17.03.1932
Neðri deild: 31. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1191 í C-deild Alþingistíðinda. (4304)

152. mál, stóríbúðaskattur

Flm. (Jónas Þorbergsson):

Hv. 3. þm. Reykv. lét þess getið, að þetta væri ekki í fyrsta sinni, sem við Framsóknarmenn værum að hnupla málum frá þeim jafnaðarmönnunum og gera að okkar eigin málum. Hann gat þess um leið, að þeir mundu grípa til þess ráðs að prenta á frv. sín orðin: „Öll réttindi áskilin“. (HV: Það veitir ekki af því). Ég vænti þess, að hv. 3. þm. Reykv. sé svo þroskaður maður og að honum sé fyrst og fremst svo annt um þau malefni, sem um er að ræða að hann taki það ekki nærri sér, þó aðrir taki sér fyrir hendur að bera málin fram, ef þá er borgnara, að náð verði því takmarki, sem þau stefna að. Því þó Alþýðuflokkurinn hafi á sumarþinginu borið fram frv., sem var þannig vaxið, að það náði ekki hylli, a. m. k. ekki innan þingsins. — (HV: En utan þings?). Hitt, um vinsældir þess utan þings, kemur í ljós í næstu kosningum, og jafnframt hvað þeir jafnaðarmennirnir hafa grætt á þingsetu sinni síðan þeir biðu síðasta ósigur. — En eins og ég sagði, þá náði þetta frv. þeirra engri tiltrú. Og þó þeir eigi góðar hugmyndir í þessu kreppufrv., sem vert er að taka til greina og teknar út úr frv. gátu orðið þannig, að hægt væri að vekja með þeim samúð, þá mega þeir vera þakklátir fyrir, að aðrir skapa þeim hugmyndum þá tiltrú, sem þeir eru ekki megnugir að skapa sjálfir. Og það eru auðvitað öfgar, að þó Alþýðuflokksmönnum takist að hrúga saman góðum hugmyndum í eina kös í stóru frv., og láta svo prenta á það: „Öll réttndi áskilin“, þá séu þeir þar með búnir að lögfesta, að þeir eigi einkarétt á þeim hugmyndum. Ég veit ekki betur en að allir borgarar landsins eigi fullan rétt á að notfæra sér þær hugmyndir, sem fram koma, svo það eru ekki miklar líkur til, að þetta bann Alþýðuflokksmanna yrði virt mikils. (HV: Þetta er kenning Jónasar Þorbergssonar í Tímanum).

Annað var ekki þess vert að svara í ræðu hv. 3. þm. Reykv. Hann gat þess að vísu, að það væri eðlilegt, að þessum skatti yrði varið í einhæfu augnamiði, til þess að byggja verkamannabústaði. En það er mikill vafi, að það sé rétt hjá hv. þm., að þetta sé sú rétta leið. Sú almenna þróun í landinu er borin uppi af almennu samstarfi þjóðarinnar, og það er því eðlilegt, að þeir skattar, sem koma sem afleiðing af þesskonar þróun, renni í ríkissjóð. Þetta er hin almenna regla. En á síðustu árum hefir nokkuð brytt á þeirri stefnu að binda tekjur ríkissjóðs við viss fyrirtæki. En það er þó ýmislegt varhugavert við þá stefnu. Ennfremur má benda á það, að þótt ekki sé í frv. gert ráð fyrir, að skatturinn gangi til að byggja verkamannabústaði, þá miðar hann þó til þess, að þeir, sem búa við þröngan kost, fái fremur en ella úrlausn í því efni, með því að það er gert ráð fyrir, að þetta losi eitthvað af húsnæði, sem er að óþörfu í notkun annara borgara í bænum.

Ég þarf litlu að svara hv. þm. G.-K. Mér þótti vænt um að fá þá yfirlýsingu frá honum, að hann gæti fallizt á og væri samþykkur aðalstefnu frv., þó hann hinsvegar hafi ótrú á, að það nái tilgangi sínum, þeim aðaltilgangi að bæta úr húsnæðisvandræðum í bænum, þar sem hann heldur, að það muni verða til að hækka húsaleiguna, af því að það muni draga úr byggingum. Mér skilst, að frv. muni ekki hafa mikil áhrif í þá átt að draga úr framkvæmdum þjóðarinnar. Það miðar aðeins að því að jafna húsnæði milli manna, ef það getur orðið til þess. Það má e. t. v. segja, að það muni draga úr byggingum, en það má þá eins vel segja, að það dragi líka úr þörfinni fyrir byggingar fyrir verkamenn í Rvík, þar sem þetta frv. miðar að því, ef svo má verða, að þeir, sem hafa meira húsnæði en þeir nauðsynlega þurfa, sæju sér hag í því að láta nokkuð af því af hendi til þeirra, sem er í mestum vandræðum með húsnæði, en það eru aðallega verkamenn bæjanna.