til Sogsvirkjunarinnar. Má búast við því, að slíkar málaleitanir liggi einnig fyrir næstu þingum.

Því verður ekki með réttu neitað, að ríkið hafi fjárhagslegrar ábyrgðar að gæta gagnvart bæjunum. Auk þess ber á það að líta, að miklu skiptir fyrir ríkið, hversu farnast bæjarfélögum og stofnunum þeim, sem starfa innan vébanda þess.

Þá vil ég drepa á hag Reykjavíkurbæjar. Er þó ekki unnt að stikla nema á stærstu atriðum.

Skuldir bæjarins eru um 8 millj. kr. Bærinn á ófullnægjandi rafveitu, ófullnægjandi vatnsveitu, og gasveitu; sem líka er ófullnægjandi. Stafar þetta af því, að bærinn hefir vaxið stórum örar en verkfræðingar þeir, sem þessi mannvirki hafa undirbúið, gerðu sér í hugarlund. En af þessum sökum er bærinn í miklum vanda staddur. Vil ég sérstaklega benda á það, að vatnsveitan og rafveitan stríða hvor gegn annari. Því meir sem vatnsveitan er aukin, því meir tæmist lindasvæði Elliðaár. Getur því ekki liðið á löngu, að ráða verði verulega bót á þessu vandkvæði og stofna þannig til gífurlega mikils kostnaðar.

Þegar litið er á helztu ytri drætti um hag Reykjavíkur og stjórn hennar, er það eftirtektarvert, að annarsvegar virðist bærinn á undanförnum nokkrum árum hafa lifað hið mesta blómaskeið, svo að hann mun nú vera með allra stærstu höfuðborgum, miðað við tölu landsmanna; hinsvegar á hann þó ekkert ráðhús, engan spítala, engan alþýðuskóla og enga leikvelli handa börnum. Skipulagi bæjarins er mjög áfátt, og ber það vitni um megna óframsýni. Götugerð er skammt á veg komin og bærinn er í slíkum fjárhagsörðugleikum, að hann hefir ekki getað framkvæmt áætlanir sínar. Hann hefir átt mjög örðugt uppdráttar um lántökur. Tekur það af öll tvímæli um erfiðleikana, að bærinn hlaut á síðasta ári að leita leyfis um að fá að jafna niður sérstökum aukaálögum á bæjarbúa ofan á allþung gjöld, sem fyrir voru.

En þrátt fyrir þennan örðuga hag hafa stjórnendur bæjarins, sjálfstæðismenn og jafnaðarmenn, orðið ásáttir um það, að hann væri fær um að greiða 40% dýrtíðaruppbót á laun starfsmanna bæjarins.

Þá kem ég að bönkunum. Þeir starfa nú beinlínis á ábyrgð ríkisins og með fé, sem það hefir fengið þeim sem rekstrarfé eða ábyrgzt fyrir þá út á við. Hagur þeirra er hinn erfiðasti, sérstaklega þó Útvegsbankans. Snemma á þinginu var gerð skyndiráðstöfun um, að ríkið tæki ábyrgð á innstæðufé Útvegsbankans, af því að þá steðjuðu að honum sérstök vandræði.

Afskriftir af starfsfé bankanna síðustu 10 árin nema um 35 millj. kr., þegar með eru talin töp á gömlum lánum Íslandsbanka, sem Útvegsbankinn tók við um leið og hann tók við búi hans. Þrátt fyrir þessi fjárhagsvandræði greiðir Útvegsbankinn ennþá 60% dýrtíðaruppbót, eða laun, sem því svara.

Helztu launaflokkar bankans eru þessir: Bankastjórar 12000 kr. árslaun + 60% dýrtíðaruppbót = 19200 kr. Bókari og féhirðir 12000 kr. hvor, eða full ráðherralaun.

Í Landsbankanum hafa bankastjórar 24000 kr. hver, en aðrir hæstlaunaðir starfsmenn 11500 kr. hver, og er það lægra en tilsvarandi laun í Útvegsbankanum, en Landsbankinn greiðir eitthvað í lífeyrissjóð fyrir starfsmenn bankans, svo að laun þessara helztu starfsmanna munu vera lík í bönkum þessum.

Í þessum 3 stofnunum, sem starfa að mestu á ábyrgð ríkissjóðs, eru því laun greidd með dýrtíðaruppbót sem hér segir:

Reykjavíkurbær ............. 40 %

Eimskipafélagið ............. 40 —

Bankarnir ....................... 60 —

Eins og kunnugt er, hefir dýrtíðaruppbót starfsmanna ríkisins verið færð niður í 171/3%, og hefir það komið til orða hér í þinginu að afnema hana með öllu.

Í 1. tölul. till. þeirrar, er hér ræðir um, er gert ráð fyrir því, að opinber afskipti þingsins af launagreiðslum í landinu nái lengra en til þeirra stofnana einna, sem beinlínis eru á vegum ríkisins, og að þau verði látin ná yfirleitt til allra þeirra stofnana, sem starfa að meira eða minna leyti á ábyrgð þess, í þeim tilgangi að samræma launagreiðslurnar við fjárhagslega getu þeirra sjálfra og þjóðarinnar í heild sinni. Launagreiðslur hjá þessum stofnunum eru á ábyrgð ríkisins á meðan stofnanirnar starfa á ríkisins ábyrgð og með fé þess. Þar sem svo háttar til, er það ekki einungis réttur Alþingis, heldur og skylda að hafa afskipti af slíkum málum.

Þá vil ég benda á það, að með þeirri tilhögun, sem nú er, eru ríkisstofnanir settar í mikinn vanda. Þeim er skapaður aðstöðumunur, sem er ranglátur og hættulegur. Er það augljóst, að ef ekki aðeins mikill hluti af stofnunum og atvinnufyrirtækjum einstaklinga, heldur líka þær stofnanir, sem ég hefi nefnt, þykjast færar um að greiða þau laun, sem hér var lýst, þá hlýzt af því eðlileg samkeppni milli þeirra og ríkisstofnananna, þannig, að allir beztu starfskraftarnir hverfa yfir til þessara stofnana, en ríkið situr með þá lökustu. Virðist mér þetta svo augljóst mál, að Alþingi geti ekki gengið framhjá því. Getur það ekki stefnt til heillavænlegra úrslita, ef alltaf á að þröngva kosti ríkisstofnana, en láta það afskiptalaust, þótt fé sé ausið í launagreiðslur, t. d. til forstjóra banka og annara stofnana. Hefi ég því lagt það til í 1. tölul. till. minnar, að Alþingi feli ríkisstj. að athuga, hvort ekki sé réttmætt að setja almenna löggjöf um launagreiðslur á landinu, er næðu líka til annara stofnana en ríkisstofnana. Legg ég ekki dóm á það hér, hvort þetta muni vera fært. Ég lít svo á, að það sé fært, og því ber ég fram till., en reynslan verður vitanlega að skera úr um það, eins og önnur atriði þessa máls.

Þá er ég kominn að öðrum höfuðþætti máls míns. 2. tölul. í till. minni gerir ráð fyrir, að sett verði skilyrði fyrir lánveitingum úr bönkum, er ríkissjóður ábyrgist. Er ætlazt til þess, að slík löggjöf miði til þess einkum að koma á hagkvæmara og kostnaðarminna fyrirkomulagi í stjórn útgerðar og verzlunar í landinu og að komið verði til leiðar hlutaskiptum í útgerð, þar sem henni verður við komið.

Eins og kunnugt er, gilda nú lagafyrirmæli um ýmsa flokka lánveitinga úr bönkum landsins. Má þar til nefna veðdeildir Landsbankans og Búnaðarbankans, ræktunarsjóð og byggingar- og landnámssjóð. Eins og kunnugt er, gilda um slík lán margháttuð fyrirmæli um form, fasteignaveðstryggingar og hreppsábyrgðir. Öðru mál gegnir um það fé, sem bankarnir lána til atvinnurekstrar. Um skilyrði fyrir slíkum lánveitingum gilda engin fyrirmæli af þingsins hálfu, heldur er það algerlega lagt á vald bankastjórnanna. Í þessu sambandi er fróðlegt að rifja upp eitt mál, sem kom fram á Alþingi fyrir nokkrum árum.

Á þingi 1929 báru nokkrir þáv. hv. íhaldsmenn, með formann þess flokks, hv. núv. 1. landsk., í broddi fylkingar, fram frv. um rekstrarlánadeild handa bændum. Þessi deild átti að vera ein deild Landsbankans, en lán átti að veita eftir ákveðnum reglum, þannig, að félög með samábyrgð áttu að ábyrgjast lánin. Þarf ég ekki að rekja þetta nákvæmlega, því að málið mun flestum kunnugt. — Tilgangurinn var sá, að færa skuldir úr sjálfum verzlunarfélögunum yfir á ný félög, er aðeins hefðu peningaverzlunina með höndum.

Skilyrði fyrir lánum áttu að vera þau, að lánin greiddust að fullu fyrir 15. des. ár hvert, og skyldu viðurlög sett, þannig, að viðkomandi félagi yrði neitað um lán næsta ár, ef greiðslufall yrði. Þessi gjalddagi þótti ekki heppilega valinn, því að kaupfélög starfa með öðrum hætti en kaupmenn. Þau leita að sannvirði vörunnar, en það finnst ekki fyrr en afurðasölunni er lokið, og geta því niðurstöður reikningsskila dregizt nokkuð fram á næsta ár.

Þetta atriði skiptir að vísu ekki máli í þessu sambandi. Hitt er aðalatriðið, að þarna er fordæmi um það, að rétt hafi þótt að setja skilyrði fyrir lánveitingum til atvinnurekstrar. Þessi hugsun var réttmæt, þótt hún væri ekki að öllu heppileg að formi til og kæmi ekki til framkvæmda. — Í meðferð málsins á þingi var flutningsmönnum boðin samvinna með þeim skilmálum, að sett yrðu svipuð skilyrði um lánveitingar til sjávarútgerðarinnar. En þeir töldu sig ekki við því búna að láta slík skilyrði ná til hennar.

Er þó kunnara en frá þurfi að segja, að ólíku er saman að jafna áhættu af rekstri landbúnaðar og sjávarútvegs. Liggja þar til rök, sem ekki verður á móti mælt, þar sem eru gífurleg fjártöp í sambandi við tryggingarlausar stórlánveitingar til útgerðarinnar.

Eins og ég drap á, gilda ákveðin lög og reglur um nokkra flokka lánveitinga, en okkur skortir reglur, sem ná til atvinnurekstrarins yfirleitt. Okkur skortir almenn bankalög. Ég kemst ekki hjá því, úr því að ég ber fram svona víðtækar till., að leggja í það nokkra vinnu að færa fram hin sterku sögulegu rök, sem liggja að nauðsyn þessa máls. Ætla ég að verja nokkrum tíma til að gefa yfirlit um 3 dæmi af mörgum, sem sýna, að það eftirlitsleysi um meðferð lánsfjár, sem ríkt hefir hér í landi undanfarið, er alveg óafsakanlegt fyrir Alþingi og þjóðina. Tek ég það fram, að nú munu að vísu vera nokkuð aðrar starfsaðferðir í bönkunum en áður voru, en eigi að síður eru þessi dæmi, sem gerzt hafa undanfarin ár, þannig vaxin, að þau ættu að geta vakið Alþingi og alla þjóðina til umhugsunar um það, að það getur ekki leitt til annars en ófarnaðar og áframhaldandi háðungar fyrir land og þjóð, ef ekki verða gerðar ráðstafanir til þess að tryggja betur en verið hefir þá tugi millj. kr., sem bankarnir fá ýmsum einstaklingum og atvinnufyrirtækjum til rekstrar og sem hefir í meðferð einstakra manna og fyrirtækja sætt þeirri meðferð eins og væri það ekki lengur fé bankanna eða þjóðarinnar, heldur fé þeirra, sem hafa þegið það að láni.

Ég skal að svo mæltu leyfa mér að ganga nokkru nánar inn á þetta mál. Á síðastl. ári var að undangenginni opinberri kæru og að tilhlutun ríkisstj. skipuð nefnd manna til að rannsaka rekstur og lánsfjáraðferðir Íslandsbanka undanfarinn áratug. Í nefndina voru skipaðir Einar prófessor Arnórsson, hv. 2. þm. Reykv., og málafærslumennirnir Stefán Jóhann Stefánsson og Þórður Eyjólfsson. Það, sem ég dreg hér fram, er aðeins örlítill hluti af því, sem við starf nefndarinnar hefir komið í ljós af margra ára óstjórn, hirðuleysi og óafsakanlegri vanrækslu af hálfu bankastjóranna, og ég leyfi mér að fara hér með nokkrar tölur úr skýrslu n. máli mínu til sönnunar.

Af þeim dæmum, sem fyrir liggja og ég ætla að draga fram, virðist mega ráða það helzt um vinnubrögð bankans í lánveitingum, að því meiri sem orðið hafa vanskil, óreiða, greiðslubrigði, orðbrigði og frekja af hálfu viðskiptamanna bankans, því meiri hafi orðið auðmýkt, eftirlitsleysi og ráðleysi bankastjóranna og útaustur þeirra á fé bankans. Ég mun nú leyfa mér að benda á 3 dæmi, sem mér finnst óhjákvæmilegt að draga hér fram í umr., svo það sjáist, að þau hörðu orð, sem ég hefi nú látið falla, eru á rökum byggð, og skal ég þá fara svo fljótt yfir sögu sem mér er unnt.

Ég tek þá fyrst mann, sem oft hefir verið nefndur í íslenzku viðskiptalífi og opinberum umræðum, Geo Copland, sem var enskur kaupsýslumaður og hóf hér verzlun með fisk. Viðskipti hans og Íslandsbanka hefjast á árinu 1918, og er hann þá fyrst talinn einn um hituna. En skjótlega var svo að tilhlutun hans myndað hlutafélag, er hann gaf nafn sitt og nefndi: Geo Copland & Co., en var kallað manna á milli Fisksöluhringurinn. Er talið, að nokkrir málsmetandi menn í Reykjavík og utan Reykjavíkur hafi gengið í félag þetta.

Frá 1. maí til 1. júlí 1920 falla 12 víxlar, sem félag þetta átti að greiða í Íslandsbanka, og nam upphæð þeirra samanlögð 9 millj króna. Þetta sýnir m. a., hve geysimikið af starfsfé bankans var í veltu þessa félags. Sama ár byrjuðu greiðsluörðugleikar félagsins. Árið 1921 eru 3 víxlar, samtals kr. 4300000,00 sameinaðir í einn víxil með ábyrgð nokkurra manna, en engir forvextir greiddir, hvorki af eldri víxlum eða þessum samsteypuvíxli. Loks eru svo á árinu 1922 afskrifaðar sem algerlega tapað fé af víxli þessum kr. 1933266,90, eða nálega 2 millj. kr.

Þrátt fyrir það, þó að bankinn fengi þennan árekstur, er langt frá, að viðskiptum þessum sé lokið né Copland sé af baki dottinn, því að næsta ár hefst nýr þáttur í viðskiptasögu þessari. Þá kaupir bankinn „eigin víxil“ félagsins að upphæð 750 þús. kr. Tryggingar fyrir þessum víxli eru tvö hús, annað þeirra lystihús, sem Copland hefir haft efni á að byggja sér upp við Laxá í Kjós, sennilega vegna undangengins örlætis Íslandsbanka, — en hitt hér í Reykjavík: ennfremur 2 jarðir í Kjós og loks áveita, sem talin er vera í Kjós, en lítið orð hefir farið af. Ég skal engum getum leiða að því, hvert hefir verið eða muni vera verðmæti þessarar áveitu, eða hvort hún er í raun og veru til. En ekki hefir farið neitt orð af henni annarsstaðar en í þessu tryggingarskjali bankans, þar sem hún virðist þó ekki metin litlu verði.

Árið 1925 er skuldin komin upp í 1400 þús. kr. og þar af 1 millj. án ábyrgðar eða tryggingar. Þá er hag Coplands svo háttað, að hann sér ekki annað fært en að biðja um eftirgjöf á ½ millj. kr., en þó með því skilyrði, að hann fái ný lán hjá bankanum til áframhaldandi fiskverzlunar. Og svo virðist, sem bankinn hafi ekkert að athuga við þetta og veiti með glöðu geði þessum viðskiptamanni lán á lán ofan, því að árið 1926 er skuld Coplands við bankann orðin kr. 2132695,20, og þá eru honum gefnar eftir kr. 710464,00 á nýjan leik, til viðbótar þeim 2 millj. kr., sem áður eru taldar. Þessi tala mun þó hafa breytzt eitthvað við síðari útreikning bankans.

Nú hefði mátt ætla, að styttast færi í viðskiptum Íslandsbanka og Coplands. En svo er ekki, því að nú hefst þriðja og að ýmsu sögulegasta tímabilið í þessari merkilegu viðskiptasögu. Þá gera þeir samning með sér, bankinn og Copland, sem nefndin telur í skýrslu sinni, að sé „einstæður að efni til“. Var samningur þessi á þá lund, að Copland „taki að sér“ að greiða ½ millj. kr. af því, sem hann þá skuldar bankanum, en þó aðeins gegn því, að bankinn láni honum enn 125 þús. kr. til þess að hann geti keypt hlutabréf í fiskkaupafélagi, „er hann hefir í hyggju að stofna“. Tryggingin, sem bankinn fer fram á að fá, er ekki önnur en hlutabréfin, sem hann ætlar að kaupa. M. ö. o.: Tryggingin fyrir þessu nýja láni er lánið sjálft, eða þó öllu heldur hlutabréf, sem talin eru keypt fyrir þá peninga. Það skilyrði er sett, að jafnmikið fé komi annarsstaðar frá. Eru allar líkur taldar benda til þess, að það fé hafi aldrei innborgazt. Eigi að síður er það tekið fram í samningnum, að Copland megi ætla sér 35 þús. kr. árslaun fyrir að stjórna þessu væntanlega félagi. Loks er það skýrt tekið fram í samningnum, að bankinn megi ekki krefjast sér til handa, til endurgreiðslu vaxta og höfuðstóls og greiðslu fyrrnefndrar ½ millj. kr. ásamt vöxtum af henni, nema ágóðans, sem verða kynni á þessum 125 þús. kr. hlutabréfum í félagi, sem ekki var til, þegar lánveitingin fór fram!

En þessi „historía“ fór eins og til var stofnað. Það hélt áfram sama óreiðan og vanefndirnar urðu hinar sömu og áður hjá þessum kaupsýslumanni. Frá hans hálfu virðist ekki hafa verið til að dreifa öðru en blekkingum og undirhyggju gagnvart ráðlausri bankastjórn. Og loks 17. febr. árið 1931 var svo bú Coplands tekið til gjaldþrotaskipta, og nam þá tap bankans enn að nýju kr. 704872,95.

Skv. skýrslu n. hefir tap Íslandsbanka á viðskiptunum við Copland orðið samt. kr. 3250872,95, eða sem næst 1/6 hl. af öllum töpum Íslb. á árunum 1920–1930.

Þannig endaði þá sú fjármálahistoría, og hirði ég ekki um að hafa hana lengri. Þá skal ég reyna að bera örara á um næsta þátt. Þar kemur við sögu maður, sem einnig hefir oft verið nefndur opinberlega, bæði í ræðum og blaðagreinum, en það er Sæmundur Halldórsson kaupmaður í Stykkishólmi. Ég ætla þó ekki að rekja þá viðskiptasögu frá rótum, þó að hún sé margþætt og að ýmsu fróðleg. Ég ætla að byrja söguna þar, sem hefst lokaþáttur hennar, í ársbyrjun 1929. Þá liggja í vanskilum í bankanum 9 víxlar frá Sæmundi að upphæð 507 þús. kr., sem allir eru afsagðir og engin skil gerð fyrir vöxtum, hvað þá meira. En þó að greiðsluörðugleikar og vanskil Sæmundar séu á þá leið, er ég nú lýsti, virðist þó bankanum hafa þótt ástæða til að veita honum sérstaklega greiðan aðgang að fé bankans. Þann 16. maí 1929 fær Sæmundur lánaðar hjá bankanum . .... 15 þús. kr.

og sama dag . . …..

20 — —

11. júní fær hann . .. . . . . . .

15 — —

7. ágúst aðrar ...........

15 — —

12. september ............

15 — —

7. október ...............

15 — —

29. október ...............

15 — —

og 3. desember………………

15 — —

eða samtals

125 þús. kr.

En auk þess urðu yfirgreiðslur á hlaupareikningi hans rúmar 29 þús. kr.

Þegar vanskil þessa viðskiptamanns eru svo mikil, að 9 víxlar upp á rúma hálfa millj. kr. liggja afsagðir í bankanum, og engin skil gerð, þá opnar bankinn hurðir sínar upp á gátt og þessi sami maður gengur í bankann og tekur þar upphæðir næstum mánaðarlega um 15 þús. kr. þangað til nýja skuldin er orðin 125 þús. krónur. Ekki virðist hafa þótt ástæða til, er þessi nýju lán voru veitt, að vera að rekast í greiðslu vaxta af eldri skuldasúpunni. Og ekki voru tryggingar settar fyrir þessum nýju lánum.

En viðskiptum Íslandsbanka og Sæmundar Halldórssonar lauk með þeim hætti, að raunverulegt tap bankans er talið að hafa verið um 700 þús. kr.

Þá kem ég að þriðja og seinasta dæminu, sem ég ætla að taka að þessu sinni. Það er hlutafélag, eða félög, 3 eða 4, sem raunar eru öll sömu ættar og af sama faðerni. Fyrst er h/f Sólbakki, sem stofnað var árið 1915 og mun þá hafa keypt fóðurmjöls- og áburðarverksmiðju, sem nýlega var reist á Sólbakka við Önundarfjörð. Félag þetta hætti nokkru síðar, en var þó endurreist í Kaupmannahöfn 1919 og hét þá A/S Sólbakki.

Árið 1920 hefjast viðskipti þessa danska félags og Íslandsbanka og árið eftir er skuld þess við bankann orðin kr. 348800,00. Þetta hlutafélag hættir síðan störfum án þess að gera frekari grein fyrir skuldum sínum, enda komið í algert greiðsluþrot.

Haustið 1921 er svo enn stofnað nýtt félag á rústum danska félagsins og ber enn sama nafnið, h/f Sólbakki. Þetta félag gerir þó enga grein fyrir eldri skuldunum, en sumarið 1922 byrjar þetta félag sérstök viðskipti við Íslandsbanka. Aðalmaðurinn í þessu félagi og hinum þeirra hefir verið Kristján Torfason. Fékk hann hjá bankanum, sumarið 1922, 35 þús. kr. lán handa fél. Og nú fer að lifna yfir viðskiptunum, svo um munar. 15. des. fær þessi sami maður 125 þús. kr. hjá bankanum til greiðslu á þeim 35 þús., sem hann hafði áður fengið, en afganginn ætlar hann að nota til frekari viðskipta.

Um þessar mundir gerast allflókin viðskipti milli Kristjáns Torfasonar og Íslandsbanka, sem ég hirði ekki um að rekja nánar. En þeim lýkur á þann hátt, að á næsta ári, 1923, telur bankinn sér ekki annað fært en að afskrifa kr. 286685,15 sem algerlega tapað fé af lánum þeim, sem Kristján Torfason eða þetta þriðja hlutafélag hans hafði fengið.

Tap bankans reyndist þó meira en hér er talið vegna skulda Kristjáns Torfasonar við útibú bankans á Ísafirði, eða alls 350000 kr. Félag þetta er svo framselt til gjaldþrots í nóv. 1923.

Nú virðist svo kynlega við bregða, að eftir því sem örðuglegar gekk fyrir þessum viðskiptamanni og meiri urðu greiðslubrigði frá hans hendi, því auðveldara reyndist honum að fá fé hjá bankanum til framhaldandi viðskipta.

Í des. 1924 er enn stofnað nýtt félag hér í Reykjavík. Það er hlutafélagið Andvari, og Kristján Torfason er framkvæmdarstjóri þess. Það byrjar viðskipti sín í janúar 1925 og fær þá þegar 200 þús. kr. að láni hjá Íslandsbanka. Þegar félag þetta færir sig þannig svo rösklega upp á skaftið, er svo að sjá, að bankanum þyki viðskiptin álitleg, og fer þá á sömu leið um þennan mann og Sæmund Halldórsson, að bankinn opnar allar gættir fyrir honum og hann gengur í bankann næstu mánuði og tekur þar út upphæðir, sem ekki eru nein smálán, eins og ég mun brátt sýna fram á, eins og væri þar um geymslufé mannsins að ræða. Það skal tekið fram, að allar þessar upphæðir eru teknar án nokkurrar tryggingar. Féð er allt lánað út á andlit þessa manns, sem hafði undanfarið haft þau viðskipti í bankanum, er ég hefi nú lýst að nokkru fyrir hv. þdm. Ég ætla þá til fróðleiks og með leyfi hæstv. forseta að lesa hér upp skrá yfir þau lán, sem Íslandsbanki veitir Kristjáni Torfasyni f. h. h/f Andvara sumarið 1925 til viðbótar við áður veitt lán :

5. maí ................ kr. 80000,00

8. júní ................ — 50000,00

22. júní ................ — 50000,00

8. júlí ................. — 50000,00

23. júlí ................ — 150000,00

5. ágúst ............... — 100000,00

13. ágúst ............... — 100000,00

30. ágúst ............... — 150000,00

4. sept. ................ — 100000,00

24. sept. ................ kr. 100000,00

22. okt. ................ — 70000,00

Og það er látið standa svo vel á þessum upphæðum, að þær eru til samans nákvæmlega ein millj. kr.

Allir þessir víxlar féllu í gjalddaga á tilsettum tíma og voru framlengdir án afborgana og sumstaðar bætt við vöxtunum. Er nú skemmst frá að segja, að viðskiptum Íslandsbanka og Kristjáns Torfasonar lauk á þá leið, að bankinn tapaði alls:

á Sólbakkafélaginu ...... 350000 kr. og á Andvara .......... 1157496 —

en það er samtals 1507496 kr.,

eða rúmlega 1½ millj. kr.

Ég hefi gefið þetta yfirlit, þótt leiðinlegt kunni að þykja, vegna þess að í því felst undirstaða sú, sem síðari liður till. minnar byggist á. Af þeim dæmum, sem ég hefi dregið fram, er ljóst, að nauðsynlegt er að gera einhverjar þær ráðstafanir, er tryggi betur en verið hefir lánveitingar bankanna, og að setja sérstök skilyrði fyrir þeim lánum, sem veitt eru til atvinnurekstrar landsmanna.

Að vísu skal ég játa, að það muni vera vandamál að setja þau skilyrði, sem að gagni koma í þessu efni: En ef Alþingi gerir ekkert til þess að leita að slíkum leiðum, þá verða þær aldrei fundnar. Og það er ekki verjandi né vansalaust fyrir Alþingi að horfa upp á það ár eftir ár, að fé þjóðarinnar misfarist með slíkum ódæmum í vörzlum einstakra manna. Ef ekki eru í gildi ákveðnar reglur eða skilyrði sett um hófsamlega og samvizkusamlega meðferð lánsfjár og starfsfjár, þá hlýtur að reka til mikils ófarnaðar fyrir þjóðinni hér eftir eins og hingað til.

Annar tölul. till. minnar fer fram á, að leitazt verði fyrir um leiðir til þess að setja haldbær skilyrði um lánveitingar úr bönkum. Kem ég þá að því, hversu unnt yrði og á hvern hátt megi takast hófsamlegri og gætilegri meðferð lánsfjár. Í niðurlagi till. er með stafl. a. og b. bent á tvo stóra hluti að koma á kostnaðarminna og hagkvæmara skipulagi um stjórn útgerðar og verzlunar í landinu og að koma til leiðar hlutaskiptum við sjávarútgerðina.

Ég skal þá til frekari rökstuðnings við stafl. a. í þáltill. fara fáeinum orðum um stjórn útgerðarmálanna í landinu.

Eins og kunnugt er, eru nú hér á landi gerðir út 38 togarar. Það munu vera uppi skoðanir um það, að með nánara samstarfi togaraeigenda og útgerðarmanna mætti reka togaraútgerðina með minna kostnaði en nú gerist. Ég hygg, að það sé rétt, að í Þýzkalandi hafi verið gerðar ýtarlegar ráðstafanir til þess að draga úr kostnaði við togaraútgerð með því að sameina mörg félög undir eina stjórn, og mættum við Íslendingar eitthvað af því læra. Hér á landi starfa 19 skrifstofur að því að stjórna 38 togurum, og er þá til jafnaðar ein skrifstofa fyrir hverja 2 togara. Þessum skrifstofum stjórna 24 framkvæmdastjórar, eða nokkru fleiri en skrifstofurnar eru, og liggur það í því, að talið er, að við eitt togarafélagið starfi 6 framkvæmdastjórar. Enginn vafi er á því, að með nánara samstarfi mætti færa saman undir fámenna stjórn útgerð togaranna og draga á þann hátt mikið úr kostnaðinum.

Ég skal ekki að þessu sinni leiða getum að því, hvað mikið fé fer til þessara framkvæmdastjóra, sem stjórna togaraútgerðinni, en það leikur orð á því, að sumir þeirra hafi allhá laun, og lifnaðarhættir sumra þeirra taldir slíkir, að þeir virðist ekki geta komizt af með minna en 20–30 þús. kr. í árslaun. Er það ljóst, að hér er um óeðlilega þunga byrði að ræða af stjórn þess atvinnuvegar.

Það hefir komið fram hér í þinginu þáltill. um að sameina útgerð Eimskipafél. Íslands og ríkisskipanna, og á það að vera úrræði til þess að draga úr kostnaði við rekstur útgerðarinnar. Skal ég ekki ræða um hana né mæla gegn henni. En ef það er nauðsynlegt að sameina rekstur þessara tveggja stofnana, þá er ekki síður ástæða til að athuga um leiðir til að sameina útgerðarstjórn togaraflotans, til sparnaðar á rekstrarkostnaði.

Ég hefi bent á þetta um leið og ég færi fram þau rök, sem styðja till. mína, án þess að ég hafi aðstöðu til að fara lengra út í þessa sálma nú. Ég geri ráð fyrir, að því verði haldið fram af andmælendum mínum, ef umr. verða hér á eftir um þessa till., að ríkið hafi engan siðferðislegan rétt og því síður skyldu til þess að skipta sér af rekstri einkafyrirtækja. En ég held því gagnstæða fram og tel, að ríkið hafi bæði rétt og skyldu til íhlutunar um þessi mál. Það er nauðsynlegt vegna þess, að útgerðarfyrirtækin eru í raun og veru rekin á ábyrgð ríkisins. Reynslan hefir ávallt sýnt, að þegar atvinnuvegirnir komast í kröggur og ýms atvinnufyrirtæki lenda í þroti, þá kemur það niður á bönkunum, en ríkið ber ábyrgð á bönkunum og verður að bera blak af þeim. Þannig ber allt að sama brunni, hvar sem leitað er í starfi og lífi þjóðarinnar. Það er ríkið, sem verður að hlaupa undir baggann, þegar einkafyrirtækin og bankana ber upp á sker. Og bankatöpunum, sem leiðir af rekstri atvinnuveganna, er jafnað niður á almenning í landinu með háum vöxtum og verðlagi á peningum og almennri dýrtíð.

Þáltill. fer fram á það, að leitazt sé við að hafa áhrif á þetta. Það er brýn nauðsyn, ekki eingöngu vegna ríkisins, heldur þeirra fyrirtækja, sem hlut eiga að máli. Togaraútgerðinni hefir nýskeð verið lýst þannig hér í þingdeildinni af einum útgerðarmanni, að hún væri máttvana og mergsogin. Það er því furðulegt, ef engar tilraunir verða gerðar til þess að gæta hófs og sparnaðar um meðferð fjár við stjórn og rekstur þessara fyrirtækja, og gegnir mikilli furðu, að slíkar kröfur virðast hvergi koma fram nema um rekstur ríkisstofnana.

Þá er ég kominn að síðasta lið till., og skal ég reyna í sem fæstum orðum að gera grein fyrir því, hver muni í rauninni vera haldbezta tryggingin fyrir því, að farið sé skynsamlega með lánsfé til atvinnurekstrar og hver skilyrði verði að setja fyrir þeim útlánum.

Bezta tryggingin fyrir útlánum til atvinnurekstrar er sú, að atvinnuvegirnir séu reknir á ábyrgð allra, sem að þeim starfa, og að hlutaskipti verði ákveðin við útveginn, hvar sem þeim verður við komið. Hygg ég, að þetta mætti oft beinlínis setja sem skilyrði fyrir slíkum lánveitingum.

Ég hefi áður í blaðinu Degi, sem gefið er út á Akureyri, ritað um „framtíðarúrræði í verkamálum“, í 42., 43. og 44. tölubl. 1921. Í þeim greinum hefi ég bent á nauðsyn þess, að dregið verði úr misvægi atvinnuveganna frá ári til árs og leitað róttækra ráðstafana til þess að koma í veg fyrir skakkaföll. Virtist mér, að tvennt væri einkum nauðsynlegt.

Í fyrsta lagi að finna sannvirði vinnunnar og greiða kaupgjaldið eftir niðurstöðu hvers árs í atvinnurekstrinum. Þessi hugmynd um sannvirði vinnunnar er fengin frá kaupfélögunum, sem hafa það hlutverk að leita að sannvirði vörunnar. Og vöruverðið greiða þau ekki til fulls til félagsmanna fyrri en vörurnar eru seldar og niðurstaða hvers árs komin í ljós.

En um vinnusölu verkamanna hefir ríkt hið megnasta handahóf, kaupið er ákveðið fyrirfram, áður en kunnugt er, hvaða kaupgjald atvinnureksturinn þolir og alveg án tillits til þess. Höfuðnauðsyn þessa máls er sú, að finna á hverju ári sannvirði vinnunnar og greiða kaupið samkv. því. Það er kunnugt, að fram að síðasta mannsaldri, meðan vinnuhjúahald var almennt í landinu og meðan lítið var hér um peninga, fóru kaupgreiðslur fram í hlutaskiptum, bæði við landbúnaðinn og sjávarútveginn. Vinnuhjúin voru þá einskonar hluthafar í búi bóndans og tóku kaup sitt í kindafóðrum. Þess vegna höfðu þau nálega sömu ábyrgðartilfinningu gagnvart rekstri búsins eins og húsbændurnir.

Meðan smábátaútvegurinn var einráður, voru hlutaskiptin sjálfsögð regla um skiptingu arðsins, og hver háseti bar þá sinn rétta hlut frá borði. Nú á síðustu árum er áreiðanlega að aukast meðal almennings skilningur á því að láta þessa reglu ráða mestu í viðskiptum verkamanna og atvinnurekenda. — Ég endurtók þessar bendingar mínar, um úrræði í verkamálum, í Tímanum, 3. tölubl. 1929, þegar ég var ritstjóri þess blaðs, og fékk þá hinar verstu undirtektir frá báðum aðiljum í vinnudeilum, fulltrúum verkamanna og atvinnurekenda. En nýlega hefi ég þó séð í aðalmálgagni atvinnurekenda hér í bænum, að þessu orðtaki, „sannvirði vinnunnar“, er þar hampað eins og lausnarorði í atvinnuvandræðunum. — Ég vil endurtaka það og leggja á það sérstaka áherzlu, að allir þeir, sem vinna að einni og sömu atvinnugrein, eiga að vera hluttakendur um afkomu hennar, hljóta ágóðahluta, þegar því er að skipta, og bera jafnframt fulla ábyrgð á rekstri og niðurstöðu fyrirtækisins.

Um leið og ábyrgðin yrði færð yfir á herðar allra, sem vinna við sama fyrirtæki, verður að mynda varasjóð til að mæta óvæntum áföllum. Í fyrrnefndri ritgerð minni í „Degi“ var lögð á það áherzla sem annað höfuðatriði í þessum málum, að á bak við atvinnuvegina yrði myndaður slíkur varasjóður og að allir aðiljar tækju þátt í myndun hans. Hlutverk þessa sjóðs yrði hið sama og fleygihjóls í aflvél, sem ber hreyfiarma hennar yfir dauða punkta. Hér á Alþingi er nú uppi hugmynd um jöfnunarsjóð ríkisins, sem er skyld hugmynd. En ég teldi eigi síður þörf slíkrar sjóðsmyndunar bak við atvinnuvegi landsins.

Ég hefi nú talað alllengi um þessa till. og skal nú láta máli mínu vera lokið. Ég geri ráð fyrir, að sumir hv. dm. telji sér fært að gera ýmsar aths. við sumt af því, sem ég hefi sagt, vegna þess að þegar farið er inn á nýjar leiðir í vandasömum málefnum, þá verður sumstaðar að þræða á tæpum vöðum. En ég mun, eftir því sem efni standa til, halda fast á höfuðrökum þessa máls, sem till. mín fjallar um, og þeim úrræðum, sem þar er bent á í erfiðustu vandamálum þjóðfélagsins, sem liggja á þessum leiðum. Enda mun skammt að bíða miklu meiri ófarnaðar og vanda heldur en þjóðinni hefir enn að höndum borið, ef ekki verður hafizt handa um gagngerðar skipulagsumbætur í atvinnumálum landsmanna, viðskiptum og samstarfi manna í landinu.